Kristján Hauksson, formaður Skíðafélags Ólafsfjarðar, á góðri stundu.

Skíðaganga hefur slegið í gegn á Íslandi á síðustu árum og sífellt bætast fleiri við í hóp þeirra sem nýta sér gönguskíði til heilsubótar og útivistar að vetri. Nú hafa Siglóhótel í Fjallabyggð ásamt hópi þjálfara á svæðinu bæst í hóp þeirra sem bjóða uppá sérstakar æfingahelgar á gönguskíðum og hafa þær notið mikilla vinsælda. Tröllaskaginn er auðvitað orðinn heimsfrægur sem fjallaskíðasvæði en færri hafa sótt svæðið heim til að iðka skíðagöngu þó löng hefð sé fyrir henni bæði á Ólafsfirði og Siglufirði. Þetta vakti forvitni okkar. Í 4.tbl Úti ræddum við við Kristján Hauksson formann Skíðafélags Ólafsfjarðar og Jón Garðar Steingrímsson formann Skíðafélags Siglufjarðar. Orð þeirra eru sígild.

Kristján segir skíðasvæðin í Fjallabyggð henta einstaklega vel til skíðaiðkunar. „Þegar þannig ber undir skarta norðurljósin sínu fegursta og fátt betra en að njóta stillanna umvafinn þessum hrikalega fjallahring. Nálægðin er einnig einstök þar sem iðulega er hægt að spenna á sig skíðin við útidyrnar nú eða renna sér heim.“

Hann segir snjó festa oft snemma um vetur og að gjarnan sé skíðafært fram í maí. Hægt sé að fara á göngu-, svig- og fjallaskíði og að sjálfsögðu á snjóbretti. Svo er auðvitað þyrluflug í boði um allan Tröllaskaga. Afþreying á staðnum er góð með auknum áherslum íbúa á ferðamannaiðnað og má þar að öðrum ólöstuðum nefna Frida Súkkulaðikaffihús, Segul 67 brugghús, Sigló Hótel, Siglunes Guesthouse, Kaffi Klara, Brimnes Hótel, Amazing Mountains, söfn, setur og sýningar.

Jón Garðar segir að ætlunin sé að bjóða uppá fjölbreytta afþreyingu fyrir líkama og sál. „Stefna okkar er sú að allir þeir sem koma á námskeið hafi bæði gagn og gaman af því. Við ætlum okkur að leggja uppúr því að vinna útfrá getu hvers og eins með það að markmiði að búa til sjálfbæran áhuga fyrir þessari frábæru íþrótt sem að hægt er að stunda víða, að því gefnu að aðstæður leyfi.“

Hann bætir við að á námskeiðum sé farið yfir tæknileg atriði svo sem ýtingar, brekkutækni og brunstöðu. Einnig atriði sem eru mikilvæg uppá meiri ánægju og aukinn hraða á skíðum í mismunandi færi og brautarlegu. Farið sé yfir umhirðu og undirbúning skíða, ásamt því hvaða fatnaður henti betur en annar.

Jón Garðar Steingrímsson formaður Skíðafélags Siglufjarðar.

Þeir segja núverandi vakningu í greininni virka hvetjandi á Fjallabyggð þó íþróttin eigi þar mikla sögu. Nú hefur dæmis verið að blása nýju lífi í barnastarfið á Siglufirði. „Töluverð aukning hefur orðið á fullorðnu fólki sem er að prófa skíðagöngu hér eins og annarstaðar á landinu, sem er mjög jákvætt. Og við höfum fjárfest í búnaði til útleigu,“ segir Kristján.

Jón Garðar segir skíðagönguna henta öllum. „Það er almennt viðurkennt að gönguskíðaiðkun er holl og góð útivist sem fullorðnir og börn geta notið saman. Hún stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og hefur mikið forvarnargildi. Íþróttina getur í raun hver sem er stundað, því hún getur haft langa og aflíðandi lærdómskúrfu sem og stutta og bratta. Gönguskíði efla þol og styrk gríðarmargra vöðva líkamans og jafnvægi án þess að líkaminn verði fyrir höggháðu álagi líkt og gerist við hlaupaháðar íþróttir. Gönguskíðin eru íþrótt mýktar og elju og henta því öllum aldurshópum. Með því að miða framþróun hvers og eins að óska lærdómskúrfu þess einstaklings er erfiðið minnkað og ánægjan aukin.“

Þeir segja ennfremur að fyrir útivistarunnandann skuli einnig hafa það í huga að  gönguskíði eru alhliða líkamsþjálfun sem byggir upp og viðheldur þoli, kjarnastyrk og jafnvægi, það þarf ekki að hafa áhyggjur af biðröðum, búnaðurinn er léttur og meðfærilegur ásamt því að vera mjög örugg íþrótt. Þeir bæta við að vel sé hægt að komast til Fjallabyggðar fyrir kvöldmat frá höfuðborgarsvæðinu ef lagt er að stað um hádegi, því vegalengdin sé ekki meira en 400 kílómetrar. Fátt jafnist á við að renna um Fjallabyggðina, umvafin háu fjöllunum sem rísa beint uppúr harðgerðu Norður-Atlandshafinu.