Ég var spurð að því um daginn í útvarpsviðtali hvert hugur minn færi þegar álagið í vinnu minni yrði of mikið. „Upp á hálendi eða eitthvert upp á fjöll“ svaraði ég án þess að hika – enda dagsatt. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar

Mörg okkar hljóta að hafa upplifað hversu mikil andleg hugleiðsla það er að vera á fjöllum eða í náttúrunni almennt. Einn af þessum góðu hugarslakandi stöðum fyrir mér er Víknaslóðir. 

Árið 2005 ákvað ég að ég ætti þetta svæði eftir (svona talar fólk sem telur sig hafa farið víða og út um allt en vill dekka meira landsvæði) og þó að ég þekkti engan þarna og hefði engar tengingar, ákvað ég að sækja um vikulanga skálavörslu í Húsavík um sumarið. Keyrði þangað ein úr Reykjavík með tæplega 2 ára dóttur mína á fólksbíl…viðþolslaus að komast almennilega upp á fjöll eftir að hafa dregið verulega úr fjallabrölti eftir fæðingu stúlkunnar minnar. Ég hafði þá starfað í 5 sumur sem fjallaleiðsögumaður frá árinu 1998 og þar á undan unnið þrjú sumur á Skálafellsjökli á Vatnajökli, svo að draga úr fjallamennskunni hafði verið ansi erfitt fyrir mig. Þegar ég uppgötvaði tækifæri til að dvelja á fjöllum með litla barnið, hikaði ég ekki. 

„Að geta sofið í litlu sérhúsi með sína eigin talstöð og hella upp á sitt kaffi í rólegheitum, á meðan hlustað er á langbylgjuna í útvarpinu er dásemd og engu líkt.“

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs er alveg magnað félag. Stofnað árið 1969 og rekur 6 gistiskála sem eru nokkrir af bestu fjallaskálum landsins;  Sigurðarskála í Kerlingarfjöllum, sem félagið á og rekur í samvinnu við Ferðafélag Húsavíkur, skálana tvo í Lónsöræfum; í Geldingarfelli og Egilsseli við Kollumúlavatn. Síðan eru það skálarnir þrír í Víkunum; skálinn í Breiðuvík og í Húsavík og sá nýjasti er í Loðmundarfirði. Til viðbótar við rekstur og viðhald skálanna, stendur félagið fyrir fjölmörgum skipulögðum göngum, hefur gefið út gönguleiðakort m.a. fyrir nágrenni Snæfells og Kverkfjalla og auðvitað gönguleiðakort fyrir Víknaslóðir og félagar stikað leiðir á sínu „yfirráðasvæði“. Þetta er ótrúlega mikilvægt starf sem er að mestu unnið í sjálfboðavinnu en ef elju og eldmóð eins og Þórhallur, óstöðvandi framkvæmdastjóri félagsins, sýnir og sannar. Yfir sumartímann óskar félagið eftir sjálfboðaliðum til að sinna skálavörslu í skálunum þremur í Víkunum í eina viku í senn. Mér hefur verið sagt að færri komist í skálavörslu en vilja. Enda ekki skrítið. 

Skálavörðurinn Rósa

Þessi fyrsta vika sem ég tók að mér skálavörslu var ég í Húsavík. Vikan, sem varð sú fyrsta af mörgum þar, var frábær. Ég uppgötvaði hversu framúrskarandi skálarnir eru og hvað aðstaðan er góð fyrir ferðafólk. Ég skildi ekki af hverju fleiri voru ekki á ferð á þessu dásamlega svæði. En ferðafólki hefur fjölgað með árunum.  

Litli skálavarðarskálinn er lykilatriðið til að lokka sjálfboðaliða til starfans. Að geta sofið í litlu sérhúsi með sína eigin talstöð og hella upp á sitt kaffi í rólegheitum, á meðan hlustað er á langbylgjuna í útvarpinu er dásemd og engu líkt. En það er líka gaman að hoppa yfir í stóra skálann til að rabba, spila eða bara til að breyta um umhverfi ef rignir mikið. 

Ég gekk um svæðið og las byggðasögu þess, sem er mögnuð og ljær dvölinni miklu meiri dýpt. Svaf vel með litlu stelpuna mína, hvíldist í ró og friði og dáðist að Hvítserk sem varð þessa viku eitt af mínum uppáhaldsfjöllum með sínum líparít-rákum og litabrigðum. Hreindýraveiðitímabilið var hafið þarna og skothvellir veiðimanna settu smá ugg að brjósti en um leið er æsispennandi að kíkja eftir hreindýrahópum. Nokkrum árum síðar þegar ég gekk fram að stórum hreindýrahópi fela sig í klettunum við Húsavík ákvað ég að láta hreindýraeftirlitsmenn ekki vita. Vona að Skúli heitinn Sveinsson, virkur félagi í Ferðafélagi Fjótsdalshéraðs og allt-muligmann á svæðinu fyrirgefi mér það. 

Frábært er að vera með börn í skálavörslu.

Börnunum fjölgaði næstu árin og vikunum líka í skálavörslu. Fyrir fjölskyldufólk er algjör paradís að vera með börn í skálavörslu. Að eiga eina viku í faðmi náttúrunnar og í litlum skála með dassi af smá klósettþrifum er lærdómur fyrir fullorðna en ekki síst fyrir börn. Fleiri göngur, meiri lestur, aðeins fleira ferðafólk, samtöl og söngur frægs tónlistarmanns og fjölskyldu hans, óvænt sumarmessa í Klyppstaðakirkju í Loðmundarfirði og messukaffihlaðborð á eftir, ógleymanlegur svipur á þakklátum niðurringdum vinkonum í trússferð þegar ég beið þeirra í skálanum með rjúkandi lambalæri og meðlæti. 

Því svona hefur það verið í Húsavík og þannig á það að vera á fjöllum; ekki bara góð andleg og líkamleg næring heldur endalaus veisla fyrir sál og líkama.