Snæfell er hæsti tindur utan jökla á Íslandi og eitt helsta kennileiti Austurlands. Hér segir Tómas Guðbjartsson læknir og fjallageit frá helstu göngu- og fjallaskíðaleiðum á þennan magnaða tind en þennan Konung íslenskra fjalla hefur hann toppað margsinnis.

Tómas Guðbjartsson skrifar.

Snæfell er 1833 m hátt og sést víða af öræfunum norðan og austan Vatnajökuls, t.d. frá Kverkfjöllum, úr Lónsöræfum, ofan af Herðubreið en flestir hafa þó séð fjallið frá Egilsstöðum. Nafngiftin Konungur íslenskra fjalla á því vel við og ekki síður fyrir þá staðreynd að sjálf Drottningin Herðubreið (1682 m) er ekki langt undan. Snæfell er megineldstöð sem ekki hefur látið á sér kræla frá því að ísöld lauk og er fjallið þakið smájöklum sem teygja sig niður brattar hlíðar þess eins og hvít skikkja. Stærstir eru Axlarjökull og Sveinsjökull en minni eru Ljósuurðar- og Dökkurðarjöklar, Sótavistir, Þjófajökull og Dimmagilsjöklarnir tveir.

„Snæfell er þekkt fyrir skyndileg veðrabrigði þar sem skyggni getur versnað eins og hendi sé veifað.“ Mynd: Ólafur Már Björnsson

Í vesturhlíðum Snæfells setur Hamarinn mestan svip á fjallið, en hann er gerður úr dökku móbergi sem stingur í stúf við hvíta jöklana og ljóst líparít sem víða er að finna í sökkli fjallsins. Í kringum Konunginn eru nokkrir hirðsveinar, lágvaxnari en samt áberandi tindar eins og Axlartindur (1348 m) og Skálatindur en einnig Tíutíu sem akkúrat er 1010 m hátt fjall norðvestur af Snæfelli. Annað skemmtilegt örnefni ber móbergsfjall norður af Snæfelli sem minnir á nálarhús og kallast Nálarhúsahnjúkar. Furðulegasta nafnið á þó dalverpi í austurhlíðum Snæfells sem ber nafnið Sótavistir en skriðjökull í því ber sama nafn. Norður af fjallinu gengur skriðjökull sem á eldri kortum er oft kallaður Hálsajökull en skemmtilegra örnefni er Sveinsjökull. Það hefur sagnfræðilega tengingu því þessa leið fór Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur þegar hann reyndi fyrstur manna að ganga á Snæfell sumarið 1794. Veður og erfiðar aðstæður á jöklinum urðu þó til þess að hann varð að snúa við þegar hann var tæplega hálfnaður upp. Það liðu síðan 83 ár þar til Guðmundur Snorrason úr Fljótsdal varð fyrstur manna til að komast á topp Snæfells.

Göngu á Snæfell má hæglega skipuleggja sem langa dagsferð frá Egilsstöðum eða úr Hallormsstað. Skemmtilegri valkostur er þó að gista í Snæfellsskála, í 800 m hæð undir vesturhlíðum fjallsins. Þar er jafnframt gott tjaldstæði við snotran læk þar sem hægt er að njóta öræfakyrrðarinnar. Frá Egilsstöðum er ekki nema klukkutíma akstur á malbikuðum vegi (F 910) norður fyrir Snæfell en þá er sveigt í suður eftir 20 km jeppaslóða sem liggur að Snæfellsskála. Vegurinn er fær öllum fjórhjóla farartækjum og engar stórar ár á leiðinni.  Skálinn er rekinn af Vatnajökulsþjóðgarði og þar eru gistirými fyrir 50 manns og ágæt eldunaraðstaða.

