Brautarmet voru slegin í bæði karla og kvennaflokki í Þórsmerkurhlaupinu Volcano Trail Run um helgina þrátt fyrir að aðstæður hefðu verið krefjandi á köflum. Guðni Páll Pálsson kom í mark á tímanum 01:05:01 og Astrid Olafsdottir á 01:26:58. En hlaupið var haldið í sjötta sinn um helgina og yfir 100 keppendur voru skráðir til leiks. Þórsmerkurhlaupið, sem hefur verið valið eitt af bestu utanvegahlaupum landsins og telur 12 kílómetra, hefst við skála Volcano Huts í Húsadal og er hlaupið inn Húsadalinn áleiðis upp Laugaveginn. Beygt er af leið til hægri í áttina að Langadal þegar komið er upp úr Húsadal og farið af stígnum upp á Slyppugilshrygg og þaðan niður í Slyppugilið. Þaðan er beygt í átt að Tindfjallasléttu og niður Stangarháls að Stóraenda. Síðan er hlaupið eftir Krossáraurum að Langadal og stefnan er tekin upp Valahnúk. Þar tekur við 275 metra hækkun, en síðan liggur leiðin niður að vestanverðu að endamarkinu í Húsadal. Saga Þórsmerkurhlaupsins telur 6 ár, en hlaupið er haldið af Volcano Huts sem reka gisti- og veitingaþjónustu í Húsadal. Fyrsta árið tóku um 20 manns þátt en í fyrra voru um 170 manns skráðir. Í samtali við Bjarna Frey, framkvæmdastjóra kom fram að hugmyndin hafi kviknaði þegar gestir frá Bandaríkjunum hlupu um Þórsmörk þvera og endilanga. Þá áttuðu mótshaldarar sig á því að stór hópur fólks ferðast í þeim tilgangi að hlaupa leiðir og stíga í fallegu umhverfi. Þá langaði því að bjóða fólki upp á skemmtilega upplifun í kringum þessa útivist. Nokkur fjöldi erlendra hlaupara hafa tekið þátt undanfarin ár og fer þeim fjölgandi á hverju ári. Að sögn Bjarna hafa þeim borist nokkrar fyrirspurnir […]
Hálendishlaupið Fire and Ice Ultra var ræst í dag í áttunda skipti. Þetta 250 km ofurhlaup á Norðausturlandi var fyrst hlaupið árið 2012. Lagt var af stað frá Dreka í Dyngjufjöllum í Vatnajökulsþjóðgarði. Þátttakendur hlaupa með allt á bakinu og gista í tjöldum í sex nætur. Komið verður í mark í Ásbyrgi laugardaginn 31.ágúst. Um 50 manns taka þátt, en það er ámóta fjöldi og undanfarin ár. Þátttakendur koma frá 14 löndum: Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal, Þýskalandi, Sviss, Filippseyjum og Belgíu. Einn keppandi er frá Íslandi. Flestir þátttakendur koma frá Bretlandi, en þeir sem koma lengst að eru frá Ástralíu. Fjórir hlauparar taka núna þátt í annað skipið, tveir fyrir nokkrum árum og tveir tóku líka þátt í fyrra. Talsverður vindur var fyrsta hlaupadaginn, en allir þátttakendur skiluðu sér heilu og höldnu á leiðarenda fyrstu dagleiðina. Hægt er að fylgjast með á fésbókarsíðu hlaupsins. Og í 2.tbl Úti var hin prýðilegasta umfjöllun um Fire and Ice hlaupið. Erfiðasta hlaup Íslands, án efa.
Urriðavatnssundið fer fram árlega, en hvernig byrjaði það? Hér er sagan.
