Eins og við höfum alltaf sagt hér á Úti er stærsti líkamsræktarsalurinn auðvitað úti. Nú þegar covid óværan herjar á mannkyn koma þessi fornkveðnu sannindi sterk inn. Hina ýmsu líkamsrækt er hægt að stunda með góðu móti án þess að þurfa að nálgast annað fólk. Þetta eru ekki góðir tímar fyrir glímu, júdó, sjómann eða krók. Hér eru nokkrar betri hugmyndir:    

Gönguskíði

Þótt skíðasvæðum hafi verið lokað er enn reynt að hafa gönguspor opin. Tiltölulega auðvelt er að halda 2 metra fjarlægð frá öðru fólki þegar maður er á gönguskíðum og engin nauðsyn er á knúsi, handaböndum eða háum fimmum. Nóg er að heilsa fólki bara með einu léttu “góðan daginn” ef maður mætir því, eða — betra — með léttu “hej” með norskum hreim. Ullur gerir gönguspor í Heiðmörk hvenær sem tækifæri gefst og athafnafólkið í Icebike gerir fjölnota spor í nágrenni ReykjavíkurEf ekki er gönguspor opið er síðan alltaf hægt að stunda gönguskíðamennsku á utansporaskíðum. 

Fjallaskíði

Skíðsvæðum hefur verið lokað aðallega vegna þess að ekki þótti stætt á því að fólk notaði sömu lyftur. Þar skapast smithætta. En hins vegar er vel hægt að skíða án lyfta. Fjallaskíðun er góð líkamsrækt og lítið mál að halda góðri fjarlægð við samferðamanneskju. Að skinna upp Skálafellið eða Suðurgilið í Bláfjöllum er hin prýðilegasta skemmtun. Eins mælum við með Ármannsfelli á Þingvöllum. Á fjallaskíðum þarf vitaskuld að gæta allrar varúðar, vegna snjóflóðahættu til fjalla, þannig að gott ráð til óvanra er að spyrjast fyrir áður en lagt er af stað, vera vel búin/n, kanna veðurspá vel og umfram allt reyna að velja svæði þar sem hætta er hverfandi og halli í brekkum ekki of mikill (ekki meiri en 30 gráður). 

Hjólreiðar

Hugsanlega fer snjóa að leysa og hálka að minnka þannig að betri aðstæður skapist til hjólreiða. Hjólreiðar eru auðvitað fyrirtakssport á tímum covid. Hver á sínu hjóli. Engin nánd. Ef stoppað er, þá er beinlínis asnalegt að vera of nálægt öðrum. Hjólreiðafólk heldur fjarlægð. Að pósa með hjólið í góðri fjarlægð frá hinum, svo hjól og búnaður sjáist vel — einkum ef hann er nýr og eitthvað til að monta sig af — er mikilvægt. Kannski er ekki ráðlegt að æfa vindbrot í hópi, þar sem vissrar nálægðar innan hjólandi hóps á racerum er krafist, en að öðru leyti hljóta hjólreiðar að vera hið besta mál.

Brimbretti

Að gösslast á brimbretti, til dæmis í fjörunni við Þorlákshöfn, er hin magnaðasta líkamsrækt. Þótt maður fari með öðrum, sem er ráðlegt, þá er maður alltaf einhvern einn með hafinu. En hér gildir auðvitað að best er að notast við eigin búnað, en dauðhreinsa að öðrum kosti. Hægt er að leigja brimbretti, til dæmis hjá artcticsurfers.com.  Í raun eru önnur brettasport tilvalin á kórónatímum líka, s.s. seglbretti og paddle-board, þar sem fólk stendur einmitt eitt, tignarlegt, á spegilslétum haffleti.

Kayak

Á kayak er fólk eitt í heiminum, jafnvel þótt farið sé með öðrum. Svo lengi sem skilyrði eru góð og maður kann smá fyrir sér, þá er engin þörf á snertingu við aðra. Smithætta gæti þó skapast ef fólk er mikið að nota sömu kayakana — að skiptast á — þannig að annað hvort er að hreinsa þá mjög vel milli ferða eða eiga eitt straumlínulagað, glansandi kvikindi. Og leyfa engum öðrum að prófa. 


