Birnudalstindur er með skemmtilegri tindum íslenskum, hvort sem ferðast er á tveimur jafnfljótum eða á fjallaskíðum. Hann telst ekki til hæstu tinda á Íslandi, tæpir 1400 metrar, en einstak útlit og magnað tindaumhverfi bæta upp hæðina. Fáir tindar á Íslandi bjóða upp á annað eins útsýni og Birnudalstindur og brekkurnar ofan af honum eru einhverjar bestu fjallaskíðabrekkur landsins. Ekki er verra að nokkrar miskrefjandi leiðir eru í boði upp og niður af tindinum. Hér segir Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og fjallageit frá helstu göngu- og fjallaskíðaleiðum á þennan magnaða tind sem hann hefur margsinnis toppað gangandi og á fjallaskíðum.

Texti:  Tómas Guðbjartsson.  Myndir:  Ólafur Már Björnsson, Sigtryggur Ari Jóhannesson og Tómas Guðbjartsson.

Birnudalstindur er einn fjölmargra tinda í sunnanverðum Vatnajökli, nánar tiltekið í Kálfafellsfjöllum upp af Suðursveit. Tindurinn er 1396 m hár og úr suðri minnir hann á sökkvandi skip, líkt og skuturinn á Titanic stingist í hvítan sæ Vatnajökuls. En það er ekki aðeins tindurinn og klettabeltið neðan hans sem vekja athygli því í næsta nágrenni hans er ógrynni tilkomumikilla tinda, m.a. bræður hans Kaldárnúpur (1406 m) og Þverártindsegg (1544 m). Landslagið minnir óneitanlega á Alpana, enda sundurskornir dalir Kálfafellsfjalla einhverjir þeir hrikalegustu sem fyrirfinnast á Íslandi. Skriðjöklar steypast niður snarbrattar hlíðar og í dalbotnum tekur við net jökulfljóta sem minna á kransæðar í mannshjarta. Þekktastur er Kálfafellsdalur og inn af honum Þverártindsegg, sem er einhver skemmtilegasta jöklaganga hérlendis og skartar skriðjökli á miðri leið sem heitir því skemmtilega en viðeigandi nafni Skrekkur. Austan við Kálfafellsdal er opnari en ekki síður fallegur dalur, Staðardalur. Inn af honum til vesturs tekur við Birnudalur, sem ekki lætur mikið yfir sér í fyrstu. En þegar komið er inn fyrir mynni Birnudals opnast fjallaleikhús með einhverri mögnuðustu fjallasýningu sem í boði er á Íslandi.

 

Best er að leggja til atlögu við Birnudalstind að vori til eða snemmsumars þegar snjór hylur brekkur sem annars geta verið lausar og erfiðar uppgöngu. Það tekur tæplega 5 klst. að aka úr höfuðborginni í Suðursveit en þar bjóðast margir spennandi gististaðir. Bæirnir Hali og Gerði liggja niður að sjó og bjóða upp á einstakt útsýni til vesturs að Öræfajökli. Á báðum bæjunum er ferðaþjónusta árið um kring og boðið upp á gistingu og veitingar en einnig er hægt að fá leyfi til að slá upp tjaldi. Á Brunnavöllum, Vagnsstöðum og Kálfafellsstað er síðan hægt semja um svefnpokagistingu fyrir hópa. 

„Skyndilega blasir Birnudalstindur við í öllu sínu veldi og langar snjóbrekkur suður af honum.“

Ekið er að Kálfafellsstaðarkirkju sem staðsett er milli Kálfafells- og Staðardals. Frá henni er rúmlega 4 km ganga á jafnsléttu inn að mynni Birnudals og er fylgt jeppavegi. Hægt er að semja við landeigendur og keyra þennan jeppaslóða sem styttir gönguna um samtals 8 km. Haldið er upp stöllóttar hlíðar sunnan megin Birnudalsár og eru tilkomumiklir fossar á hægri hönd. Smám saman minnkar brattinn og þá er lag að koma sér yfir Birnudalsánna sem oftast má stikla á steinum. Stundum verður þó að vaða ánna sem er hressandi morgunleikfimi. Haldið er áfram inn eftir Birnudalnum og opnast fjallasalurinn sífellt meir eftir því sem innar er komið. Skyndilega blasir Birnudalstindur við í öllu sínu veldi og langar snjóbrekkur suður af honum. Þessum brekkum er fylgt áleiðis upp að klettabelti neðan tindsins en þá er sveigt til vesturs upp á hrygg sem síðan leiðir upp á tindinn. Síðasta brekkan getur verið varasöm og sérstaklega þarf að gæta að snjóflóðum. Ef gengið er upp á fjallaskíðum er skynsamlegt að ganga síðasta spölinn á mannbroddum með skíðin á bakpokanum. Á hálsinum vestan Birnudalstinds býðst eitt stórkostlegasta útsýni á íslensku fjalli. Þarna er bókstaflega horft ofan í hrikalegan Kálfafellsdalinn sem handan dalsins skartar Þverártindsegg og Skrekk í öllu sínu veldi. Aðeins norðar er torkleift og spísslaga fjall sem heitir Snæfell og er oftast kennt við Vatnajökul. Lengra í vestur sést í Öræfajökul, Sveinstind og Sveinsgnípu en í suðri sést í svarta suðurströndina sem teygir sig alla leið að Vestra Horni og Hornafirði. Af þessum útsýnispalli er stutt á hátindinn en þar sést betur yfir austanverðan Vatnajökul. Þar er Skálafellsjökull í forgrunni, en í norður sést í Kaldárnúp og alla leið til Kverkfjalla. 

