Vegna hvers ákváðum við að kýla á það? Sex mánaða ferð um Mið- og Suður-Ameríku er dálítill pakki. Svona ferð er ekki hrist framúr erminni. Hún er uppbrot á lífinu. Brotthvarf frá venjunum. Staðið er uppúr sófa. Ætli hið frábæra orð „wanderlust“ nái ekki ágætlega að skilgreina þessa löngun til að drífa sig. Ferðalosti. Djúp löngun til að vafra um veröldina grípur um sig. Til að vera frjáls. Til að uppgötva. Til að safna meiri þekkingu á ekki bara heiminum heldur líka sjálfum sér. Ferðalag um veröldina er jú líka alltaf ferðalag hugans. Í okkar tilviki var þetta líka ferðalag fjölskyldu, hjóna og tveggja barna. Eftir stendur hikstalaust sterkari eining en áður. Rótsterkar sameiginlegar minningar munu fylgja okkur alla ævi. Hér er ferðasagan. Hún er löng. Eins og ferðin.

Texti: Guðmundur Steingrímsson. 

Myndir: Guðmundur Steingrímsson og Alexía Björg Jóhannesdóttir

Yfir eldhúsborðinu heima í Faxaskjóli hangir kort af heiminum. Í gegnum tíðina hafa spunnist samræður innan fjölskyldunnar um lönd veraldarinnar. Smám saman varð það okkur hjónum — mér og Alexíu — meira og meira ljóst að ein heimsálfa hreinlega æpti á okkur. Þetta var Suður-Ameríka. Þarna lá hún og horfði á okkur píreygð. Leyndardómsfull. Spennandi. Lúmsk. Á nokkrum tíma mótaðist því hugmyndin í kollinum á okkur nánast ómeðvitað. Þarna eru lönd sem við vissum eiginlega ekkert um. Hvar er aftur Ekvador? Er Machu Picchu ekki einhvers konar sósa? Galapagos eru eyjur, ekki satt? Og fordómarnir, byggðir á áratuga gömlum heimsfréttum, létu ekki á sér standa: Er Kólumbía ekki stórhættuleg?

„Eftir því sem leið á upplýsinganámugröftinn varð löngunin sterkari. Hvílík lönd! Hvílík ævintýri!“

Við byrjuðum að gúggla. Eftir því sem leið á upplýsinganámugröftinn varð löngunin sterkari. Hvílík lönd! Hvílík ævintýri! Ótal ferðablogg færðu okkur í sanninn um að til þessara landa yrðum við að fara. Í huganum var allt að smella.

Fjölskyldan og farangurinn við upphaf ferðar.

Þá blasti við spurningin: Hvenær? Augljós gluggi til ferðalaga var að opnast eftir jól. Við erum bæði sjálfstætt starfandi. Stórum verkefnum yrði lokið um jólin. Einhverja vinnu gætum við líka tekið með okkur út og unnið í tölvunum, skítbrún í frumskógi. Eitt var þó ljóst: Við gætum ekki gert þetta nema leigja út húsið. Á haustmánuðum fengum við leigjendur í sex mánuði, frá og með byrjun janúar. Þá var ekki aftur snúið.

Við fórum í prufuferð sumarið áður, árið 2018. Tókum þrjár vikur í Portúgal, ferðuðumst frá Porto til Algarve, hver með sinn poka á bakinu. Tilgangurinn var að prófa hvernig við værum saman fjögur, á svona ferðalagi og prófa líka að hafa allt sem maður þarf á bakinu. Í stuttu máli var sú ferð frábær. Við komum til baka full löngunar til þess að gera svona aftur, og lengur.

