Kjartan Long var leiðsögumaður tveggja Bandaríkjamanna í fjallahjólaferð á hálendi Íslands sumarið 2017. Á milli þeirra tókst góður vinskapur sem leiddi til þess að það var ákveðið að hann færi með þeim í hjólaferð í gegnum óbyggðir Utah í Bandaríkjunum haustið 2019. Hér er ferðasaga hans.  

Texti: Kjartan Long. Myndir: Kjartan Long og James Cox

Hópurinn samanstóð af af þrettán körlum, aðallega Bandaríkjamönnum. Það var að auki einn Finni og ég. Lizard Head Cycling í Colorado sá um leiðsögn í ferðinni en fyrirtækið hefur boðið uppá ferðir á þessu svæði undanfarin ár.

Leiðin sem var hjóluð er hluti af Heyduke Trail sem er um  900 km og liggur í gegnum Utah, frá Lake Powell til Moab í Colorado. Í þessari ferð var hjólaður um helmingur leiðarinnar eða um 450 km. Ferðin hófst  sunnan við fjallgarðinn Henry Mountains sem eru staðsett í suðaustur Utah og endað í bænum Moab í Colorado sem hefur verið miðstöð fjallahjólreiða um áratugaskeið. Hjólaleiðin sjálf er nokkuð krefjandi, talsvert um klifur og gott var að hafa tækniatriðin á hreinu síðasta daginn þar sem þræddar voru klettasyllur og þröngir stígar í átt að Moab.

Greinarhöfundur og James Cox með Colorado-ánna í baksýn.

Leiðinni var skipt upp í sex hjóladaga, um 60-90 km á dag. Gist var í tjöldum og fylgdi okkur einn leiðsögumaður á jeppa og annar á hjóli. Fylgdarjeppinn trússaði allan farangur, mat og vatn þar sem ekki var hægt að nálgast kost á leiðinni. Eldhúsaðstaða var í jeppanum og tóku allir þátt í matseld og frágangi. Maturinn samanstóð aðallega af kássum, baunum, hamborgurum, pyslum og öðrum kjarngóðum mat sem hæfði mjög vel orkuþörf hópsins eftir langa hjóladaga.

„Leðurblökur fóru einnig á stjá þegar sól var sest, sléttuúlfar góluðu og ernir og gammar svifu yfir. Nóttin var svört og full af lífi.“

Ferðalagið mitt hófst í San Francisco þar sem ég flaug beint þangað frá Íslandi.  Þaðan var ekið til Reno sem er í Nevada – oft kölluð „stærsta litla borg í heimi“ – og gist eina nótt. Frá Reno var ekið til Salt Lake City í Utah og gist. Snemma morguninn eftir  var lagt af stað áleiðis á upphafsstað hópsins í Grand Junction, Colorado.  Aksturinn var langur en ferðast í gegnum gríðarlega fallegt og hrjóstugt eyðimerkursvæði á leiðinni.

Eftir að hafa yfirgefið síðasta eyðimerkurbæinn þar sem búið var að breyta bensínstöðinni í sjoppulegan mexíkanskan stað þar sem tómar bjórdósir fuku til og frá og snjáðir fánar blöktu í vindinum var beygt út af þjóðvegi 70. Þar tók fjallgarðurinn Henry Mountains á móti okkur og sjálf hjólaferðin hófst.

Allir sex hjóladagarnir höfðu sín séreinkenni. Allt frá mjög þurrum sléttum, djúpum giljum til grösugra bakka Colorado árinnar. Allir dagar buðu upp á nýjar upplifanir, náttúran er hrá en ólýsanlega falleg. Eyðimörkin sem í fjarlægð sýnist dauð og lítt spennandi iðar af miklu dýralífi og urðu snákar og skröltormar  víða á vegi okkar og snigluðust líka í kringum okkur á kvöldin.  Leðurblökur fóru einnig á stjá þegar sól var sest, sléttuúlfar góluðu og ernir og gammar svifu yfir. Nóttin var svört og full af lífi.

Eftir hjól dagsins var tjaldað, spjallað og byrjað að undirbúa kvöldmat. Eftir kvöldmat var farið yfir hjólaleið morgundagsins, tekið í spil og lesin kvöldsagan Desert Notes eftir Barry Lopes sem hæfði fullkomlega þessu umhverfi.  Það sem var mest einna mest hellandi við svæðið  voru hversu hjólaleiðirnar voru fjölbreyttar; sandsteinar, grænir skógar, hrikaleg gljúfur, gamlir vegslóðar námamanna, götur kaupmanna sem lágu sumir hverjir hátt uppi í klettabeltunum.

Í eyðimerkum Utah koma oft þrumuveður með miklum vindi og haglhéli. Við vorum þó heppnir með veður, sól alla daga og hægur andvari með hitastigi allt frá 0 gráður á nóttunni yfir í 38 gráður yfir hádaginn.

Þegar svona miklar andstæður geta verið í veðurfari er mikilvægt að allur klæðnaður sé miðaður við aðstæður hverju sinni. Sem dæmi þurftu allir í hópnum að taka með sér gúmmíregngalla sem við notuðum þó aldrei og sluppum með að vera í okkar léttustu hjólafötum. Eins var mælt með því að vera eingöngu í bómullarbol sem innsta/ytra lag því hann hrindir mesta hitanum frá. Þannig henta polyester íþróttabolir illa þar sem þeir virka eins og plastpoki í mikilli sól og hita.

Þá sex daga sem hópurinn var á ferðinni vorum við meira og minna einangraðir frá umheiminum. Mjög lítið símasamband er á svæðinu og því gafst einstakt tækifæri  til að draga sig úr amstri dagsins og njóta hverrar mínútu.

Ef þú vilt komast algjörlega úr alfaraleið, njóta lifandi eyðimerkur og upplifa ævintýralegt landslag á fjallahjólinu þá mæli ég algjörlega með eyðilöndum Utah og Colorado sem áfangastað.