Blöðrur á tám, bilaður sleði og mikill kuldi eru meðal þeirra erfiðu áskorana sem Grænlandsleiðangurinn glímir nú við. Góðu fréttirnar eru að eftir að þau komust útúr bláísnum hafa dagleiðirnar aðeins lengst.

Í völundarhúsi íssins þurfti að ganga mikið á broddum og vera með heilskinn undir skíðunum þegar þau voru notuð. Leiða má getum að því að þetta hafi orðið til þess að Steinn Hrútur, einn leiðangursmanna, er kominn með miklar blöðrur á sitthvora stórutánna. Í leiðangrinum eru góðar sjúkrabirgðir og meðal þess sem þar er eru táhlífar úr sílikoni, einskonar hulsur, sem hægt er að setja yfir sárar tær. Samkvæmt garmin inreach gervihnattaskeytum frá hópnum hefur Steinn sett slíkar hulsur yfir tærnar og sótthreinsað þær með Stroh rommi.

Íslendingum þykir almennt ekki leiðinlegt að fá sér í tánna en þarna er sú iðja tekinn upp á nýtt og æðra stig.

Nú hafa þau semsagt getað tekið heilskinnin undan skíðunum. Sleði Sybille Köll hefur verið til vandræða en sem betur fer hefur lítil handsnúinn trébor í viðgerðarsettinu komið að góðum notum í viðgerðum á honum.

Það hefur verið kalt. Fimbulkuldi í gær. Allt niður í -30 gráður, sem gerir allt mun erfiðara og þær fregnir berast að óæðri endar séu sárir eftir klósettferðir síðustu daga. Þetta horfir til bóta eftir 3 daga en þá er von á hlýrra lofti.  Það mjakast en hægt og púlkurnar eru þungar uppá hájökulinn. Í gær voru gengnir 12 kílómetrar.

Kuldinn hefur gert það að verkum að erfitt hefur reynst að sjóða vatn. Eldunargræjurnar hafa ekki staðist væntingar en þau eru að notast við bensínprímusa sem eiga að duga best gegn miklum kulda.

Þetta er erfitt.