Nýtt lengdarmet var slegið í Grænlandsleiðangri Vertu úti í gær þegar hópurinn okkar náði að komast 18 kílómetra á góðum og björtum degi. Í náttstað var veður til að dytta að ýmsu sem hafði bilað, blotnað og farið illa síðustu daga. Hrútur gerði við sleðann sinn og Vala og Karen náðu að þurrka svefnpoka.

Þetta var langþráð eftir mikið harðræði fyrstu vikuna á Grænlandsjökli. Í gær sáu þau tvo spörfugla!

Leiðangursmenn hafa allir í fórum sínum óvæntan glaðning fyrir félaga sína og fyrsti glaðningurinn var opnaður í gær en þá dró Brynhildur úr pokahorni sínu appelsínur sem hún hafði laumað með sér.

Stórutærnar á Hrúti eru óðum að jafna sig og eins hælarnir á Hermanni. Kuldinn setti strik í reikninginn því allt verður bólgið og þrútið og sár gróa hægt. Í fyrradag var alger hvítablinda svo að hópurinn var ánægður með 11 kílómetra.

Úr Gleðihöllinni, en svo nefnist tjald Hemma og Steina, berast á kvöldin stöðug hlátrasköll og þess á milli heyrist kvöldsagan Góði dátinn Svejk í himneskum lestri Gísla Halldórssonar.

Tvær nætur í vikunni reyndist nauðsynlegt að reisa himinháa skjólveggi því vindur var mikill. Í fyrrakvöld var fyrsta kvöldið sem að blautþurrkurnar voru ekki gaddfreðnar. Aumir afturendar glöddust mjög við þessa gleðilegu vendingu.

Brynhildur samdi eftirfarandi vísu um fætur Hrúts og þá sérstöku aðferð að hreinsa tærnar með Stroh rommi:

Þegar þjáningin manninn grípur

og allt verður þrotlaust streð

þá Hrútur á Strohinu sýpur

og stórutær fylgja með.