Ævintýraleg fjallahlaupaferð, 7. – 14. september, innan um stórbrotnustu alpatinda Sviss, þar sem saga háfjallaklifurs hófst. Svæðið er að auki fyrirmynd Tolkiens að heimkynnum álfanna í Hringadróttinssögu enda annálað fyrir himneska fegurð. 

Átta daga ferð, þar sem hlaupið er í sex daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Farangur er sendur á milli staða og aðeins hlaupið með það allra nauðsynlegasta á bakinu. Þrjár nætur er gist í sögufrægum fjallaskálum og þrjár nætur á huggulegum gistiheimilum. Síðustu nóttinni er svo eytt á góðu hóteli með sundlaug og gufu og öllum heimsins þægindum. 

Flesta daga er hægt að velja um bæði lengri og styttri hlaupaleiðir, þar sem oft er hægt að taka kláf upp/niður. Fararstjórar eru þrír, Kjartan Long, Róbert Marshall og Brynhildur Ólafsdóttir og því möguleiki að skipta hópnum upp í þrjú getustig. Innifalið í ferðinni er 6 vikna fjarþjálfun í fjallahlaupum í aðdraganda ferðalagsins.

Dagur 1. Flogið er til Zurich og haldið með lest til Interlaken þar sem hópurinn gistir næstu tvær nætur. Interlaken er huggulegur bær sem liggur, eins og nafnið gefur til kynna, á milli tveggja stöðuvatna. Hér er nóg af kaffihúsum, veitingastöðum og verslunum. 

Dagur 2. Vaknað snemma og haldið beint í fyrstu hlaupaleiðina sem er ein sú frægasta í heimi, eftir endilöngum Hardegrat fjallshryggnum. Vegalengd dagsins er 24km en einnig verður hægt að fara styttri útgáfu. Þessa kyngimögnuðu leið er aðeins hægt að fara í góðu veðri og engri útkomu en fjöldi annarra hlaupaleiða er í boði ef ekki gefur á fjallshrygginn. 

Dagur 3. Töskur sendar á næsta áfangastað og svo hefst dagurinn á lestarferð á gamla mátann upp í tæplega 2000m hæð. Svo er hlaupið í átt að frægustu fjallaþrenningu Alpanna: Eiger, Mönch og Jungfrau. Hádegisstopp í fjallaskála á leiðinni og möguleiki á hressandi alpabaði í draumfögru vatni. Gist í fjallabænum Grindelwald, sem kúrir undir alræmdasta norðurvegg veraldar á sjálfum Eigernum. Hlaupaleiðir dagsins eru á bilinu 15 til 28km.  

Dagur 4. Dagurinn býður upp á margar sögustundir um hrikaleg örlög þeirra sem kepptust um að verða fyrstir upp norðurvegg Eigersins. Þeir sem það vilja geta reynt sig við skemmtilega klettagönguleið (via ferrata) í skugga Eigerveggsins áður en haldið er upp í jökulheima Jungfraujoch stöðvarinnar, sem var sögusvið James Bond myndarinnar, the Spy Who Loved Me, á sjöunda áratugnum. Frá Jungfraujoch er hlaupin stutt leið eftir jöklinum í Mönchsjochhutte sem er hæsti fjallaskáli fararinnar og liggur í tæplega 3700 metra hæð. Hér gista hetjur háfjallanna sem vakna um miðjar nætur til að hefja göngur á fjallarisana í nágrenninu. Við fáum hins vegar að sofa út! Samanlögð hlaupaleið dagsins eru rétt tæpir 9 kílómetrar.   

Dagur 5. Hinn draumfagri dalabær Lauterbrunnen er meðal fjölmargra viðkomustaða á fjórða hlaupadeginum en þessi dagur er einn sá fjölbreyttasti í ferðinni með dramatískum breytingum á landslagi og ólíkum náttúrupplifunum, þar á meðal heimsókn í einstakt fossakerfið í Trummelbachfalle sem hefur á þúsundum ára grafið sig djúpt inn í gljúpan sandstein Alpanna. Hlaupnir eru tæpir 27km með mörgum stoppum inn á milli, en hægt er að nýta sér lestir og fara styttra. Gist í fjallaskála. 

Dagur 6. Stutt dagleið yfir fjallaskarð, niður í dal og upp, upp, upp í næsta skála sem liggur í ríflega 2800 metra hæð. Þetta er ekta Alpadagur þar sem ferðast er á milli hefðbundinna fjallaskála, upp og niður fáfarin alpaskörð. Kannski rekumst við á alparósir, múrmeldýr og eins og eina Heidi á leiðinni. Týpískara verður það ekki. 13km. 

Dagur 7. Nú liggur leiðin bara niður í móti þar sem hlaupið er niður að hinum himinbláa og tæra Blausee sem er fallegasta fjallavatn í Sviss og þó víðar væri leitað. Þaðan er stutt leið niður til þorpsins Kanderstegg þar sem farangurinn bíður og ferðinni lýkur með spadekri á góðu hóteli og sameiginlegum kvöldmat til að fagna áfanganum. 11km.  

Dagur 8. Haldið með lest aftur til Zurich hvaðan flogið er heim til Íslands beint í kvöldmat, myndasýningu og montsögur með stórfjölskyldunni, brún, stælt og sælleg 🙂

Innifalið í ferðinni, sem kostar 284 þúsund á mann, eru ferðir í flugi, lestum og kláfum, gisting, morgunmatur og fimm af sjö kvöldmáltíðum, flutningur á farangri á milli staða og fararstjórn. Ennfremur 6 vikna fjarþjálfun í fjallahlaupum til undirbúnings fyrir ferðina. 

Staðfestingargjald, 60 þúsund, leggist inn á reikning: kt. 6601840669, 0321  26 184 – Styrkur ehf / Ferðaskrifstofan Vertu úti. Sendið kvittun á robbi@vertuuti.is