Markmið geta verið margvíslega og mismunandi, stór eða smá. Fyrir þremur árum fórum við hjónin í ævintýraferð til Nepal með Fjallafélagsbræðrunum Haraldi Erni og Örvari Þór Ólafssonum þar sem gengið var upp Khumbudalinn og í grunnbúðir Everest. Á þessum tíma var ég aktívur golfari með stigvaxandi áhuga á fjallamennsku eftir að konan mín dró mig af stað á fjöll og skráði okkur í Fjallafélagið, nokkrum árum fyrir þessa Nepalferð. Aldrei hafði þó hvarflað að mér að fara hærra en á Hvannadalshnjúk og fannst það bara fjári erfitt í þetta eina skipti sem ég hef farið þangað upp.

Texti: Erlendur Pálsson. Myndir: Ales Cesen, Siggi Bjarni og Erlendur Pálsson

Á leið upp Khumbudalinn blasir Ama Dablam við í öllu sínu magnaða veldi og þykir eitt fallegasta fjall í heimi. Ég gat starað endalaust á þetta fjall sem algerlega dáleiddi mig og læddust að mér hugsanir um hversu magnað það væri að hafa þekkingu og getu til að klífa svona fjall. Mér datt samt ekki í hug að það væri raunhæft fyrir mig að reyna við fjallið.  Þetta var bara eitthvað sem fjallahetjur sem eru uppaldar með silfurkarabínu í munni gætu framkvæmt, svona ofurhetjur eins og Haraldur Örn og Vilborg Arna sem voru og eru fjallahetjurnar mínar.  Þegar heim var komið úr þessari ferð gat ég þó ekki gleymt þessu fjalli og tók til við býsna ákaft áhorf á YouTube myndskeið þar sem allskonar fólk var að reyna við fjallið og smátt og smátt fór ég að þekkja margar af þeim áskorunum sem tekist er á við í fjallinu.  

Ama Dablam er magnað fjall.

Nokkrum vikum eftir þessa mögnuðu Nepalferð kom Dendi Sherpa sem var aðal leiðsögumaðurinn í ferðinni hingað til Íslands og hittist hópurinn ásamt Vilborgu Örnu og fleirum til að fagna honum. Það er skemmst frá því að segja að í skemmtilegum samkvæmum gerast hlutir sem ekki endilega eru fyrirséðir og morguninn eftir rifjast það smám saman upp að ég hafi tekið ákvörðun um að innan 5 ára ætli ég að klífa þetta fjall, ég hafi handsalað það við Dendi og hetjurnar mínar hafi óskað mér til hamingju með þessa ákvörðun.  

Um leið og ég tek þessari áskorun sé ég fyrir mér vegferð þar sem ég get stórbætt mig sem fjallamann og um leið bætt mig líkamlega. Ekki síst þá hefur mér alltaf þótt gott að hafa markmið til að vinna að hversu stór eða smá sem þau eru. Sum markmið nást en önnur ekki en ferðalagið að þessum markmiðum hafa alltaf verið mér mikilvæg og þetta markmið eins risa stórt og það er bauð uppá gríðarlega áhugavert ferðalag. 

Ég passaði mig á að láta sem flesta vita af þessu markmiði mínu til að gera mér enn erfiðara fyrir að guggna á verkefninu. Ég gerði mér grein fyrir að ég ætti ótalmargt ólært í fjallamennsku og það fyrsta sem ég gerði var að skrá mig í nýliðaþjálfun í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þessi þjálfun tók 2 vetur þar sem hópurinn tókst á við fjölbreytt verkefni aðra hverja helgi. Þarna uppgötvaði ég einstakt samfélag náttúru- og mannvina sem starfa í mikilvægri sjálfboðavinnu fyrir samfélagið og er ég í dag stoltur félagi í sveitinni. 

