Útivistarverslunin Útilíf og Útihreyfingin hafa skrifað undir samstarfssamning sín á milli sem miðar að því að að bæði félög nái markmiðum sínum og vinni jafnframt saman að sjálfbærum verkefnum sem varðveita íslenska náttúru fyrir komandi kynslóðir.

Útihreyfingin stefnir á að verða besta útivistarfyrirtækið á Íslandi en hún býður uppá hreyfiverkefni og ævintýraferðir af margvíslegum toga. Nú þegar æfa á annað hundrað Íslendinga með Útihreyfingunni nokkrum sinnum í viku um allt land en einungis tveir mánuðir eru síðan hún hóf starfsemi sína. Þátttakendur æfa í samræmi við markmið sín og áætlanir í skíðagöngu, langhlaupum, fjallamennsku, fjallahjólreiðum, klifri, fjallaskíðum og sjósundi.

Útilíf er ein fremsta íþrótta og útivistarverslun landsins og stefnir á að efla sig enn frekar á því sviði. Hluti af þeirri vegferð er endurmörkun og staðfæring fyrirtækisins með opnun nýrrar sérhæfðrar útivistarverslunar í Skeifunni ásamt því að byggja upp The North Face vörumerkið. Útilíf ætlar sér að verða fyrsti valkostur þeirra sem stunda útivist og almenna hreyfingu utan- og innandyra.

Hörður Magnússon, framkvæmdastjóri, segir þau hjá Útilíf hafa fylgst af áhuga með undirbúningi og stofnun Útihreyfingarinnar: „Þar er kominn saman ótrúlegur kraftur, útivistaráhugi og gífurleg reynsla í útivistinni. Þessi blanda er alveg einstök. Útilíf byggir á áratuga reynslu í sölu útivistar- og skíðavara og stefnir enn hærra með nýjum áherslum. Markmið Útilífs og Útihreyfingarnar eiga einstaklega vel saman og við hlökkum til samstarfsins.“

Markmið beggja er að vinna saman að því að fjölga iðkendum útivistar og hreyfingar á Íslandi og fjölga þar með náttúruunnendum hérlendis. Samstarfið felur m.a. í sér að starfsmenn, leiðsögumenn og þjálfarar Útihreyfingarinnar notast við klæðnað og búnað úr verslunum Útilífs.
Helga María Heiðarsdóttir er framkvæmdastjóri Útihreyfingarinnar: „Það er okkur dýrmætt að finna þann mikla meðbyr sem við njótum á upphafsmetrunum. En það eru ekki alltaf sól og blíða. Við erum að bjóða fólki uppá hreyfingu úti í öllum árstíðum og öllum veðrum og þá skiptir búnaðurinn höfuðmáli. Við hlökkum þess vegna til samstarfsins með Útilíf og finnum að þeirra áherslur eiga samleið með okkar.“