Á toppnum er tilkomumikið útsýni.

Af tindi Birnudalstinds bjóðast þrjár leiðir, allar frábrugðnar og miskrefjandi. Oftast er gengin sama leið niður, þ.e. eftir Birnudalnum sem er 15 km ganga í heildina frá mynni dalsins, en 8 km lengri ef bílar eru skildir eftir við Kálfafellsstaðarkirkju. Vant göngufólk í góðri þjálfun ætti að spá í svokallaða tindaleið en aðeins ef veður er gott og ekki hætta á snjóflóðum. Er þá gengið af Birnudalstindi í suðvestur eftir eggjum tindanna sem skilja að Kálfafellsdal og Birnudal. Þarna bætist hratt í tindasafnið enda þótt fæstir þessara glæsilegu tinda séu merktir með nafni á kortum. Í góðu skyggni er þessi gönguleið einstök upplifun en á sama tíma krefjandi. Þegar komið er á síðustu tindana ofan kirkjunnar á Kálfafellsstað er mikilvægt að velja rétta niðurleið því þarna er auðvelt að villast og gönguleiðin brött. Því er skynsamlegt að hafa staðkunnuga með í för og notast við GPS-ferla. Tindaleiðina má einnig ganga upp á Birnudalstind og Birnudalinn til baka sem eru 21 km í heildina. 

Þriðja leiðin á Birnudalstind er ekki síst spennandi fyrir fjallaskíðafólk. Ekið er austur að Smyrlabjargarvirkjun og þaðan 16 km upp eftir bröttum jeppavegi í norðvestur að rótum Skálafellsjökuls. Þar er skáli í 840 m hæð sem heitir Jöklasel og er bækistöð ferðafyrirtækis sem býður upp á vélsleðaferðir um Vatnajökul. Bílar eru skildir eftir við skálann og síðan skinnað upp eftir Skálafellsjökli vestanverðum þar til komið er að austurvegg Birnudalstinds. Útsýni á leiðinni til austurs er frábært og tindarnir sem stingast eins og kirkjuturnar upp úr jöklinum vestan megin eru mikið augnayndi. Þegar komið er að skipsskrokk Birnudalstinds opnast lítið skarð sem veit að brattri snjóbrekku sunnan tindsins. Brekkan er skáuð en því aðeins að ekki sé hætta á snjóflóðum. Þegar komið er vestur fyrir klettabeltið er haldið upp á útsýnisöxlina sem áður var lýst fyrir hefðbundnu gönguleiðina. Af hátindinum geta vanir skíðamenn skíðað samfellt niður Birnudal og verður bunan lengri eftir því sem ferðin er farin fyrr að vori. Gæta verður að giljum og fossum sem geta verið á leiðinni og best að halda sér austan megin Birnudalsár uns komið er að staðnum þar sem áin er stikluð eða vaðin. Neðsta hlutann verður yfirleitt alltaf að bera skíðin á bakpokanum en á góðum degi má oft sjá hjarðir hreindýra ofan í Staðardal.

Áður en haldið er heim á leið er tilvalið að koma við á Þorbergssetri á Hala. Þar fæddist og óx úr grasi Þórbergur Þórðarson rithöfundur (1888-1974), en náttúru Suðursveitar gerði hann ódauðlegaa í bókum eins og Steinarnir tala. Á safninu er ævi hans rakin og hægt er að kynna sér verk hans og tilvitnanir sem oft áttu sér kveikju í náttúru Suðursveitar- umhverfi sem ekki lætur neinn ósnortinn sem þangað kemur.