Sjósund/Villisund

Eigi fólk galla — tja, eða er nógu svalt til að þola jökulkulda án galla – að þá er tilvalið að skreppa upp að Hafravatni og taka sprett í vatninu. Nú eða bara fara í sjóinn. Gætið samt ætíð að aðstæðum. Alls ekki synda þar sem útstreymi er mikið. Gallinn — í merkingunni meinbugur — á hefðbundnu sjósundi í Nauthólsvík um þessar mundir er hins vegar sá að ekki er hægt að bregða sér í pottinn á eftir. Það má ekki. En sumir segja að kuldasund án potts sé einmitt hollara. Nú er tíminn til að prófa það. 

Skokk

Ef marka má stemmninguna á Ægissíðu og víðar er veldisvöxtur á skokki þessa dagana. Það er skiljanlegt. Skokk er auðvitað einfaldasta leiðin til að koma blóðinu á hreyfingu á tímum kórónavár. Bara skella sér út og haupa af stað. Gætið þó að því, að freistingin til þess að vera nær fólki er meiri í skokki en í hinum íþróttunum sem hér hafa verið nefndar. Fólk vill spjalla og tveggja metra fjarlægðin getur verið fólki óeðlileg. En hér er enginn miskunn. Bara spjalla hærra. Og svo líka þetta: Alls ekki hrækja eða blása úr nösum eða hósta nema í algjörri fullvissu um að ekkert annað fólk sé nálægt. 

Göngutúr/Fjallganga

Þetta er auðvitað líka augljós möguleiki og mikið tekinn. Hálftíma ganga á dag fullnægir ráðlögðum dagskammti hreyfingar, svo ekki sé talað um hressilega fjallgöngu. Ef gengið er með öðrum gildir hið sama og í skokkinu. Halda fjarlægð. Það getur verið erfitt. Kannski er best að ganga bara ein eða með sínum nánustu. Eða hringja í aldraða foreldra sína og tala við þá í góðum bluetooth heyrnartólum á meðan gengið er. 

Heimaæfingar/jóga

„Upp á táberg, niður aftur, gefa eftir í hnjánum. Og nú á einum fæti…“ RÚV hefur verið að sýna gamla sjónvarpsþætti með heimaæfingum. Að fylgja þeim er fyrirtak. Ekki er flókið að styrkja sig án leiðsagnar, en oft er betra að hafa eitthvað sem hvetur mann og heldur manni við efnið.  Urmull er til af öppum sem hjálpa fólki að halda striki í heimaæfingum. Og jógaöpp eru fjölmörg. Einu sinni skrifuðum við líka þessa grein í Úti, um æfingar í daglegu amstri. Hún kemur sterk inn núna. Allar þessar æfingar er að sjálfsögðu hægt að stunda úti líka. Bara ekki með öðrum, nema auðvitað ef 2 metra fjarlægð er viðhaldið, eins og á meðfylgjandi mynd af skógarjóga í Heiðmörk.

Blöðrubolti

Við hendum þessu inn svona meira uppá grínið, en ef fólk er haldið ósefandi þörf til að stunda boltaíþróttir að þá er auðvitað hægt að næla sér í eina plastkúlu og fara í bubble-bolta, svokallaðan.  Engar snertingar. Engin nálægð. (Af hverju að fresta EM? Hér er lausnin.) Eins og í öðru, að þá þarf maður helst að eiga kúluna. Ekki má nota blöðrur sem aðrir hafa notað. En hvað með það? Það er örugglega mjög gaman að eiga svona.

Skilmingar

Við erum engir sérfræðingar í þeim, en hér kannski mögulega komið það sport sem hægt er að stunda í fullum hlífðarbúnaði, með grímur og hanska, og — séu sverðin nægilega löng — í góðri tveggja metra fjarlægð? Við hendum því út í kosmósið.

Spjótkast, kringlukast, kúluvarp…

Og fyrst við erum komin út í þessa sálma, að þá má auðvitað henda inn alls kyns hefðbundnum frjálsum íþróttum. Kannski er núna tíminn til þess að fjárfesta í spjóti, kringlu eða kúlu og fara út í sveit að kasta? Hér þarf þó, í alveg annarri merkingu, að gæta mjög vel að öðru fólki.