Upphaflega sáum við fyrir okkur að byrja í Buenos Aires í janúar og fikra okkur upp meginlandið og enda kannski í Kólumbíu. Í janúar er hásumar suður frá og mikill háannatími í túrisma. Chileískur vinur vina okkar ráðlagði okkur frá þessu. Hann sagði miklu sniðugra að byrja í Kosta Ríka og feta okkur svo niður eftir. Löndin í Mið Ameríku væru skemmtileg í upphafi árs og betra væri að koma niður til Chile, Argentínu og Úrúgvæ þegar túrisminn þar væri kominn í lægð og verðlag betra. Við keyptum þessi rök. Það spilaði líka verulega inn í ákvarðanatökuna að með þessu móti gátum við hafið ferðina með því að hitta kanadískt vinafólk okkar sem einmitt ætlaði til Kosta Ríka í janúar. Þetta var því slegið.

Við vörðum haustinu í aðdraganda ferðinnar annars vegar í vinnu og hins vegar í skipulagningu ævintýrsins. Mikið var gúgglað. Jafnframt þurfti að hafa ýmislegt á hreinu. Við fórum tvisvar í bólusetningu og fengum þrjár sprautur í hvert skipti. Kostnaður við bólusetningar var allverulegur, nærri hundrað þúsund krónur fyrir okkur fjögur. Jafnframt reyndist grúsk varðandi ferðatryggingar meira vafstur en við höfðum áætlað. Tilboð tryggingafélaga um sex mánaða tryggingu fyrir fjóra voru fáránlega há. Niðurstaðan var sú að fá betra visakort. Platinum kort gefur möguleika á fjölskylduferðatryggingu í sex mánuði. Við tókum það.

Að auki töldum við mikilvægt að afla ýmissa skjala til að hafa með, eins og fæðingarvottorð barnanna á ensku og leyfi fyrir eldra barnið að ferðast, en hún býr jafnframt á öðru heimili. Leyfi frá öðru foreldri til ferðalaga með hinu fæst vottað hjá sýslumanni, og getur verið nauðsynlegt.

“Kennarar beggja barnanna, og skólayfirvöldin, töldu mikið og lærdómsríkt tækifæri um að ræða fyrir börnin. Báðir kennarar báðu bara um eitt: Að börnin héldu dagbækur. Það reyndist snjallt.“

Samskipti við skóla barnanna, Melaskóla og Hagaskóla, reyndust einkar ánægjuleg. Jói var í 4.bekk og Edda í 9.bekk. Sækja þurfti um leyfi fyrir þau allt vormisserið. Það var auðsótt. Kennarar beggja barnanna, og skólayfirvöldin, töldu mikið og lærdómsríkt tækifæri um að ræða fyrir börnin. Báðir kennarar báðu bara um eitt: Að börnin héldu dagbækur. Það reyndist snjallt. Við tókum hins vegar líka með stærðfræðibækur. Það námsefni var klárað í ferðinni. Yngra barnið hringdi líka nokkrum sinnum í bekkinn á Facetime og sendi bréf með myndum. Þannig lærði bekkurinn heilmikið á ferðum Jóhannesar.

Í fjallgöngu í Kólumbíu

Við ákváðum að við skyldum ferðast til þessara landa: Kosta Ríka, Panama, Kólumbíu, Ekvador, Perú, Bólivíu, Chile, Argentínu og Úrúgvæ. Við gáfum okkur tíma frá byrjun janúar til loka júní. Ferðin teiknaði sig þannig að í hverju landi, nema Bólivíu og Úrúgvæ, myndum við vera í um það bil þrjár vikur. Bólívíu og Úrúgvæ voru skammtaðir færri dagar, eða um viku hvoru. Einn kosturinn við að byrja í Kosta Ríka er hversu aðgengilegt landið er. Hægt er að fá tiltölulega ódýr flug. Við fórum í gegnum Orlando og svo þaðan með lággjaldafélagi, Spirit, til San Jose. Við reyndum að bóka og greiða sem mest af þeim flugmiðum sem við mátum nauðsynlega áður en við lögðum í hann. Eitt sáum við: Samgöngur innan landanna eru yfirleitt mjög ódýrar, og er þá annað hvort ferðast með rútu eða flugi. Flugsamgöngur á milli landanna reyndust hins vegar dýrari. Við reyndum því að stilla þeim í hóf. Mest tókum við rútur í ferðinni.

