Síðustu þrír dagar hafa verið þrusugóðir hjá leiðangrinum okkar. Í gær var viðbúið að þau þyrftu að hafast við í tjöldum vegna óveðurs sem spáð var. Í ljós kom að þetta varð þeim að hinum fínasta meðvindi og ekkert of kalt. Þau náðu 25 kílómetrum en hópur Arctic Hiking sem er á leið í hina áttina lenti í brjáluðu veðri uppi á hábungu jökulsins.

Í fyrradag fóru þau 30 kílómetra í frábæru færi, sól og blíðu. Þetta er kærkomið því þau hafa verið óheppin svo ekki sé fastara að orði kveðið, lent í ítrekuðum fimbulkuldaköstum sem hefur gert rennslið afar lélegt. Þau eiga núna um 100 kílómetra eftir og er líklegt að þau klári um helgina. Verða að líkindum sótt við bláenda jökulsins á sunnudag. Hvernig það verður gert veltur á því hversu mikill ís er á svæðinu. Sá sem þetta skrifar er mættur til Tasilaq til að skipuleggja endurheimt leiðangursmanna og er Norðurfjörðurinn fullur af ís. En það getur breyst hratt.

Þau eru farin að berjast svolítið í hörðum rifsköflum með mjúkum snjó inn á milli eins og við má búast þegar halla fer niður jökulinn. Púlkurnar hafa verið að velta en skíðasleðarnir standa sig betur í slíku færi.

Þau senda knús og kveðjur á alla heima.