Þegar ég var 17 ára gaf Lynn Woodyard mér gamla hlaupaskó af sér og lagði til að ég myndi hlaupa með honum. Hann var skiptinámspabbi minn; kennari, íþróttamaður og náttúruunnandi. Drakk ekki. Ég fór að hlaupa daglega uppúr þessu og hljóp fyrsta hálfmaraþonið mitt þarna um stærsta eplaræktunarsvæði veraldar í Yakima dalnum í Washington ríki. Þetta var 1988. Ég átti walkman og hljóp með ACDC, Iron Maiden, Def Leppard og U2. 

Tuttugu árum síðar þegar ég var sjálfur nýhættur að drekka fann ég að hlaupin læknuðu eirðarleysi sem ég fann fyrir eitt föstudagssíðdegi um sumar, að lokinni strangri vinnuviku á Alþingi. Ég hafði aldrei yfirgefið hlaupin en nú fór ég að hlaupa reglulega og af endurnýjuðum krafti. 

Árið 2012, fyrir sléttum 10 árum, las ég svo af athygli greinaflokk eftir Paul Scott á Outside. Ég var þá komin á bragðið með þátttöku í allskyns almenningsíþróttaviðburðum. Hafði hlaupið nokkur hálf maraþon, eitt götumaraþon og tvo Laugavegi. Greinaflokkurinn hét Shape of your life og ástæðan fyrir því að þetta greip mig var að ég hafði einmitt verið að hugsa að mín æfingarútína þyrfti að vera fjölbreytt, markmiða- eða áskoranamiðuð og þjóna einhverjum raunverulegum tilgangi. Ekki yfirborðskenndum draumórum um að líta út eins og Laird Hamilton, brimbrettakappi, sem var módelið í greinaflokknum. Þó ég hefði alveg verið til í að vera með svona þykkt og mikið hár. En sú lest var því miður löngu farin þá og er komin enn lengra í burtu í dag. Og er þetta raunverulega hárið hans? Ég leyfi mér að efast. 

Ég var að hugsa til langs tíma enda nýorðin fertugur (just a kid with crazy dreams) um hvernig maður gæti æft stöðugt án meiðsla og þannig að maður væri að viðhalda styrk, þoli, jafnvægi og liðleika. Fyrir mig var þetta mikið fjalla- og klifurtengt. Ég gædaði uppá Hnjúk árlega á þessum tíma, oft tvær þrjár ferðir á vori og þurfti að geta borið þungan poka með blautri línu, skyndihjálpargír, neyðarskýli og sprungubjörgunargræjum, auk alls hins sem allir eru með. Og eiga nóg afl og þol eftir til að geta brugðist við ef eitthvað kæmi uppá. Sprungubjörgun, sem ég æfi enn árlega, krefst í senn liðleika og styrks. Margt klöngrið á fjöllunum kallar á gott jafnvægi, fótafimi og þokkalega góðan sans fyrir því hvernig hægt er að láta líkamann vinna með sér. Klifur snýst meira um liðleika og jafnvægi en styrk. 

En svona fór ég að æfa. Vöðva og styrk í Mjölni og langhlaup og hjól. Svo byrjuðum við með Landvættaævintýrið 2015 og ég var allt í einu orðinn útiþjálfari. Og líkaði það vel. Rúmur helmingur þeirra sem farið hafa í gegnum Landvættaáskorunina eru þjálfaðir af mér og Brynhildi minni, eða einhverjum úr okkar þjálfarahópi. Þetta eru hátt í 700 manns. Blanda af alls kyns skíðum, hjólreiðum, fjallahlaupi og sundi hefur verið mín æfingarútína síðustu 7 ár.  Og auðvitað fjallgöngur og klifur.

Útihreyfingin byggir að stórum hluta á þessari hugsun. Þetta á að vera fjölbreytt og skemmtilegt en líka þannig að við séum ekki að missa frá okkur getu sem við höfum haft frá barnæsku. 

Mér finnst leikfimi svo gott orð. Að leika er auðvitað bara alltaf gaman. En að vera leikfimur er líka eitthvað sem hægt er að æfa. Þess vegna æfum við, auk fyrrnefndra íþróttagreina, allskyns hreyfingu. Að stökkva yfir grindverk og tipla á grjótum. Hlaupa yfir húsþök, hanga í slám og takast á í reiptogi.  Þannig erum við að vinna með nánast alla vöðvahópa. Fjölbreytt æfingaprógram sem byggir á krossþjálfunarhugsun eins og Útihreyfingin á að styrkja okkur allan hringinn og gera okkur klár, sterk og fim í öll möguleg ævintýri.  Halda okkur í besta formi lífsins.