Við byrjuðum að bóka gistingar vel áður en við lögðum af stað. Heilinn á okkur náði hins vegar bara að hugsa um tvö lönd í einu. Gistingar í Panama og Kólumbíu voru því bókaðar mestmegnis áður en við lögðum af stað. Langmest í gegnum Airbnb, sem er mikið notað í álfunni. Bookings er þó líka mikið tekið. Fyrsta landið, Kosta Ríka, spunnum við meira af fingrum fram og löndin síðar í ferðinni biðu að mestu skipulagningar þar til þeirra tími kom.

Tvær upplýsingaveitur voru mestmegnis notaðar: Netið og Lonely Planet bækurnar. Bók um hvert einasta land var lesin upp til agna, jafnóðum. Niðurstaðan, þótt við segjum sjálf frá, varð nokkuð gott leiðarval — höldum við — og kemur þá að því: Ferðinni miklu.  Við tökum eitt land í einu og byrjum á byrjuninni.

Kosta Ríka – öskurapar og brimbretti

Kosta Ríka er í stuttu máli dásamlegt land. Ferðaþjónusta er þar mjög rótgróin og gengur einkum út á stórbrotna náttúru landsins. Þéttir skógar með gríðarlega fjölbreyttu dýralífi laða að. Þjóðgörðum er vel við haldið. Eldfjöll gnæfa upp úr sjóndeildarhringnum og strendur eru einhverjar þær fallegustu í veröldinni. Saga landsins er líka einkar áhugaverð. Í Kosta Ríka var gerð vel heppnuð sósíalísk bylting upp úr seinna stríði, með þjóðnýtingu á ýmsum gæðum. Herinn var lagður niður og peningurinn notaður í uppbyggingu á mennta- og heilbrigðiskerfi. Áhersla á umhverfismál er líka mikil. Hvarvetna er hreint. Náttúran er víða óspjölluð. Maður kemst í tengsl. Maður núllstillir. Ég upplifði fyrsta andartak tærrar hamingju af mörgum— en hamingja er jú oft aðeins andartak — þegar ég gekk berfættur eftir einni svona strönd í morgunsárið með Kyrrahafið á hægri hönd og svalan andvara í fangið. Þetta er málið, hugsaði ég. Svona á þetta að vera.

Fjölskyldan dottin í fíling við San Miguel ströndina í Costa Rica.

Höfuðborgin San Jose er ekkert spes. Þar höfðum við næturstað í upphafi. Flestir staldra stutt við þar og drífa sig frekar út á land. Við völdum að byrja í smábænum Nosara, á Nicoya-skaganum við Kyrrahafsströndina. Þar hittum við vinafólk okkar. Takmarkið? Að njóta lífsins og læra að sörfa.

Við flugum með rellu til Nosara. Nosara er í raun safn húsa á strjáli inni á milli trjánna við strönd. Við leigðum hús við eina götuna, rétt hjá Playa Guiones, sem er einkar þægileg strönd fyrir byrjendur á brimbretti. Gatan reyndist skemmtilega hipstera-vædd með fullt af álitlegum matstöðum. Þrjátíu stiga heitir dagarnir hófust snemma, með brimbrettabusli við sólarupprás fyrir þá sem nenntu, svo afslöppun og öðru brimbrettabusli síðdegis. Fjölskyldan fór á námskeið. Að ná að standa á brimbretti í ölduróti, þó ekki nema í sekúndu, er viss sigurstund mannsandans. Okkur fannst við mjög töff.

Nýja fjölskyldusportið. Á leið á ströndina í Nosara

Þarna vorum við í viku. Við ákváðum að leigja bíl eftir Nosara. Rútusamgöngur eru ekki svo þróaðar á þessum slóðum. Nicoya-skaginn er líka fremur afskekktur, svona dáldið eins og Snæfellsnes, frekar en Vestfirðir. Við ákváðum að keyra suður með ströndinni, fáfarna malarvegi frá ferðamannabænum Samara — sem skartar litríku og skemmtilegu strandlífi — niður til sörfarasamfélagsins í Santa Teresa, með viðkomu á San Miguel ströndinni — sem er fáfarin, víð og ægifögur — og á sveitabæ við þorpið San Fransisco de Coyote þar sem hanar góluðu í morgunsárið, hundgá heyrðist í fjarska og ávextir uxu á hverju tré.