„Eftir saklausa læknisskoðun vegna suðs í eyra endaði ég í heilaskanna sem leiddi í ljós æxli á stærð við golfbolta.“

Leiðin að stórum markmiðum er sjaldnast bein og breið og það gekk á ýmsu á þjálfunartímabilinu. Fyrri veturinn var ég í gifsi eftir aðgerð á fæti og þurfti m.a. að teipa jöklabrodda á gifsið til að geta verið með á námskeiði í fjallamennsku og þá um sumarið var síðan heldur betur lögð lykkja á leið mína. Eftir saklausa læknisskoðun vegna suðs í eyra endaði ég í heilaskanna sem leiddi í ljós æxli á stærð við golfbolta. Pöntuð var segulómun til nánari greiningar en á meðan ég beið eftir henni fór ég í árlega göngu hringinn í kringum Mont Blanc, göngu sem við hjónin höfum notið þess að fara fimm ár í röð fyrir hönd ferðaskrifstofunnar Mundo.  Vissulega var þetta æxli ekki óska-ferðafélaginn en að öðru leyti var hópurinn góður. Strax eftir heimkomu úr Ölpunum staðfestu niðurstöður segulómunarinnar að um góðkynja æxli í heilahimnu væri að ræða og heilaskurðlæknirinn fullvissaði mig um að þetta gæti hann fjarlægt fljótt og örugglega, ég þyrfti bara að nefna tíma sem hentaði mér.  Á þessum tíma var Fjallafélagið á leið í aðra ævintýraferð og þar sem æxlið hafði ekki verið til vandræða í Alpaferðinni ákváðum við hjónin að bjóða því með til Afríku og alla leið upp á Kilimanjaro. Eftir heimkomu í október var höfuðkúpan á mér síðan opnuð og golfboltinn fjarlægður og fimm vikum seinna var ég kominn á Vífilsfell með Fjallafélaginu mínu. Sem betur fer féll aðgerðin og endurhæfingartíminn vel inn í æfingaráætlun Flugbjörgunarsveitarinnar og ég náði að klára þjálfunina án þess að missa of mikið úr.

Erlendur á leið upp. Fylgt er línum sem lagðar eru á hverju vori af sherpum.

Um það leyti sem þjálfuninni lauk hafði Vilborg Arna samband við mig og bað mig um að aðstoða hana og Tomasz við að leiðsegja hópum í ferðum sem þau skipulögðu í Tindum og einnig var ég farinn að aðstoða við leiðsögn í Fjallafélaginu hjá bræðrunum.  Ég var farinn að hjóla og hlaupa, mæta í November Project á morgnana og stunda aðrar æfingar til að ná því formi sem ég taldi nauðsynlegt að hafa og Móskarðshnjúkar voru orðnir mitt annað heimili. Ekki síst þá voru hetjurnar mínar orðnir góðir vinir mínir. Ferðalagið í átt að Ama Dablam var þegar orðið stórkostlegt þegar hingað var komið og átti bara eftir að verða betra, en golf forgjöfin mín var hins vegar í sögulegri lægð. 

Í upphafi stefndi ég á að reyna við fjallið í fyrsta lagi árið 2020 eða 2021 en í upphafi árs 2019 hvíslaði Vilborg Arna því að mér að hún hefði áhuga á að reyna sjálf við fjallið þá strax um haustið og langaði til að smala saman í góðan leiðangurshóp. Mér þótti þetta of snemmt fyrir mig og fannst ég ekki tilbúinn auk þess sem ég átti von á miklum álagstíma í dagvinnunni minni á haustmánuðum.  En það átti eftir að breytast og áður en ég vissi af var ég á leiðinni aftur til Nepal, fullur kvíða og tilhlökkunar.

Við vorum fimm sem stefndum á fjallið; Vilborg Arna, Aleš Česen unnusti Vilborgar og stórstjarna í klifurheimum, Sigurður Bjarni Sveinsson oft kenndur við Miðgarð á Hvolsvelli og Arnar Páll Gíslason sjúkraflutningamaður og heljarmenni.  Ég er 15 árum eldri en næsti maður og með minnstu reynsluna í hópnum. Í golfheimum væri þetta þannig að ég væri meðal göslari í golfi, Arnar og Siggi að reyna við Evróputúrinn, Vilborg væri með þeim bestu á WPGA og Aleš væri með þeim allra bestu á PGA. 

