Hér hefst þá formlega umfjöllun vertuuti.is um leiðangur 8 íslendinga á okkar vegum yfir Grænlandsjökul. Við heyrðum í Brynhildi Ólafsdóttur núna í morgun, en hún ásamt Vilborgu Örnu Gissurardóttur leiðir hópinn, og sagði hún þau áætla að leggja af stað á snjóbíl frá Kangerlussuaq um 9 leytið nokkura kílómetra leið að jöklinum.  Þar tekur erfiður fyrsti kaflinn við því þarna er við hrjúfan jökulís að eiga og allnokkra hækkun. Búast má við að þessi fyrsti hluti fararinnar taki 3-4 daga því landslagið getur verið seinfarið og dagleiðirnar stuttar. Þetta mun því krefjast þolinmæði og aðlögunarhæfni og á sama tíma er hópurinn að stilla sig saman og koma sér í rútínu.

Það er kalt í dag, -24 gráður en lítill vindur.

Hópurinn gengur á skíðum með allan farangur í eftirdragi frá jökulröndinni við Syðri Straumsfjörð á vesturströnd Grænlands, suðaustur yfir hájökulinn allt þar til komið er til sjávar á austurströndinni, skammt frá smáþorpinu Isortoq. Leiðin er alls um 560 km löng og er hæst farið í tæplega 2500 m hæð yfir sjávarmál. Gert er ráð fyrir að hópurinn verði á jöklinum í 3-4 vikur en meðferðis er matur og vistir fyrir 28 daga. Áætlað er að ganga í 8-10 klst á hverjum degi, að meðaltali um 20-25 km á dag, styst fyrst en vegalengdirnar lengjast svo smám saman, sérstaklega þegar komið er yfir hábunguna og halla fer undan fæti.

Hér á vertuuti.is verðum við með umfjöllun um leiðangurinn eftir því sem fréttir berast og jafnframt verður hægt að fylgjast með daglegum árangri þeirra í gegnum garmin inreach.