„Það er líkt og dauðarokkshljómsveit spili á þakinu.“

Eitt uppgötvuðum við snemma í Kosta Ríka: Alls staðar eru hljóð. Hundar gelta, hanar gala, skordýr suða og, sem kom okkur mjög í opna skjöldu, apar öskra. Við fyrsta öskur öskurapanna (howling monkeys) varð okkur verulega brugðið. Þeir öskra eins og Satan. Við héldum að sá væri kominn að sækja okkur. En svo sáum við þá. Litlir, krúttlegir, svartir, en með stóran barka sem þeir nota óspart í ljósaskiptunum síðdegis og eldsnemma á morgnana. Það er líkt og dauðarokkshljómsveit spili á þakinu. Við keyptum okkur eyrnatappa.

Sólarlagið í Manuel Antonio

Af Nicoya-skaganum tókum við rútu og ferju til hins víðfræga þjóðgarðs, Manuel Antonio. Þar er mun meiri túrismi, en ástæðan líka augljós: Ægifegurð. Þjóðgarðurinn er þéttur regnskógur við hafið. Strendur stórkostlegar. Við fórum í túr með leiðsögumanni. Það var hins vegar án túrs sem við sáum flest dýrin. Þau komu til okkar. Apar stukku á svölunum og letidýr lét sig síga hægt niður úr tré beint fyrir framan nefið á okkur. Þau fara niður á tveggja vikna fresti til að kúka. Við vorum heppin.

Bíll var leigður þarna líka. Leiðin lá næst til Monteverde. Það er bær uppi í fjöllunum og síðasti spölurinn holóttur malarvegur. Í Kosta Ríka er greinilega reynt að halda sumum stöðum svoldið afskekktum, svo þeir kafni ekki í ferðamennsku. Monteverde er ævintýrabær. Þar er urmull af afþreyingu inni í þokuskóginum (cloud forest). Heitt loft mætir köldu og rök þoka setur mark sitt á skóglendið, svo gróður vex á alls konar furðulegan máta. Við ákváðum að fara í zipline. Það er engin venjuleg aparóla. Okkar fyrirtæki, Selvatura, bauð upp á ferð yfir trjám og dali í 13 köplum. Sá lengsti var um kílómeter. Hægt var að fljúga þá vegalengd í súpermanstellingu, sem var óneitanlega kikk. Go Pro vélin klikkaði hins vegar. Þar skildi að. Súperman hefði ekki gleymt að hlaða.

Við keyrðum þvert yfir landið frá Monteverde, með viðkomu við rætur Arenal eldfjallsins, sem — eins og mörg eldfjöll í álfunni — er einhvern veginn fullkomið í laginu. Rétt eins og Baula. Bara stærra.

Lífið er afslappað við Karabíska hafið.

Síðasti áfangastaðurinn í Kosta Ríka var bærinn Puerto Viejo de Talamanca rétt við landamærin að Panama. Þar stóð fjölskyldan í fyrsta skipti á strönd við Karabíska hafið. Það var næs. Einhvern veginn var stemmningin öðruvísi þarna. Húsin litríkari. Meira af Bob Marley í gangi. Við busluðum í sjónum heilu klukkutímana og gengum um þorpið á ilskóm. Jarðskjálfti skók okkur. Náttúran var alltumlykjandi. Við kvöddum Kosta Ríka í mjög góðum fíling.

