Hjólaauglýsingar fylla núna fjölmiðla. Tilboðsverð út um allt. Allir út að hjóla. En á hvernig hjóli?

Liðin er sú tíð að hjól var bara hjól. Hægur leikur er fyrir hjólaáhugafólk að fylla meðalstóra vöruskemmu af ólíkum týpum hjóla fyrir hin ýmsu tilefni. Í viðleitni okkar til þess að gera skýrt yfirlit yfir helstu tegundir hjóla, lesendum til glöggvunar, höfum við komist að því að um mikinn frumskóg er að ræða. Hér eru þó þær 14 tegundir sem allir þurfa augljóslega að eiga. 

Djók. 

Við gerðum smá lista. Og með hverri týpu tilgreinum við eina hjólabúð og hjól úr þeirri búð. Þannig að þetta er líka listi yfir hjólabúðir, sem er ekki slæmt.

1. Fulldempað fjallahjól 

Svona hjól hentar fyrir tæknilegar hjólreiðar til fjalla. Stillanlegir demparar eru bæði á framhjóli og á afturhjóli, undir sæti. Á svona hjóli er hægt að ferðast af mikilli mýkt um torfærur. Stillanleiki hjólsins er kostur.  Cannondale Scalpel. GAP

2. „Hardtail“ fjallahjól

Líkt og þau fulldempuðu er þessi tegund fjallahjóla höfð á tiltölulega breiðum og grófum dekkjum og stýrið er flatt, semsagt ekki hrútastýri. „Hardtail“ hjól eru hins vegar einungis með dempun að framan. Svona hjól hentar vel í síður tæknilegri torfærutrylling, eins og Bláalónsþrautina, og eru líka fín í daglegu lífi. Svolítið eins og að keyra um á jepplingi. Specialized Rockhopper Expert. Kría. 

3. Feithjól (Fatbike)

Þessi hjól eru eins og jeppar á 38” dekkjum. Á feithjóli er hægt að göslast yfir hraun og krap, en þau geta verið þung í svifum og jafnvel þótt rafmagnsmótor sé hafður með til hjálpar, eins og algengt er, fer maður ekki hratt yfir. En maður skilar sér.  BH Big Bud 26″ Fjallakofinn/bike.is

4. Blendingar (Hybrid)

Á svona hjóli situr fólk meira upprétt heldur en á fjallahjóli, vegna stöðu stýrsins, og dekkin eru jafnframt ekki eins gróf.  Þessi hjól eru blanda af fjallahjóli og götuhjóli og geta því hentað mörgum vel sem fjölnota hjól við alls kyns kringumstæður. Trek DS 3 WSD. Örninn. 

5. Cyclocross

Hér er maður auðvitað kominn út í vissar fínstillingar. Svona hjól eru góð á götum borgarinnar en líka á moldarstígum, grasi og sandi. Það er hægt að fara hratt og torfærast smá. Þau eru yfirleitt létt. Fólk hleypur með þau stuttan spöl þegar þess þarf í keppnum. Focus Mares 6.9. Hjólasprettur.

6. Malarhjól

Þessi hjól eru með hrútastýri og á grófari dekkjum en cyclocross hjólin. Nú erum við ekki bara að horfa á moldarstíga og svoleiðis, heldur erum við komin á mölina. Þessi hjól henta því vel við íslenskar aðstæður.  Góð ferðahjól. Og meira að segja hægt að fá íslenska framleiðslu með flöskuupptakara á stellinu. Lauf True Grit Race AXS. Lauf.

7. Ferðahjól (Touring)

Bestu ferðahjólin eru þó hin eiginlegu ferðahjól. Þau eru gerð sérstaklega til langferðalaga. Allar festingar fyrir töskur eru til staðar. Fólk situr þægilega á þægilegum hnakki, en getur þó farið hratt yfir. Cube Touring Pro. Tri.

8. Götuhjól (Racer)

Einu sinni voru svona hjól bara kölluð 10 gíra hjól og málið útrætt. Þetta eru hraðahjólin, þessi á mjóu dekkjunum með hrútastýri og mjóum hnakki. Fislétt yfirleitt. Maður brunar á svona hjóli um göturnar, helst í einhvers konar ofurhetjugalla, því hér er maður svolítið farinn að spá í hjólreiðar sem keppnisíþrótt.  Scott Speedster 10. Markið

9. Þríþrautarhjól

Hér er sérhæfingin orðin allnokkur. Svona hjól eru í raun sérstaklega útfærðir racer-ar, með það í huga að komast á pall í þríþraut. Fislétt. Loftmótstaða í lágmarki. Hægt að straumlínulaga sig á hjólinu svo maður kljúfi sem best. Maður fer varla á þessu í vinnuna. En örugglega gaman að eiga svona. BMC Timemachine 01 Disc One. Peloton.

10. Borgarhjól

Þetta eru, að segja má, svona venjuleg hjól. Bara svona hjól til þess að skottast á um borgina. Gírar eru yfirleitt mun færri en á þeim hjólum sem nefnd hafa verið hér, og maður situr þægilega en fer ekki mjög hratt yfir, enda kannski engin ástæða til að vera endalaust að flýta sér. Stevens Corvara Forma. Everest.

11. Rafmagnshjól

Þessi eru mjög að ryðja sér til rúms og mikil framþróun í gangi. Alls konar týpur til, og efni í aðra grein. Vilji maður losna við að koma sveittur í vinnuna eftir að hafa hjólað þangað, þá eru rafmagnshjól málið. Þau losa mann við mesta púlið. Hér er auðvitað um mikla, græna samgöngubyltingu að ræða, því rafmagnshjól henta flestum til þess að fara snuðrulaust milli A og B. Merida eSpresso City 200 EQ. Ellingsen

12. Stásshjól

Hér bryddum við upp á nýyrði. Þetta eru sparihjólin. Stássið. Konur í síðum pilsum með hatt. Karlar í tweet-fötum. Nostalgísk fegurð er hér í fyrirrúmi. En það er líka stutt úr stássinu í stússið. Setja má körfur og bögglabera á svona hjól og flytja alls konar hluti milli staða. Með stíl. Reid Ladies Classic Vintage. Berlin/reidhjolaverzlunin.is 

13. Samanbrjótanlegt hjól

Svona hjól kaupir maður þegar ekki er pláss í skúrnum fyrir þrettánda hjólið. Þetta getur maður brotið saman og haft inni í stofu. Vilji maður líka hafa hjól með sér í t.d. strætó, þá er þetta hentugt.  Fuji Origami 1.1. Hvellur

14. Tveggja manna hjól

Þetta er auðvitað nauðsynlegt. Þegar fólk er orðið hundleitt á því að hjóla eitt á hinum þrettán hjólunum, þá er þetta dregið úr skúrnum. Fátt eflir samband hjóna meira en að hjóla saman. Helst í eins göllum. Þetta er svokallað hjónahjól. Möst. Gætið samt að covid19. Ekki hjóla með fólki sem hefur einkenni. Micargi Island Tandem Bicycle. Amazon.com