Margir lesa Aðventu Gunnars Gunnarssonar fyrir hver jól til þess að ná þessari einstöku „nú mega jólin koma“ tilfinningu. Stækkandi hópur lætur ekki þar við sitja heldur fer í aðventugöngu með bókina í eyrunum. Það tekur nefnilega ekki nema rétt rúma tvo tíma að hlusta á alla bókina sem er aðgengileg í lestri Róberts Arnfinnssonar til dæmis á Storytel. Það er eins og að hlusta á rödd gamla Íslands að upplifa túlkun Róberts á texta Gunnars um leit þeirra Fjalla-Bensa, Eitils og Leós að eftirlegukindum á Mývatnsöræfum.

Slík ganga hefur undanfarin ár verið farin á skíðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en þar sem nú er engan snjó að finna verður farið í venjulega göngu á sunnudaginn. Útihreyfingin leggur af stað kl. 15 í ljósaskiptunum og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Allt um gönguna hér.