Ferðin átti að taka rúmar þrjár vikur og fór mesti tíminn í að ná góðri hæðaraðlögun. Við gengum með 16 manna hópi Íslendinga á vegum Tindar Travel upp í grunnbúðir Everest sem eru í 5364 metra hæð og á Kalaphatar sem er í 5644 metra hæð. Þegar því var lokið fór hluti hópsins niður dalinn en þeir sem eftir voru fóru flestir ásamt okkur AD-förum á Island Peak sem er 6189 metra hátt. Island Peak er með skemmtilegri fjöllum og sérstakt að sjá það á milli þessara risa sem umkringja fjallið eins og Lhotse sem er 8500 metrar.  Eftir 800 metra brekku í myrkri komum við upp í fjölbreytt jöklalandslag með sprungum og fallegum jökulveggjum og loks upp að krefjandi 200 metra snjóvegg sem endar á litlum og þröngum toppnum á fjallinu. 

Eftir Island Peak fór restin af samferðahópnum ásamt Vilborgu til byggða og við fjórmenningar röltum niður í Dingbuche þar sem við hvíldum í 3 daga áður en við lögðum í hann í grunnbúðir Ama Damblam. Það var komið að þessu. Í grunnbúðum bíða okkar tjöld og matartjald ásamt kokki og aðstoðarmönnum sem sinna okkur eins og höfðingjum með dýrðarmat og öðrum viðurgjörningi. Meira að segja viskí, bjór og aðrar veitingar sem ekkert okkar hefur lyst á að snerta enda hafði allur áhugi á að smakka áfengi horfið um leið og við komum upp í hæðina í Khumbudalnum.  Daginn eftir komuna í grunnbúðir fórum við í að undirbúa okkur fyrir fjallið sem er með tjaldbúðir á fjórum stöðum á leiðinni upp. Á öðrum degi gengum við langleiðina upp í fyrstu tjaldbúðir sem eru 1100 metrum fyrir ofan grunnbúðir í 5600 m. hæð og komum fyrir tveimur tjöldum með ýmsum búnaði en þar ætlum við að gista þegar lagt er af stað á toppinn. 

Tjaldbúðir eru á fjórum stöðum á leiðinni upp.

Arnar Páll var svo óheppinn að veikjast af lungnabólgu og var fluttur með þyrlu til Kathmandu og var sárt að sjá á eftir honum en við fjögur sem eftir vorum leggjum í hann á fjallið 31. október. Ég vakna þennan morgun meðvitaður um að framundan eru þrír erfiðustu dagar lífs míns en örugglega líka þeir eftirminnilegustu. Fyrsti áfangi er upp í tjöldin sem við höfðum tjaldað nokkrum dögum fyrr og var gangan tiltölulega einföld og ekkert klifur ennþá. Við náðum öll í tjaldbúðirnar á svipuðum tíma og fór vel um okkur þá nóttina. 

Á öðrum degi var stefnan sett á Camp 2 sem samanstendur af 12 -15 tjöldum á klettasyllu í 5900 m. hæð og var talsverð spenna með hvort að við fengjum inni næstu nótt í einhverjum af þessum tjöldum. Það tókst eftir talsverða eftirgrennslan í grunnbúðum en þar kom það sér vel að Vilborg og Aleš eru vel tengd í klifurheimum og tókst þeim að tryggja okkur inni. 

Rétt áður en við komum í Camp 1 fara að birtast línur sem lagðar eru í upphafi hvers klifurtímabils af hetjum Himalayafjallanna sem eru heimamenn og bera flestir Sherpa nafnið. Við klippum okkur inn í línurnar með Júmmara sem er handfang með læsingu sem grípur okkur ef við dettum aftur fyrir okkur.  Á milli Camp 1 og Camp 2 er bara 300 metra hækkun en þarna byrjar alvaran í klifri og klöngri. Það er hátt fall til beggja handa en lítill tími til að velta því fyrir sér því hvert skref kallar á fulla athygli. Þarna er Aleš algjörlega í essinu sínu og sýnir hversu gríðarlega öflugur hann er og það er augljóst að þau alþjóðlegu klifurverðlaun sem hann hefur fengið eru fyllilega verðskulduð. Við náðum upp í Camp 2 rétt um það leyti sem myrkrið var að skella á og framundan var stuttur svefn en við stefndum á að hefja toppaatlöguna um miðnætti. 

