Örninn, sem líka gengur undir nafninu Tröllkarlinn, er glæsilegasti tindurinn sé horft til fjalla úr Grundarfirði. Hann er líka sá flottasti sé horft á fjallgarðinn að sunnan. Hann er einn af þessum tindum sem ekki er gott að sjá í einni hendingu að hægt sé að komast á toppinn. Við höfðum þó lengi haft vitneskju um örfáa leiðangra á Örninn í gegnum tíðina. Ég hafði rætt verkefnið við Ara Trausta Guðmundsson sem hefur klifið Örninn og fjallið hafði að auki verið á dagskrá Brattgengis Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Svo að þetta var hægt.

Róbert Marshall skrifar.

Af þessi ferð segir í 1.þætti annarrar seríu af sjónvarpsþáttunum Úti, sem sýndir eru á RÚV nú á vormánuðum 2020.

Örninn er 778 m hár. Hópurinn gekk upp að sunnan megin en best er að leggja á fjallið þegar eitthvað er eftir af snjó á vorin.

Við lögðum upp úr Bláfelldarhrauni á vormánuðum og með í för voru auk mín og Brynhildar Ólafsdóttur, Tómas Marshall, Tómas Guðbjartsson og þau Haraldur Örn Ólafsson og Vilborg Arna Gissurardóttir en ferðinni verður gerð skil í næstu seríu af sjónvarpsþáttunum Úti sem sýndir verða á RÚV næsta vor.

Athugið að í undirhlíðum Arnarins, norðanmegin, falla næstum árlega stóreflis snjóflóð svo hafa þarf varann á sér þar.

Örninn reynir á. Það er mun öruggara að fara þarna upp að vori þegar eitthvað er eftir af snjó í bröttum hlíðunum. Það auðveldar klifrið til muna. Þetta er tæknilega erfitt fjall og kallar á brodda, axir, línur, slinga, tryggingartól og kunnáttu. Og verðlaunin eru ekki af lakari endanum. Útsýnið er stórkostlegt. Ekki er síðri sú tilfinning að hafa loksins kynnst fjalli sem maður hafði lengi velt fyrir sér hvort væri þorandi að kynna sig fyrir.

Tómas Marshall myndar Vilborgu Örnu á leiðinni niður af Erninum en ævintýrið verður sýnt í þáttunum Úti að vori 2020. Grundarfjörður og Kirkjufell í bakgrunni. Aðstæður henta illa lofthræddum.

Við gengum norðurleiðina niður og enduðum í frábærum kvöldmat á Bjargarsteini í Grundarfirði. Athugið að í undirhlíðum Arnarins, norðanmegin, falla næstum árlega stóreflis snjóflóð svo hafa þarf varann á sér þar.

—————

Örninn, eða Tröllkarlinn, var klifinn 22.febrúar 1986 af þeim Ara Trausta Guðmundssyni, Finnboga Rögnvaldssyni, Hermanni Valssyni, Hreini Magnússyni og Höskuldi Gylfasyni. Leiðarlýsingin, skrifuð af Ara, birtist í Ársriti Íslenska alpaklúbbsins árið 1989. Hér er hún endurbirt:

Brynhildur Ólafsdóttir og Vilborg Arna koma niður bratta snjóbrekkuna sem notuð var til að komast upp á tindinn sjálfann. Haraldur Örn leiddi þennan hluta á leiðinni upp.

Þegar litið er til Snæfellsness frá Reykjavík, staldra margir við reisulegan tind um miðbik nessins. Hann virðist rísa einn og sér med píramídalagi upp af fjallgarðinum. Úr fjarlægð virðist tindurinn vera helsta augnayndi fjallamanna á Snæfellsnesi, að jöklinum sjálfum slepptum. Fyrir mörgum árum höfðum við, nokkrir klifurfélagar, fundið fyrirbærið á korti og heitið „Örninn“. Ekki amalegt nafn. Og ósjaldan höfðu fallið orð um að klífa fjallið, enda hlyti að vera til ófarin leið á jafn hvassbrýndan tind og þennan. En úr framkvæmdum varð minna, en orð gáfu tilefni til.

Til þeirra þurfti heimamann úr Staðarsveitinni, jarðfræðinema frá Staðarstað, Finnboga Rögnvaldsson. Hann hafði árangurslaust reynt að sumri að klífa suðurhlíðar Tröllkarlsins, eins og fjallið heitir í munni nærsveitunga sunnanmegin á nesinu. Finnbogi stakk upp á því, að ísbirnir úr kunningjahópi mínum reyndu við tindinn.

Fáeinum vikum síðar, í snjóléttu tíðarfari, stefndum við fimm að sólroðnu fjallinu. Leiðin lá um auðveldar brekkur og snjófannir upp að fjallinu. Til norðvesturs sá yfir nokkra snotra tinda og suma girnilega, t.d. Tröllkerlinu og megintinda Helgrindanna, sem eru um og yfir 900 m háir. Þegar nær dró suðurhlíð (eða öllu heldur suðausturhlíð) Arnarins, varð ljóst að upp meginhamrabeltin yrði ekki farið í jafn snjó- og ísléttu færi. En vestan til í píramídanum var greinilegt gil og ísrás upp á stall neðan við klettahausinn á tindinum.

Vilborg Arna og Haraldur Örn í fararbroddi.

Við klifum snjóbrekku (I.gráða), um 50 metra, upp að þrengslunum í gilinu. Hreinn og Höskuldur lögðu í íslænuna (2 spannir, önnur með III.gráðu hreyfingum), en við hinir klifum hrygg vestan í gilinu (einnig 2 spannir, önnur með III.gráðu hreyfingum), uns leiðir lágu saman á áðurgreindum stalli. Síðasta spönnin var létt brölt á tindinn, sem reyndist vera mjór rimi.

Eins og svo oft áður, var fantaflott útsýni í allar áttir af Erninum, allt frá Snæfellsnesi til Ljósufjalla.

Eins og svo oft áður, var fantaflott útsýni í allar áttir af Erninum, allt frá Snæfellsnesi til Ljósufjalla. Ekki reyndist fjallið eins spennandi að sjá að norðan, brattar snjóbrekkur og fremur léttur snjóhryggur til norðvesturs. Hvorki Finnbogi, né við hinir, kunnum af því fregnir hvort nokkur hafi gengið á Örninn á undan þessum hópi.

Við sigum í snjópolla brattasta hluta leiðarinnar á hæpnum forsendum, því snjórinn var nýlegur og harla mjúkur. Enda festist línan í niðurdrætti og þurfti að klífa upp til að leysa ofan.

Eftir 10 tíma ferð, sat svo hópurinn, ánægður að vonum, í setlaug að Lýsuhóli og vermdi úr sér þreytustrengina. Sú stund komst næst tindamínútunum og frábærum viðurgjörningi að Staðarstað hjá presthjónunum. En honum og spjallinu um eilífðarmálin þar á bæ, verður ekki lýst hér, enda hætt við að þá fykju hæðarmet íslenskra fjallamanna.