Félagarnir Siggi Bjarni, Benjamin Hardman og Þorsteinn Roy fóru í svakalegan leiðangur síðastliðið vor þar sem þeir toppuðu Hrútfjallstinda.  Siggi Bjarni tók saman lýsingu á ferðinni en einnig er hægt að sjá magnaðar myndir á Instagramsíðu hans Siggiworld og samanklippt ótrúlegt myndband úr ferðinni er hér neðst á síðunni.

Texti og myndir: Siggi Bjarni 

Fyrr á þessu ári hafði Þorsteinn samband við mig um mögulega ferð á Hrútfjallstinda, en Hrútfjallstindar rísa upp úr Vatnajökli, á milli Svínafellsjökuls og Skaftafellsjökuls, og ná hæst um 1.875m hæð. Jöklarnir eru aðdáunarverðir og af þeim er ein fallegasta fjallasýn Íslands.

Ég var spenntur fyrir nýju ævintýri og stakk því upp á að fara suðurhlíð tindsins, en hún er skemmtilegri og meira klifur. Fyrir nokkrum fór ég þessa sömu leið, svo ég hafði einhverja hugmynd um hvernig verkefni þetta yrði. Í fyrri ferðinni lentum við í mjög þungu færi í uppganginum, blautum snjó sem við sukkum ofan í upp að hnjám, sem breyttist svo í mikið púður sem náði okkur upp að mitti. Það ferðalag endaði í 22 tíma ferðalagi í mjög krefjandi aðstæðum sem kenndi mér að vanmeta alls ekki suðurhlíð Hrútfjallstinda.

Til að klára svona verkefni á þremur dögum, og gera það vel, þarf að fá stöðugan veðurglugga og góðar aðstæður fyrir klifur. Þegar ferðast er með mikinn búnað í fjallshlíðum getur margt haft áhrif á ferðahraðann. Taka þarf tillit til steinhruns sem fer af stað þegar sólin hitar laust berg og íshruns sem getur leitt til snjóflóðs. Snjórinn þarf að vera bæði stöðugur, svo snjóflóðahætta sé í lágmarki, og nógu góður til þess að hylja sprungur á leiðinni. Á brattasta hluta hlíðarinnar þarf ísinn að vera vel klífanlegur og snjórinn góður svo hægt sé að ferðast með mikla þyngd án þess að örmagnast. Mikilvægasti þátturinn er þó sá mannlegi. Það að vera með samstilltan hóp sem getur brugðist við aðstæðum fljótt og örugglega, stillt sig saman í öruggt og skemmtilegt ferðalag og tekið tíma í myndatöku er ekki sjálfsagt – en í þetta sinn small þetta.

Ég hafði frétt af góðum aðstæðum í Vatnajökli í byrjun maí og sá að það var góður veðurgluggi framundan. Svona góðan glugga var ekki hægt að láta framhjá sér fara og með tveggja daga fyrirvara ákváðum við að ráðast á hlíðina.

Enn voru nokkrir óvissuþættir um hvar bestu aðstæður til klifurs í hlíðinni væru og hvernig snjólögin yrðu. Mesta óvissan var samt hvernig við ætluðum að komast inn að Hrútsfjalli yfir Svínafellsjökul. Í síðustu ferð minni var fært inná Svínafellsjökul við Hafrafell en sú leið var ekki lengur fær sökum þess hve mikið jökullinn hefur hopað síðustu ár. Þar sem að Þorsteinn hafði smalað á svæðinu fyrr á árinu lagði hann til að við færum inná jökulinn við Svínafell. Þessar upplýsingar yrðu að duga til þess að fara af stað en framhaldið þurfti að vera sveigjanlegt eftir aðstæðum.

Mánudagsmorguninn 27. apríl kl. 07:00 hittumst við með tilhlökkun til ferðalagsins og fórum yfir planið. Áætlunin var að byrja að ganga samdægurs og reyna að komast á Hafrafell í 800m hæð og verja fyrstu nóttinni þar. Með því ættum við að vera í skotlínu við toppinn og geta svo tjaldað seinni nóttina við Vesturtind og farið þaðan niður á þriðja degi í rólegheitum.

