Stígur Stefánsson er kuldaskræfa í bata, að eigin sögn. Eftir að hafa farið á námskeiðið „Hættu að væla og komdu að kæla“ hjá Andri Iceland hefur Stígur stundað Wim Hof aðferðina sem felst í öndunaræfingum, kuldaþjálfun og styrkingu hugarfars. Stíg má oft sjá í Nauthólsvík en þar hefur hann m.a. tekið áskorunum um sjósund á hverjum degi þegar sjórinn er kaldastur. Slíkt er eins og gefur að skilja nokkuð bratt fyrir kulvísan skrifstofumann, en Stígur gegnir dagsdaglega störfum nefndarritara utanríkismálanefndar Alþingis. Hann fór skrefinu lengra í janúar síðastliðinn þegar hann dvaldi í viku í kuldabúðum í fjallaþorpinu Przesieka í Suður-Póllandi undir handleiðslu sjálfs meistarans, Wim Hof. Hér fer Stígur yfir málin. Hvers vegna er hann að þessu? Kalt mat.

Texti og myndir: Stígur Stefánsson

Andrea grætur úr sér augun þar sem hann stendur í árhylnum með ískalt vatnið upp að öxlum. Andrea er smávaxinn og fíngerður Ítali með tilfinningabyrði á bakinu. Þegar við gengum niður að árbakkanum sagðist hann  ætla að skilja öll sín tár eftir í hylnum, gráta út öllu því sem hann þyrfti að losna við. Við stöndum tuttugu menn í hring, höldum utan um axlir hvers annars og gefum frá okkur lág humm-hljóð sem hafa verið eins og mantra í ísböðum síðustu daga. Andrea færir sig inn í hringinn hágrátandi og er farinn að hríðskjálfa. Hann neitar þó að gefast upp og gefur frá sér öskur. Hópurinn endurtekur og sameinast honum í öskrinu, við ætlum að styðja Andrea og senda honum orku þar sem hann stendur og virðist við það að brotna. Ég öskra af öllum lífs og sálar kröftum, finn að ég er góður, við stjórnvölinn og rólegur en þó öskrandi um leið. Eitt augnablik velti ég fyrir mér hvort það þurfi að grípa inn í og koma Andrea upp úr. Ég horfi upp á bakkann þar sem Wim Hof stendur upp á hól eins og Messías reiðubúinn að flytja fjallræðu. Við horfumst í augu, hann hefur hvasst og einbeitt augnaráð og fylgist þegjandi með því sem fram fer. Loks glymur í bjöllu sem þýðir að 10 mínútur eru liðnar og við fikrum okkur rólega upp úr hylnum. Wim leiðir okkur í yoga æfingar og smátt og smátt byrjar líkaminn að hitna á ný.

Róin yfir fólkinu í kuldanum

Vilhjálmur Andri Einarsson hjá Andri Iceland sagði mér einhvern tíma frá hollenska ofurhuganum Wim Hof og hvernig ástundun Wim Hof aðferðarinnar hafði breytt lífi hans. Forvitni mín var vakin og eftir að hafa skoðað heimildarmyndirnar sem finnast á youtube langaði mig að prófa. Það var kuldaþátturinn sem heillaði mig og þessi ró sem virtist alltaf yfir fólkinu í kuldanum. Ég fór á námskeið hjá Andri Iceland og man enn vel kvíðann og óttatilfinninguna þegar ég slakaði mér niður í ísbað í fyrsta skipti. Fyrir byrjendur eru viðbrögð ósjálfráða taugakerfisins oföndun, hraður hjartsláttur og spenntir vöðvar en svo er stórkostlegt að upplifa þessa ró sem færist yfir mann þegar maður lokar augunum, ímyndar sér að maður sé í heita pottinum, hægir á önduninni og slakar á öllum vöðvum líkamans. 

Innblásnar ræður í kaupbæti

Eftir námskeiðið fór ég að stunda sjósund og setti mér m.a. að fara í sjóinn á hverjum degi allan janúarmánuð í fyrra. Yfirleitt fór ég í hádeginu og það var mikill munur á manni í eftirmiðdaginn á skrifstofunni eftir að hafa eytt nokkrum mínútum í sjó við frostmark. Þetta gat ég gert á yfirvegaðan hátt án þess að komast nokkru sinni á skjálftastigið – þvert á móti fylgdi þessu bara vellíðan.

Mig langaði fljótt að fara í kuldabúðir hjá Wim Hof sjálfum enda hafði ég líka séð heimildarmyndir um þær. Sá draumur varð að veruleika í janúar sl. og varði í viku. Þar var ströng dagskrá frá morgni til kvölds með öndunaræfingum, hugleiðslu, kuldaböðum og kuldagöngum. Þarna voru um hundrað manns sem skipt var í smærri hópa með leiðbeinendum en Wim Hof sjálfur fór á milli hópanna. Hann er náttúrulega kóngurinn í þessum kreðsum og hefur karisma á við költ-leiðtoga, sem hann er kannski fyrir sumum fylgjendum sínum. Ævisaga hans er ævintýraleg. Wim þurfti að hafa mikið fyrir því að vekja athygli á og boða fagnaðarerindi kuldans en dagar sirkús-kúnstanna, sem hann kallar svo, eru liðnir. Þær voru til dæmis alls kyns heimsmet í setu í ísbaði, maraþonhlaup á stuttbuxum einum fata norðan við heimskautsbaug og atlaga að tindi Everest í sama klæðnaði. Á fyrsta námskeiðið sem hann hélt mættu þrír og þar af fóru tveir fram á að fá endurgreitt svo þetta var hreint engin samfelld sigurganga. Það var mjög áhrifaríkt að heyra Wim leiða hundrað manns í öndunaræfingum og ýta á fólk að lifa lífinu lifandi og brjótast út úr sjálfsettum hömlum. Og svo komu stundum innblásnar ræður í kaupbæti þar sem alþjóðlegu lyfjafyrirtækin og læknavísindin fengu á baukinn auk þess sem Wim átti það til að sparka aðeins í kapítalismann og neyslusamfélagið í leiðinni!