Panama — glitrandi sjór og spænskunám

Það er þægilegt að fara til Panama frá Puerto Viejo. Við keyptum skutlþjónustu á mjög viðráðanlegu verði, sem skilaði okkur alla leið til Bocas Town í Bocas del Toro svæðinu, sem er eyjaklasi út við strönd norðaustur Panama. Þarna fórum við yfir okkar fyrstu landamæri og uppgötvuðum óneitanlega að landamærin í Evrópu eru töluverður lúxus í samanburði. Þótt allt gengi vandræðalaust þurfti þó samt að stimpla sig út úr landinu á einum stað, ganga svo yfir brú milli landanna rétt eins og maður væri að leika í bíómynd um ævintýraferðir landkönnuða um miðja síðustu öld, og láta svo stimpla sig inn í landið og leita í farangrinum hinum meginn. Þá vorum við komin til Panama. Á þeirri stundu leið okkur svoldið eins og ævintýraferðin til ókunnugra landa væri hafin. Óvissan var meiri.

Bocas Town

Panama sló okkur fyrst sem svolítið skítugri. Meira drasl. Lélegri hús. Allt svolítið hrárra. Við nánari skoðun birtist fegurðin. Bocas Town er þyrping húsa sem mörg eru byggð á stöpplum úti á hafinu. Sterkir litir einkenna stílinn. Slakaðu á, segir þetta svæði manni einum rómi. Slappaðu af. Við ákváðum að vera í viku og fara í spænskuskóla. Það var gaman og við lærðum öll un poco español.

Eyjarnar í Bocas del Toro eru skógi vaxnar og hvítar strendur mæta blátærum sjó. Stundum gekk maður í póstkorti. Eftir spænskunámið ákváðum við að gera vel við okkur. Við tókum þrjár nætur hjá lítilli fjölskyldurekinni, algjörlega umhverfisvænni ferðaþjónustu á lítilli eyju, gistum í húsi gerðu úr flugnaneti, inni í skógi við kóralrif og sáum ekki eftir því. Cocovivo hét hótelið. Þarna upplifðum við einn af hápunktum ferðarinnar. Í kvöldmyrkrinu, þegar tunglskin var lítið, stungum við okkur til sunds ásamt hinum ferðalöngunum sem þarna voru –– vinum okkar þegar hér var komið sögu –– og við svömluðum í töfrum. Viss tegund af svifi lýsist upp við hreyfingu. Sjórinn varð glitrandi. Sundtökin sköpuðu stjörnur. Veröldin varð Disneymynd.

Við eyjuna Cristobal í Bocas del Toro

Á meginlandinu leigðum við aftur bíl. Við keyrðum upp í fjallaþorp, Boquete, sem liggur í miðju landinu. Þarna er stemmningin breytt. Húsin fullkláruð og velmegun greinilega meiri, matarmenning mikil og alls konar útivistarmöguleikar í boði. Við skoðuðum býflugnabú á Valentínusardaginn. Hunang þótti viðeigandi.

Svoleiðis heimsókn var reyndar dæmigerð fyrir fræðsluna sem við nutum í ferðinni. Börnin voru jú ekki í skóla, en ein heimsókn á býflugnabú, önnur í leðurblökugarð og þriðja á gullsafn — svo dæmi séu tekin — voru ígildi margra daga náms. Fróðleikurinn reyndist út um allt. Eftir viðkomu á hinni víðfeðmu Kyrrahafsströnd Las Lajas — líklega þeirri stærstu sem við höfum séð — lá leiðin til móts við meiri fræðslu, fyrir okkur öll. Sjálfur Panamaskurðurinn var næstur á dagskrá. Í hálfan dag stóðum við þar á útsýnispalli, eftir að hafa skoðað sögusafnið gaumgæfilega, og dáðumst að hinu verkfræðilega undri sem þessi skurður er. Þarna er flutningaskipum lyft.

Komin til Panamaborgar

Panamaborg var síðasti áfangastaðurinn í þessu undralandi. Gamall bæjarhluti er þar mjög aðlaðandi, en mestmegnis notuðum við tækifærið — auk þess að fagna afmæli Alexíu — til þess að sökkva aðeins aftur í borgarmenningu eftir einn og hálfan mánuð í náttúrunni. Stundum þarf maður bara að fara í verslunarmiðstöð og í bíó. Veruleikinn er of ótrúlegur.

