Það tók hópinn okkar fimm og hálfan tíma að komast þrjá og hálfan kílómetra í gær. Blár ísinn hefur mótast í margslungið völundarhús sem þau þurftu að þræða sig í gegnum á sama tíma og þau eru að hækka sig upp á jökulinn. Allir peppaðir og mikið hlegið, sagði Brynhildur leiðangursstjóri í skeyti sínu frá náttstað þeirra á jökuljaðrinum. Himnesk fegurð, bætti hún við.

Veðurspá dagsins lofar góðu; þokuloft í morgunsárið en mest megnis háskýjað og sólskin þegar líður á daginn. Næstum enginn vindur sem snýst í austan og hiti á bilinu -14 til -18 gráður.