Kuldagöngur á stuttbuxum

Áður en ég kom til Póllands hafði ég ekki stundað kuldagöngur. Þar ytra gengum við fáklædd á hverjum degi en hitinn var við frostmark. Staðalútbúnaður var í raun gönguskór, stuttbuxur, húfa og vettlingar. Það var ótrúlegt að finna hve hratt aðlögunin líkamans að kuldagöngunum gekk fyrir sig – það var alveg átak að ganga í 10 mínútur fyrsta daginn en í vikulok fórum við í 5 klukkustunda fjallgöngu svona útbúin. Það var eins og það þyrfti bara að vekja upp hæfni líkamans til að eiga við kulda – hæfni sem þegar var til staðar. Þróunarfræðilega er mannslíkaminn auðvitað hannaður til þess að laga sig að umhverfinu og þar með hitastiginu. Núverandi ástand þar sem þessu hefur verið snúið við og umhverfið er lagað að manninum er nýlunda í mannkynssögunni. Það er 23 stiga hiti heima hjá okkur, í vinnunni og auðvitað í bílnum á leið til vinnu – við erum gersamlega vafin inn í hlýjan bómull. Það er því enginn hvati fyrir hitakerfi líkamans að vinna en kerfin eru engu að síður til staðar og bíða þess að vakna úr dvala.

Eftir Póllandsdvölina fór ég allnokkrum sinnum fáklæddur á Esjuna og Helgafell í febrúar/mars og var „skrýtni kallinn“ á fjöllum þá daga. Wim Hof hefur nokkrum sinnum gengið svona fáklæddur upp á Kilimanjaro og gerir það nota bene á einum degi án hæðaraðlögunar.  Mig dreymir um að taka kuldagöngu upp á Hvannadalshnjúk við tækifæri.

Hömlur hugans afhjúpaðar

Annað sem ég tók með mér frá Póllandi var framfarastökk í kuldaböðunum. Þar var gjarnan farið í bað í árhyl og stundum þurfti að nota öxi til að brjóta ísinn ofan af hylnum. Í sjósundinu heima hafði ég fundið að ég þyldi ágætlega við í ca. 5 mínútur í vatni við frostmark. Wim Hof sagði mér að fara í 10 mínútur sem ég taldi langt yfir mín þolmörk en þegar á reyndi réð allur hópurinn minn við það. Sumir sátu í ró á meðan aðrir fóru upp og niður tilfinningaskalann. Andrea vinur minn grét hástöfum á meðan Wim stóð illúðlegur í rauðu indíána ponchoi og hvati okkur til dáða. Áður en ég vissi af voru 10 mínútur liðnar og okkur leið öllum vel, eins og við hefðum sigrað sjálfa okkur. 

Nú er mikilvægt að taka fram að markmiðið með Wim Hof aðferðinni er engan veginn að ná tilteknum mínútufjölda í ísköldu vatni en svona æfingar má nota til þess að afhjúpa hömlur hugans. Ég var búinn að ákveða sjálfur að mitt kuldaþol væri 5 mínútur og sú hugmynd var takmarkandi miðað við hvað skrokkurinn réð við. Það má nota þetta dæmi sem metafóru og velta fyrir sér á hvaða öðrum og óskyldum sviðum lífsins maður er búinn að ákveða að þolið sé „5 mínútur“ á meðan maður er ef til vill með tvöfalda innistæðu á við það.

Líkamleg og andleg endurstilling

Það eru margir sem eru þess betur umkomnir en ég að skýra Wim Hof aðferðina og vísindin á bak við hana. Ég get hins vegar lýst því hvað ég hef fengið út úr þessu. Öndunaræfingarnar, hugleiðslan og kuldaböðin hafa snarhækkað álagsþröskuldinn hjá mér og það þarf miklu meira til þess að stressa mig en áður. Minna magn streituhormóna þýðir minni spenna og bólgur í líkamanum. Kuldaböðin slá svo líka á bólgur. Vikan í Póllandi var líkamleg sem andleg endurstilling og ég hef í kjölfarið gert hluti sem ég taldi vart á mínu færi. Gott dæmi eru hlaup en ég hef stundað þau reglulega í yfir 20 ár. Síðustu ár hef ég átt töluvert við meiðsli að stríða og þegar ég hef farið yfir 40 km hlaup á viku hefur það yfirleitt verið ávísun á álagsmeiðsli. Eftir að ég kom frá Póllandi jók ég hlaupamagnið snarlega og fór upp í 100 km viku sem er mesta vikumagn sem ég hef hlaupið. Ég var eiginlega búinn að gefa upp á bátinn að skrokkurinn þyldi svona mikil hlaup. Ég kórónaði svo endurreisn mína sem hlaupari með því að hlaupa 50km ultramaraþon á fimmtugsafmælisdaginn í byrjun júní án þess að nokkur álagsmeiðsli fylgdu í kjölfarið.