Þegar við komum í Skaftafell fengum við góða yfirsýn yfir aðstæður og hlíðin leit vel út. Þá gátum við ákveðið hvaða leið við ætluðum að reyna við. Áætlunin var að leggja af stað kl. 14:00 og ganga næstu sex tímana.

Við gengum meðfram Svínafelli, bakpokarnir voru heldur þungir en okkur gekk vel að þræða hlíðarnar. Við komumst inn á jökul með því að gefa okkur smá tíma í að athuga leiðina. Þetta var stór óvissuþáttur hjá okkur í ferðinni þar sem við vorum ekki með nákvæmar upplýsingar um hvar eða hvort þessi leið væri ennþá fær vegna landsigs sem hafði átt sér stað.

Þegar við komum inn á Svínafellsjökul var hann þakinn snjó, svo það var ekkert annað í stöðunni en að henda okkur í línu til öryggis þar sem ómögulegt var að greina hættur á skriðjöklinum. Við vorum á eftir tímaplani og pokarnir farnir að síga í, eftir aðeins 4 klukkustunda ferð.

Að komast inn að rótum Hrútfjalls var ákveðin sigur. Við ákváðum að halda upp í hlíðarnar og reyna að koma okkur vel fyrirtil að geta átt möguleika á að komast upp þröngt og bratt gil í suðurhlíðinni. Þar er hætta á steinhruni ef sólin skín og ekki öruggt að ferðast upp. Við vorum að byrja uppgöngu mjög seint á mánudeginum og sólbráð skapaði mjög þungan snjó að ganga í. Við örkuðum upp hrygginn og sporuðum upp að hnjám. Okkur gekk mjög hægt að ferðast með þungu pokana en settum okkur markmið að komast í 700m hæð til þess að geta sett upp tjaldbúðir á hryggnum. Það var öruggara að tjalda þar vegna mögulegs snjó- og steinhruns. Þar gátum við einnig athugað leiðina fyrir næsta dag áður en það færi að rökkva og gert áætlun út frá því.

Þegar við komum á næturstað vorum við nokkuð þreyttir enda búið að vera langur dagur. Við tjölduðum á alveg mögnuðum stað, byrjuðum að bræða snjó, setja upp tjaldbúðir og koma okkur fyrir. Þegar við byrjuðum að bræða snjóinn virkaði ekki bensín brennarinn, það virtist eins og pumpan hafi skaddast á leiðinni. Við reyndum hvað við gátum að ná honum í gagnið enda þurftum við að bræða 10L af vatni og gasið virkaði mjög hægt í næturkuldanum. Á endanum náðum við honum ekki í gang, sama hvað við reyndum. Sem betur fer vorum við þó með auka búnað, annars hefðum við þurft að snúa við og hætta við leiðangurinn. Það tók okkur 3 klukkustundir að bræða snjóinn, klukkan var orðin 01:00 þegar við gátum loks farið að hvíla okkur.

Hvíld getur skipt miklu máli í svona margra daga leiðangri,

bæði til að vera hæfur til að taka mikilvægar ákvarðanir og vegna virkni líkamans í krefjandi aðstæðum. Við ákváðum því að sofa tveimur tímum lengur morguninn eftir og leggja af stað klukkan 07:00. Aðstæðurnar yrðu erfiðari í byrjun dags í kjölfarið en við ættum enn að ná að fara upp gilið áður en að sólin myndi ná í það.

Aðstæðurnar þegar við vöknuðum voru stórkostlegar. Útsýnið yfir ísfall Svínafellsjökul og Hvannadalshnjúk var ólýsanlegt. Snjórinn hafði ekki náð að frysta nægilega þar sem við byrjuðum daginn svo snjórinn var blautur og þungur. Eftir 2 klukkustunda göngu vorum við komnir inn að brattasta hluta hlíðarinnar og í skugga. Þar var snjórinn frosinn og fullkomin til að ferðast í.

Þungar aðstæður morgunsins og auka hvíldin kom okkur í kapp við tímann.