Kólumbía — týndar borgir, karnival og kaffi

Til Kólumbíu frá Panama kemst maður aðeins með flugi eða bát. Skil Mið- og Suður-Ameríku eru mörkuð þéttum frumskógi, Darien beltinu, og þangað fer varla nokkur maður og alla vega ekki með börnin. Sögur fara af glæpagengjum. Engar vegagerðir hafa heppnast, sökum gróðurfars. Við völdum flug. Fyrsti áfangastaðurinn í hinni eiginlegu Suður-Ameríku var hin fornfræga strandborg Cartagena.

Í Cartagena.

Ég hugsa að fyrirfram hafi ekkert land kveikt jafnmikla óttablandna eftirvæntingu og Kólumbía. Ímynd landsins í hugum Vesturlandabúa er jú svolítið mörkuð fregnum af glæpum og górilluhernaði. En hér varð lærdómsrík upplifun. Nú áttaði maður sig á því að margar þessar fréttir sem maður hafði í huganum frá þessum löndum voru hundgamlar. Escobar er löngu dáinn. Friður komst á í Kólumbíu fyrir tíu árum. Forsetinn fékk friðarverðlaunin. Að fara til Kólumbíu um þessar mundir er því einstök reynsla. Þjóðin er brosandi.

Cartagena er litrík borg skartar skrautlegri veggjalist.

Og landið er rosalegt. Fá lönd eru jafn iðandi af dýra- og plöntulífi. Enn uppgötvast tegundir. Skógurinn er víða svo þykkur að til eru svæði sem enginn hefur farið inn á. Enginn veit í raun hvað er þar. Stutt er síðan fornar týndar borgir uppgötvuðust. Mannlífið er líka uppgötvun í sjálfu sér. Tónlist hljómar á hverju horni. Umferðin er ekki fyrir Íslending. Í Cartagena voru fleiri að reyna að selja okkur dót en nokkurs staðar annars staðar. Ég náði með herkjum að hafna óumbeðnu fótanuddi á ströndinni. Beitti spænskunni frá Bocas. Krem var þó komið á kálfan.

Cartagena er augnayndi. Hingað fluttu Spánverjar gullið í sínu aldalanga arðráni sem markar svo mjög sögu allra þessara landa. Breskir sjóræningjar, sem allir hétu Sir eitthvað, réðust á borgina án afláts. Vildu gullið. Þess vegna eru þarna þykkir virkisveggir. Við nutum litanna og graffiti-listverkanna, sögunnar og matarins í Cartagena í nokkra daga áður en við héldum út með ströndinni að borginni Santa Marta. Gamli miðbæjarkjarninn þar er elsta spænska borg Suður-Ameríku og þótt hún sé engin Cartagena er þar samt gaman. Þjóðgarðurinn sem ætluðum að skoða var lokaður. Við fórum í siglingu, snorkluðum og nutum lífsins áður en við héldum upp í fjöllin.

Hugleitt í Minca

Minca heitir bær. Hann er sífellt vinsælli áfangastaður útivistarfólks og bakpokaferðalanga. Tvær rykmettaðar götur liggja í kross, með veitingastöðum og kirkju í miðju. Við gistum í bambushúsi hjá súkkilaðiræktendum frá Bandaríkjunum og Íran. Þarna, sagði Bandaríkjamaðurinn, má maður gera nákvæmlega það sem manni sýnist. Það er enginn byggingarfulltrúi.

Við hoppuðum í foss. Börðumst við pöddur. Hugleiddum. Spiluðum spil. Lærðum stærðfræði. Gerðum dagbækur. Spiluðum á gítar. Skoðuðum fugla og eðlur með bláan hala. Svo fórum við á karnival.

