Í fimmta þætti annarrar seríu af sjónvarpsþáttunum Úti var meðal annars farið í skíðagöngu milli skála í Noregi. Af því tilefni grípum við til norskuskotna nýyrðisins „að hyttast“.

„Þetta eru algerar óbyggðir og það skal hafa í huga við undirbúning ferðar.“

Það er mögnuð upplifun að ganga á skíðum á milli skála Norska Ferðafélagsins. Félagar í Ferðafélagi Íslands fá góð kjör á nýtingu skálanna og leiðir eru vel merktar á kortum. Góðir búrskápar eru í hyttunum og hægt að ferðast með tiltölulega lítið nesti, ef maður er tilbúinn að sætta sig við niðursoðnar hreindýrabollur. Í þættinum var farið um Hardangersvidda, en hægt er að fara margar aðrar leiðir líka, td á milli Fjallahótelsins í Bygdin, suður af Tröllheimen, til smábyggðarinnar í Tyinkrysset, með viðkomu í skálanum í Yksendalsbu á tveimur dögum. Í þeirri ferð var fyrst reyndar gengið á troðnum brautum frá skíðasvæðinu í Beitostolen yfir til Bygdin. 

Gengið er yfir frosin stöðuvötn.

Þetta eru algerar óbyggðir og það skal hafa í huga við undirbúning ferðar. Fara þarf vel yfir leiðina og hafa kort og áttavita með í för. Ekki skaðar að vera búin að setja leiðina upp í gps. Það sem kemur Íslendingum spánskt fyrir sjónir er að ferðast er yfir fjölda frosinna stöðuvatna og getur það virkað hættulegt. Hins vegar er hægt að fá upplýsingar á hótelum og upplýsingamiðstöðvum um stöðu íssins og oft eru leiðirnar mjög vel merktar. Gjarnan eru útföll merkt sérstaklega með viðvörunarflöggum enda ísinn veikari þar. 

í Yksendalsbu. Skálar Norska Ferðafélagsins eru mjög vel búnir.