Leiðangurinn er núna á þriðja degi í völundarhúsi íssins. Þetta er seinfarinn kafli og krefst þolinmæði. Þau fylgja oft djúpum giljum sem leysingavatn hefur sorfið í jökulinn og á endanum þurfa þau svo að klöngrast uppúr þeim en á sumum stöðum hefur það reynst ómögulegt og því ekkert annað að gera en að halda til baka.

Ýmsar búnaðarbilanir hafa gert vart við sig. Dýna lekur, tvo sleða hefur þurft að gera við og ein púlka neitar að haldast á réttri hlið. Þyngdarstöðugleikinn er ófundinn. Þetta eru allt leysanleg verkefni og eðlileg í upphafi ferðar.

Í gær fór hópurinn 5.6 kílómetra og hækkaði sig úr 540 metrum uppí 700 metra. Þetta er vegalengdin í beinni loftlínu en líklega hafa þau gengið töluvert lengra því leið þeirra liggur sem fyrr segir ekki í beinni línu heldur þurfa þau að þræða sig í gegnum mjög krefjandi landslag.

Spáin í dag og næstu daga er góð. Það er hægur vindur, skýjað og hiti á bilinu -8 til -16.