Kjötkveðjuhátíðin í Barranquilla er sú næststærsta á eftir Rio. Við gátum ekki látið hjá líða að tékka á því. Borgin er tíðindalítil hafnar- og iðnaðarborg, en karnivalið gefur öllu lit sem þar lifir. Við fylgdumst með skrúðgöngum á degi hverjum. Héldum upp á 10 ára afmæli sonarins, fórum í froðustríð og hrifumst af dynjandi salsapartíum götunnar. Kólumbíumaðurinn fírar duglega upp í græjunum.  Það háði okkur þó aðeins að fyrst um sinn gátum við hjónin varla gengið eftir rosaleg moskítóbit í Minca. Fætur bólgnuðu svo við komumst varla í skó.

„Nú er Bógóta meira að segja smá útivistarborg. Mikil vakning er í hjólreiðum.“

Það leið hjá, eins og annað. Við flugum til höfuðborgarinnar, Bógóta. Einu sinni var það talin ein hættulegasta borg í heimi. Svo er ekki lengur. Nú er Bógóta meira að segja smá útivistarborg. Mikil vakning er í hjólreiðum. Á sunnudögum er stórum umferðaræðum lokað fyrir bílum og bara hjólað. Við heimsóttum líka eitt stærsta fátækrarhverfið, sem nú er búið að tengja við miðbæinn með kláfum. Gott ráð við fátækt er að auka samskipti og stytta vegalengdir milli fólks. Og litir. Þeir bæta geð. Húseigendur hafa fengið gefins húsamálningu frá borgaryfirvöldum. Glæsileg listaverk prýða húsveggi og lífið er í lit.

Vaxpálmanir í Cocora í Kolumbíu eru stórfurðulegir, tágrannir og verða allt að 60 metra háir.

Bógóta liggur í um 2600 metra hæð yfir sjávarmáli. Það truflaði okkur ekki. Raunar vorum við fegin því að komast úr hitanum og í aðeins kaldara loftslag. Gallabuxurnar voru dregnar upp úr pokunum í fyrsta skipti.

Við héldum næst í kaffihéröðin, sem eru í miðju landinu, uppi í fjöllunum. Síðasti áfangastaðurinn í Kólumbíu var þorpið Salento. Þar gerðum við tvennt: Fórum í frábæran túr um lífrænan kaffibúgarð, tíndum baunir og smökkuðum ilmandi nýbruggaðan americano. Og fórum í dagsgönguferð upp í fjöllin í Valle de Cocora, um 13 kílómetra hring, sem var hæfilegt fyrir hjón með tvö börn. Þar eru einhver súrrealískustu tré sem um getur. Vaxpálmar stinga sér svignandi 60 metra upp í loft með litlum brúski á toppnum, líkt og teiknaðir af Dr. Seuss. Þetta var góður dagur. Og Kólumbía er gott land.

Ekvador — Undraveröld dýra og eldfjalla

Að versla teppi úr alpakaull er góð skemmtun.

Við flugum frá Cali í Kólumbíu yfir til höfuðborgar Ekvador, Quito. Við lögðum ekki í landamærin með rútu. Bæði er vegalengdin löng og fregnir höfðu borist af erfiðu ástandi þar, vegna flóttamannastraums frá Venesúela. Víða urðum við vitni að neyð fólks þaðan, en þó ekki síður aðdáunarverðri viðleitni þess til að sjá sér farborða. Í Venesúela varð jú hrun.

Ekvador er eins konar lítil, samþjöppuð útgáfa af öllum ævintýrunum sem Suður-Ameríka hefur upp á að bjóða. Frábærar strendur, í miðbikinu rísa Andesfjöllin með gríðarháum eldfjöllum og í bakgarðinum lúma regnskógar Amazon. Ef velja skyldi eitt land væri Ekvador því ekki vitlaust val. Að auki hefur landið eitt afgerandi tromp uppi í erminni: Galapagoseyjar. Þær eru engu líkar.

Í Quito fengum við í magann. Við gættum okkur ekki á vatninu. Í Ekvador má ekki nota vatnið til drykkjar eða skolunar eða til að bursta tennurnar. Við föttuðum það of seint. Sem betur fer vorum við í íbúð með þremur salernum.