„Ég var bugaður og fannst ég ekki geta meir.“

Þegar miðnættið loksins kom eftir andvökuköld var hitaður hafragrautur sem við átum af misgóðri lyst. Síðan voru vasar fylltir af súkkulaði og orkugeli, broddar bundnir á skó, bakpokar axlaðir og við klippt inn í línur og loks arkað af stað í stjörnubjörtu veðri. Framundan var 900 metra klifur og klöngur uppá topp Ama Dablam.  Þegar fór að birta vorum við að koma í Camp 3 sem er í 6300 metra hæð og framundan er 600 metra snjóveggurinn sem er í 60 -75° halla. Þarna var ég orðin talsvert þreyttur og fundum við Aleš skjól og hinkruðum eftir Vilborgu og Sigga sem voru rétt á eftir okkur. Þarna var mín erfiðasta stund á fjallinu og helst hefði ég viljað snúa við. Ég var bugaður og fannst ég ekki geta meir, ég hafði verið í aukalínu tengdur við Aleš sem hvatti mig og á köflum dró mig áfram. En tilhugsunin um að hópur fólks fylgdist með okkur og ekki síst konan mín og börnin sem áttu erfiðar nætur vitandi af mér á fjallinu, allt fólkið sem ég hafði raupað um að ég ætlaði upp og ekki síst þessi óskaplega löngun að ná þessu markmiði sem ég hafði stefnt og unnið hörðum höndum að, þetta allt gaf mér einhverja orku sem ég vissi ekki að ég ætti eftir til að halda áfram. Ég stóð upp og gekk að veggnum og Aleš á eftir mér, hann klippti mig inn og við hófum klifrið. Ég man lítið eftir þessum 600 metrum nema að ég tók 3 skref í einu, stoppaði til að ná andanum, og þannig koll af kolli. Ef ég rann til og missti taktinn þurfti ég að leggjast niður á hnén til að finna einhvern kraft einhverstaðar til að halda áfram því ég var svo gott sem örmagna. En smátt og smátt paufuðumst við fjögur saman uppávið og klukkan rétt rúmlega 10 um morguninn náðum við upp, við vorum komin á topp Ama Dablam. Við okkur blasti ótrúleg sýn yfir Himalayafjöllin og Everest, Lhotse, Nuptse, Pumori og allir hinir risarnir voru svo nálægt að okkur fannst við nánast geta snert þá.

Erlendur, Vilborg Arna og Ales Cesen á toppnum.

En það er ekki nóg að komast upp því það er enn mikilvægara að komast heill niður og það er ekkert grín að komast niður af þessu fjalli. Við erum samtals að síga yfir 1100 metra og þvera kletta með himinhátt fall fyrir neðan okkur. Upphaflega áætlunin var að ná alla leið niður í tjöldin í okkar Camp 1 sama dag og sofa þar og niður í grunnbúðir daginn eftir. Uppgangan hafði hins vegar tekið lengri tíma en til stóð og ekki síður vorum við lengi á leiðinni niður og því varð úr að við stoppuðum í Camp 2. Þar settumst við niður á klettasyllu og dúðuðum okkur og biðum í 6-7 tíma í myrkrinu þangað til tjöld losnuðu um kvöldið þegar næstu hópar lögðu á fjallið. Sú tjaldlega var langþráð og ég svaf eins og klettarnir í kringum mig. 

Morguninn eftir vakna ég gjörsamlega orkulaus, hvert skref var mikið átak og ég var nánast rænulaus. Vilborg Arna var fljót að kveikja á því að ég var búinn að missa of mikinn vökva en ég hafði drukkið lítið deginum áður þar sem vatnið hafði frosið hjá mér. Hún blandaði orkudrykk og var ekki farið af stað fyrr en ég hafði hesthúsað yfir 2 lítra af vökva og þegar komið var í Camp 1 var ég búinn með 4 lítra.  Leiðin niður á milli Camp 2 og Camp 1 er líklega sú sem er mest krefjandi og reyndi verulega á bæði höfuð og útlimi og þegar við vorum komin í Camp 1 var aftur úr mér allur vindur. Eftir gott stopp og spægipylsu hjá Aleš hjarnaði ég við og við röltum niður í tjöldin okkar sem voru 200 metrum neðar, borðuðum dýrindis súpu, pökkuðum saman tjöldunum og bárum niður í grunnbúðir og vorum komin þar niður seinnipartinn 3. nóvember og þá fyrst var tilefni til að fagna. Fagna því að hafa fengið að vera hluti af þessu öfluga teymi og þannig fengið tækifæri til að láta þennan fjarlæga draum rætast. Það er nefnilega allt hægt – bara ef mann langar það nógu mikið.