Á þessari mynd gefur að líta Halldóru Gyðu Matthíasdóttur á góðu skriði ca miðja vegu milli Englands og Frakklands, en hún er ein af Marglyttunum, sem er hópur kvenna sem var sérstaklega stofnaður til að takast á við hið stóra markmið sundfólks: Að synda yfir Ermarsundið. Með sundinu, sem þreytt var í september 2019 og greinir frá í 4.þætti annarrar seríu af Úti, vildu Marglytturnar vekja athygli á plastmengun sjávar. Hinar í hópnum voru þær Birna Bragadóttir, Sigurlaug María Jónsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir og Sigrún Þ. Geirsdóttir. Sigrún var fyrst íslenskra kvenna til að synda yfir sundið og jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að klára í fyrstu tilraun.

Marglytturnar

Það er ekki hlaupið að því að synda Ermarsundið. Leiðin milli Dover í Englandi og Cap Gris í Frakklandi er 34 kílómetrar. Strangar reglur gilda. Maður mætir ekki bara á ströndina hress, tekur nokkrar teygjur og byrjar að synda. Til þess að sundið verði viðurkennt og synt samkvæmt reglunum þarf að bóka sundtíma með allgóðum fyrirvara hjá sérstökum viðurkenndum aðila. Þetta er hægt að gera hjá félagsskap sem ber hið fróma nafn „Channel Swimming Association“, eða Ermarsundsfélagið, en það félag var stofnað árið 1927. Þar er þá jafnframt bókaður bátur og leiðsögumanneskja til þess að fylgja sundinu yfir sundið, og það er ekki ókeypis. 

Birna og Þórey og Tómas tökumaður í bakgrunni.

Áður en lagt er af stað verður sundfólkið að sýna fram á að það hafi eytt nægilegum tíma við sund í köldum sjó og sé þar með líklegt til þess að fara sér ekki á voða. Fyrir einstaklingssund þarf að hafa synt í sex tíma, en boðsundsfólk þarf að hafa synt í tvo. 

Bannað er að þiggja nokkra aðstoð á leiðinni sem felur í sér snertingu annarrar manneskju eða njóta einhvers konar tæknibúnaðar til hægðarauka. Næringu er komið til skila til sundfólks með stöngum af bátnum. Eini leyfilegi búnaðurinn er sundgleraugu, ein sundhetta, nefklemma, eyrnatappar og sundföt, sem mega ekki ná niður fæturnar og heldur ekki hafa ermar, sem skýtur auðvitað skökku við á Ermarsundi. 

Það er ekki að ástæðulausu að Ermarsundið er kallað Everest sundfólks. Þetta er mikil þrekraun. Matthew Webb synti fyrstur árið 1875 og var tæpa 22 tíma að því. Síðan hafa 2494 klárað sundið, þegar þetta er skrifað, á vegum Ermarsundsfélagsins, þar af eru 842 boðsund og 1652 einstaklingssund. Hraðametið var sett árið 1994 og er 7 klst og 17 mínútur. Geri aðrir betur.

Um borð í bátnum