Það var hátíðleg stund á Grænlandsjökli í gær þegar tveir hópar íslenskra á leiðangursmanna á leið sinni, úr sitthvorri áttinni, yfir jökulinn mættust á hjarnbreiðunni. Þetta voru fagnaðarfundir og mikil gleðilæti brutust út við þennan heimsögulega viðburð en hóparnir hafa verið í gervihnattasambandi í gegnum Garmin Inreach.

Vertu úti hópurinn, sem fjallað hefur verið um hér á síðustu vikum, gekk hátíðlega til fundarins í tvíbreiðri fylkingu með þau Brynhildi og Stein Hrút fremst í flokki. Þau mæltu fyrstu orðin sem fóru á milli hópanna:

Doktor Livingstone, I presume?

Með vísan í frægan fund blaðamannsins Henry Morton og landkönnuðarins David Livingstone eftir að hins síðarnefnda hafði verið saknað í 6 ár í Afríku.

Vertu úti leiðangurinn söng afmælissöng fyrir Ágúst í hópi Arctic Hiking en hann átti 60 ára afmæli í fyrradag.

Brynhildur segir í skeyti sínu: Okkur var tekið fagnandi og boðið upp á Jameson, After Eight og úrval af súkkulaði sem við úðuðum í okkur. Svo sungum við frumsamið ljóð við lagið Ólafur reið með björgum fram til heiðurs Einari Torfa, leiðangursstjóra hins hópsins, og fórum að auki með ljóð um Vilborgu okkar. Við dönsuðum öll færeyskan hringdans og sungum. Undarlegri atburður hefur örugglega ekki sést á Grænslandsjökli.

Þetta er heimsmet án vafa. Í Vertu úti hópnum eru 8 og í Arctic Hiking 6 og voru því þarna saman komnir 14 Íslendingar. Aldrei þessu vant var veðrið þannig að hægt var að stoppa í dágóðan tíma. Mikið var spjallað og skrafað; ættir raktar og sameiginlegur kunningsskapur eins og íslendinga er siður er hittast á erlendri grundu. Eftir um 2 klukkustundir var ekki til setunnar boðið og hóparnir héldu hvorn sinn veg.

Þau fóru 21 kílómetra í gær og fundu í fyrsta sinn að hallaði niður í mót þó í stutta stund væri. Þau vonast til að geta rakað inn kílómetrum í dag því svo spáir frekar vondu veðri á morgun. Þau eiga tæplega 190 kílómetra eftir.