Gangan upp brattar hlíðar Hrútfjalls þurfti að ganga hratt fyrir sig til að tryggja okkur fyrir steinhruni. Þetta tók verulega á hópinn og ekki virtust pokarnir vera að léttast. Við sluppum við steinhrunið, en okkur gekk hægt upp. Þá horfðum við á plan B. Það var skýrt að ef við gætum ekki verið á undan sólinni þyrftum við að snúa undan, enda ekki réttlætanleg áhætta að taka.

Við komum okkur fyrir á öruggum stað þar sem mátti sjá leiðina sem upphaflega hafði verið áætlunin. Gríðarstór grýlukerti stóðu yfir venjulegu leiðinni á klettavegg og of mikil áhætta var að reyna við þá leið því við gætum ekki skýlt okkur frá íshruni ef sólin næði á ísinn.

Benjamin kom þá auga á ís foss upp á hrygg. Hann var um 50m en ísinn leit mjög vel út og í góðu skjóli frá mögulegu hruni. Sú leið var valin. Ég kom okkur fyrir undir ísfossinum þar sem var öruggt að vera og breytti línunni okkar fyrir spanna klifur. Spanna klifur virkar þannig að ég fór á undan upp fossinn. Þegar upp var komið setti ég upp tryggingakerfi, þeir klifruðu á eftir og ég tryggði upp. Klifrið var virkilega skemmtilegt og á mjög góðum ís en við enduðum upp á hrygg, áhyggjulausir. Þar nærðum við okkur vel og nutum frábærs útsýnis. Þegar við vorum búnir að ná að spjalla svolítið saman var ljóst að gilið og klifrið hafði dregið mikla orku úr hópnum. Við ákváðum að halda áfram upp fyrir ísfallið og taka stöðuna þar.

Við þurftum að þvera brekku áður en við gátum gengið beint upp, aftur tók þetta lengri tíma vegna pokana og það þurfti að tryggja öryggið. Eftir að við vorum komnir upp úr brattanum og undir Suðurtind þá tókum við vatnsstöðu. Það var augljóst að hvorki orka né vatn gaf okkur möguleika að halda plani og það var einnig liðið á daginn. Þarna stóðum við í 1500m hæð, klukkan var 15:00 og tvær til þrjár klukkustundir þaðan upp á topp. Þar sem bensín brennarinn hafði ekki virkað vildi ég bræða vatn sem myndi endast okkur næsta dag til að komast niður áður en við myndum bræða vatn fyrir toppinn. Það var alveg líklegt í þessari stöðu að við myndum þurfa að snúa undan ef að gasið myndi ekki duga. Þegar við höfðum brætt nóg vatn fyrir niðurferð þá ákváðum við að hvílast þarna lengur, næra okkur, setja upp búðir og safna orku. Eftir að tjaldið var komið upp þá náðum við að laga bensín brennarann svo við gátum brætt fullt af snjó sem ætti að duga fyrir tindinn og niðurferðina næsta dag. Tjaldbúðirnar sem við settum upp voru í einu magnaðasta umhverfi sem ég hef verið með búðir í. Veðrið var frábært, algjör stilla og lágský flutu fyrir neðan okkur.

Eftir að við höfðum hvílst og nærst vel þá ákváðum við að reyna að ná upp á tind við sólsetur. Við gátum ferðast léttir frá búðunum þar sem við áætluðum fjögra klukkustunda ferð upp á topp og niður aftur. Það gekk vel hjá okkur að fara upp jökulinn og þræða sprungur á heldum snjóbrúm. Þegar við vorum komnir inn undir tindinn þurftum við að þræða okkur aftur upp brattann hrygg. Við gáfum okkur góðan tíma í þennan hluta ferðarinnar enda engin mistök leyfð. Við fórum aftur í spanna klifur og klifruðum til skiptist upp hrygginn sem leiddi til auðveldari göngu á toppinn. Eftir tvær spannir vorum við í öruggum málum og náðum fallegri stund í sólsetrinu. Það voru lágský fyrir neðan okkur en hæstu tindar Íslands stóðu tignalegir í kvöldroðanum, yfir skýjunum.  Benjamin og Þorsteinn mynduðu þessa glæstu sýn og við gáfum okkur góðan klukkutíma á toppnum til þess að njóta.