Það var „allt gefið í botn í Bláalónsþrautinni“ á laugardagskvöld, eins og sigurvegarinn í kvennaflokki, Karen Axelsdóttir, orðar það í færslu sinni á Facebook. Karen vann frækilegan sigur. Hún skilaði sér í mark á tímanum 1 klst og 53 mínútum, og bætti þar með brautarmet kvenna um tæpar tvær mínútur. Keppnin fór fram við frábærar aðstæður að þessu sinni. Öfugt við keppnina í fyrra, sem verður í minnum höfð fyrir mikið harðræði. Veðrið lék við keppendur og meðvindur var mestallan tímann. Brautin var þurr en laus í sér á köflum. Það var því eitthvað um byltur og skrámur. Einn keppandi hlaut opið beinbrot á mölinni rétt fyrir drykkjarstöðina. Sigur Karenar var einstaklega sætur. Hún á að baki frábæran keppnisferil í þríþraut og hjólreiðum. Byrjaði að keppa í þríþraut árið 2006 en lenti svo í áfalli árið 2012, þegar hún mjaðmabrotnaði við hjólreiðar á Spáni. Eftir að hafa jafnað sig á því, kom svo annað áfallið þegar hún hálsbrotnaði í Transalp hjólakeppninni í Ölpunum. Í viðtali við DV fyrir ári, í tilefni af opnun hjólastúdíós hennar í Sólum úti á Granda, orðaði Karen það þannig að við þessi áföll hafi hún „misst keppnisferilinn“. Við á Úti leyfum okkur að efast um það, miðað við árangurinn um helgina. Karen er komin aftur: „Að sigra Blálónsþrautina er fyrir mig persónulega mikið stolt þar sem mótið er langstærsta hjólamót ársins og brautin reynir jafnt á mann sem fjalla- og götuhjólara,” segir Karen í færslunni. Og svo þetta: „Rúsínan í pylsuendanum var að vinna liðakeppnina og hjóla síðustu km með vini mínum Inga en það var tilfinningatengt reunion þar sem hann var partnerinn minn í […]
Ein flottasta viðbótin í flóru utanvegahlaupa á Íslandi er án efa Puffin run, eða Lundahlaupið í Vestmannaeyjum sem fram fer um helgina. Þetta er 20 kílómetra hringur um Heimaey sem fetar sig eftir nýja hrauninu, fer alla leið útá Stórhöfða, meðfram sjávarhömrum með stórfenglegu útsýni allan tímann. Mikil ánægja var með hlaupið á síðasta ári þegar það fór fram í fyrsta sinn. Allt um hlaupið hér. Þetta er kjörin afþreying fyrir fólk með mikla hreyfiþörf sem ætlar ekki í Fossavatnið um helgina. Það spáir góðu rólyndisveðri í Eyjum um helgina þannig að þetta getur ekki klikkað. Það er stefnt að því að hefja siglingar í Landeyjahöfn á fimmtudag og ef það gengur eftir verður hægt að skreppa til Eyja að morgni, taka þátt í hlaupinu og fara heim síðdegis.
Um helgina var Sigló Freeride Weekend haldin hátíðlega á Siglufirði í fyrsta sinn. Þar kom saman fólk á öllum aldri og getustigum til að renna sér á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Bjart var yfir firðinum og létt yfir fólki, sem sumt mætti aðeins til að skemmta sér á meðan aðrir mættu til að sigra. Að baki hátíðarinnar standa íslenska framleiðslufyrirtækið The Empire og Freeride World Tour. Freeride World Tour samtökin hafa staðið fyrir 130 viðburðum, með meira en 4.000 þátttakendum í utanbrautarkeppnum úti um allan heim. Hápunktur Sigló Freeride Weekend var keppni í utanbrautarrennsli með frjálsri aðferð. Þátttakendur voru 63 talsins í flokki fullorðinna og ungmenna og kepptu þeir ýmist á skíðum eða snjóbretti. Undanúrslit fóru fram á föstudeginum þar sem keppendur renndu sér niður af Grashólabrún Illviðrishnjúk nyrðri. Á meðan horfði dómnefnd á og ýmist gaf eða dró frá keppendum stig fyrir tækni, stjórn og stökk. Dómnefndin í ár var skipuð þaulreyndum utanbrautarköppum, þeim Benjamin Calmel, Daníel Guðmundssyni og Guillaume Kollibay. Tuttugu og sex manns komust áfram í úrslitakeppnina sem fór fram á Illviðrishnjúk syðsta, strax daginn eftir. Stressið leyndi sér ekki á laugardeginum enda virkar leiðin niður Illviðrishnjúk syðsta álíka óhugnaleg og nafnið gefur til kynna. Í það minnsta fyrir þeim sem ekki þekkja sig til á svæðinu. Keppendur sýndu hinsvegar af sér mikinn kjark og komust allir heilir niður á endanum. Hér eru þeir keppendur sem komust á pall í sínum flokki: U-16 skíði U-18 skíði U-18 snjóbretti Skíði karla Skíði kvenna Snjóbretti karla Snjóbretti kvenna Við hefðum aldrei geta gert þetta nema fyrir frábært fólk sem lagði svo mikla vinnu á sig til að allt gengi vel […]