„Ganga á Snæfell er frábær skemmtum sem flestir í góðu formi ættu að ráða við.“

„Fyrir þá sem eru ekki spenntir fyrir fjallgöngu er tilvalið að ganga í kringum Snæfell.“ Mynd: Ólafur Már Björnsson

Ganga á Snæfell er frábær skemmtum sem flestir í góðu formi ættu að ráða við. Fjallið telst ekki tæknilega erfitt uppgöngu en þetta er samt 6-8 klst. fjallganga með rúmlega 1000 m hækkun þar sem efsti þriðjungur leiðarinnar er genginn á jökli. Því verður að hafa jöklabúnað með í för en efst verður að gæta sín á jökulsprungum. Loks er mikilvægt að kynna sér vel veðurspá og hafa með GPS-tæki því Snæfell er þekkt fyrir skyndileg veðrabrigði þar sem skyggni getur versnað eins og hendi sé veifað.

Til eru nokkrar gönguleiðir á fjallið en þrjár eru helstar. Auðveldasta og mest gegna leiðin hefst suðvestur af fjallinu, skammt frá Snæfellsskála, og er neðsti hlutinn stikaður. Fyrst er gengið eftir melum í austurátt meðfram Þjófadalsá en síðan sveigt til norðurs upp í dalverpi þar sem Axlarjökull blasir við á vinstri hönd. Smám saman er komið upp á líparíthrygg sem heitir Söðull með stórkostlegu útsýni yfir Þjófadali og Eyjabakkajökul. Eftir það eykst brattinn og við taka lausar skriður eftir svokallaðri Uppgönguöxl. Þegar hún er að baki sést til Herðubreiðar. Þarna er mikilvægt að sveigja á snjó til austurs (til hægri) en síðan tekur við jökulfönn upp á ávalann tindinn. Þar býðst gríðarlegt útsýni yfir nánast allt NA-land, þar á meðal Dyrfjöll, Eyjabakka, Lónsöræfi og Kverkfjöll. Fyrir sprækt göngufólk er sjálfsagt að toppa Axlartind á leiðinni niður en hvergi fæst stórkostlegra útsýni yfir suðurhlíðar Snæfells. Einnig er valkostur að ganga niður Sveinsjökul norðan megin. Sú gönguleið er ekki síður tilkomumikil en SV-leiðin, en sprungnari, og ganga flestir hana bæði upp og niður. Þriðja gönguleiðin liggur beint í austur af Snæfellsskála og er þá gengið á mannbroddum yfir Axlarjökul uns komið er að Uppgönguöxl og þaðan sömu leið og áður var lýst upp á tindinn. 

„Í upphafi sumars býður Snæfell upp á einhverjar bestu brekkur landsins fyrir fjallaskíði.“

Í upphafi sumars býður Snæfell upp á einhverjar bestu brekkur landsins fyrir fjallaskíði. Vinsælast er að skíða upp og niður Sveinsjökul en oft má finna snjórennur langleiðina niður að jeppaveginum að Snæfellsskála. Sveinsjökul má einnig nálgast austan megin frá Eyjabökkum og er þá hægt að aka áleiðis að fjallinu eftir jeppavegum. Bröttustu brekkurnar liggja austur af fjallinu og meðfram Sótavistum niður að Eyjabökkum. Þær eru aðeins á færi mjög vanra skíðamanna, enda snarbrattar og sprungnar efst. Brekkurnar vestur af Snæfelli ber að forðast með öllu enda steypast skriðjöklar þar fram af hengiflugi.

„Göngu á Snæfell má hæglega skipuleggja sem langa dagsferð frá Egilsstöðum eða úr Hallormsstað.“

Fyrir þá sem eru ekki spenntir fyrir fjallgöngu er tilvalið að ganga í kringum Snæfell. Það tekur daginn en á leiðinni sést oft til hreindýra við rætur fjallsins en sérstaklega þó heiðargæsa á Eyjabökkum.

Ágæt regla er að láta skálaverði í Snæfellsskála vita áður en lagt er á Snæfell og eftir að komið er niður. Í leiðinni er tilvalið að skrifa nafn sitt á lista sem liggur frammi í skálanum með nöfnun þeirra sem náð hafa að toppa Konung íslenskra fjalla það sumarið.