Þó svo að toppnum hafi verið náð þá þurftum við að halda einbeitingu enda áttum við eftir krefjandi niðurleið. Sólin var alveg að setjast og við þurftum að nýta síðasta sólarljósið áður en það yrði kalt því við áttum eftir að klifra niður. Við klifruðum niður til skiptis á meðan við tryggðum línuna til að tryggja að enginn myndi rúlla niður brattar hlíðar tindsins í hörðu fenninu. Við sigum niður, tryggðum þrjár 60m spannir og ferðaumhverfið varð aftur frekar einfalt. Þá gátum við elt eldri fótspor okkar niður í tjaldbúðirnar. Það lá vel á okkur um kvöldið þegar við hituðum vatn fyrir kvöldmatinn í ótrúlegu umhverfi. Það var stilla við búðirnar og til að toppa allt þá dönsuðu norðurljósin fyrir okkur í sólsetrinu.

Við vorum búnir að plana frekar einfalda ferð niður þar sem við ætluðum að fara inn á venjulegu gönguleiðina frá Hátindi. Því leyfðum við okkur að sofa aðeins lengur og tókum okkar tíma til að pakka niður tjaldbúðunum. Við ferðuðumst niður í frábærum aðstæðum, heiðskýrt, logn, góður snjór að ganga á og öruggar snjóbrýr. Niðurleiðin tók okkur um 7 klukkustundir enda bakpokarnir nokkuð vel troðnir þó svo að við hefðum náð að klára mest megnis af matnum okkar. Þegar við komum niður Hafrafell klukkan 16.00 þá beið okkar veisla í Svínafelli hjá fjölskyldu Þorsteins. Við ræddum ferðina fram og til baka og vorum sammála því að þetta hefði verið virkilega vel heppnað, góðar ákvarðanir hefðu verið teknar og að við höfðum ferðast með öryggið í huga. Sú tilfinning er gríðarlega mikilvæg eftir stór plön. Markmiðinu var náð, við klifum tindinn og Þorsteinn og Benjamin náðu að mynda alla ferðina okkar til að deila með útivistar áhugafólki landsins.

 

Búnaðarlisti 

Persónulegur búnaður
–       Stífir gönguskór
–       Legghlífar
–       Ullar nærföt, toppur og buxur
–       Létt flíspeysa
–       Göngubuxur með vindvörn
–       Skeljakki
–       Skelbuxur
–       Þykk dúnúlpa
–       Dún/primaloft jakki – millilag
–       Húfa með vindvörn og lambúshetta
–       Þunnir fingravellingar
–       Þykkari fingravellingar
–       Þykkir handskar eða lúffur
–       Sokkar, 4 pör (1x þunnir, 2x medium 1xÞykkir

Klifur búnaður
–       Sigbelti
–       Klifuraxir 1 par
–       Hjálmur
–       Mannbroddar

Annar búnaður
–       Jöklagleraugu
–       Sólarvörn
–       Svefnpoki
–       Loftdýna
–       First-aid kit
–       Klósettpappír
–       Sótthreinsir
–       Vasahnífur
–       Kveikjarar
–       Göngustafir
–       Höfuðljós
–       2×1 líters vatnsflöskur með stóru opi
–       Bakpoki 70L+
–       Myndavélar
–       Dróni
–       Auka batterí og hleðslubankar

Sameiginlegur búnaður

–        Tjald, við fórum með Black Diamond first light 3pers og tókum 1pers bivac með aukalega
–       Eldunargræjur (1x jet boil og 230g gas, 1x bensínbrennari og pottur með 1L bensíni)
–       Matur (þurrmatur fyrir kvöldin, hafragrautur á morgna og svo smurt fyrir daginn, við vorum með eina auka máltíð sem myndi duga fyrir 4 daginn ef á þyrfti)
–       Klifurbúnaður
–       Klifurlína 60m
–       Sprungubjörgunarkit
–       3 ísskrúfur
–       Snjóhæll
–       Prússikar og slingar
–       GPS tvö tæki
–       Inreach gervihnattatæki
–       Kort