Þarna er gríðarfallegur gamall borgarhluti, einn sá fegursti í álfunni með aldagömlum íburðarmiklum kirkjum. Við skoðuðum hann að sjálfsögðu, þótt sá yngsti væri á þessum tímapunkti kominn með smá óþol við löngun foreldranna til að skoða „gamla bæinn“ í öllum borgum. Í nágrenni Quito er stærsti indjánamarkaður í Suður-Ameríku, í borginni Otavalo. Við keyptum okkur teppi úr alpaca-ull, sem átti eftir að ilja okkur síðar í ferðinni, draumafangara, armbönd og að sjálfsögðu panflautu.

Cotopaxi

Við sjóndeildarhringinn rís hið töfrandi eldfjall, Cotopaxi. Það markar upphafið að breiðstræti eldfjallanna, sem liggur suður frá Quito eftir dölunum í Andesfjöllunum, inn á milli sexþúsund metra hárra eldspúandi fjallkonunga. Við vörðum tveimur dögum á ævintýrahosteli, The Secret Garden, við rætur Cotopaxi, fórum í göngu, í útreiðartúr og áttum góðar stundir með öðrum bakpokaferðalögum í pizzaveislu um kvöld. Boðið var upp á pizzu með naggrís. Við smökkuðum ekki.

Mig langaði að ganga upp á Cotopaxi, en ég var ennþá með magapínu. Hún auk mögulegrar háfjallaveiki — Cotopaxi er 5897 metra hátt — gerði viðureignina ekki fýsilega. Ég sný aftur.

„Sæeðlur skríða um steina og götur eins og svipbrigðalausir pönkarar.“

Þorpið Baños í Andesfjöllunum, við mörk Amazon, reyndist góður staður til að safna kröftum. Þar eru heit böð, eins og nafnið gefur til kynna og stærsta róla sem við höfum prófað. Hún er kölluð rólan á enda veraldar. Að fara í hana er eins og að skjóta sér hlæjandi út í tómið. VIð tókum rútu frá Baños til hafnarborgarinnar Guyaquil. Þaðan flugum við til Galapagos.

Með risaskjaldböku á Galapagos

Galapagoseyjarnar eru auðvitað efni í heila grein út af fyrir sig. Þær eru veröld dýra. Dýrin ganga, synda og fljúga um eins og þau eigi staðinn, sem þau einmitt gera. Á fiskimarkaðnum í Puerto Ayora, sem er eitt fárra þorpa í klasanum, sitja pelikanar og éta eins og flottir menn og sæljón eiga alla bekki fyrir sig. Sæeðlur skríða um steina og götur eins og svipbrigðalausir pönkarar. Í höfninni synda hákarlar, skjaldbökur og skötur.

Við vorum mestmegnis í Puerto Ayora, sem er þorpið á eyjunni Santa Cruz. Það hefði farið með fjárhagsáætlunina ef við hefðum keypt okkur siglingu á bát, eins og ferðafólk gerir gjarnan á Galapagos. Við létum nægja að fara í eina siglingu og snorkl með leiðsögumanni, skreppa einu sinni yfir á nærliggjandi eyju, en njóta að öðru leyti ókeypis dýrðar náttúrunnar. Hún olli okkur ekki vonbrigðum. Sonurinn léku við sæljón í fjöruborðinu. Dóttirin fagnaði fimmtán ára afmæli sínu með risaskjaldbökum. Við syntum með hákörlum. Og ógleymanleg var sú stund þegar fjölskyldan stóð úti í lygnum sjó og sæskjaldbaka kom til okkar. Hún horfði á okkur. Synti með okkur. Það vantaði bara að hún talaði.

Ekvador kvöddum við með nokkrum frábærum dögum í borg sem við höfðum aldrei heyrt um áður. Cuenca heitir hún. Hinir eiginlegu Panamahattar eru gerðir þar. Fólk er þar úti að skokka, nýtur samneytis við ótrúlega náttúru og jú: Þar er mjög fallegur gamall bær.

Cuenca

Perú — Heimkynni ævintýranna

Við tókum okkar fyrstu næturrútu frá Cuenca yfir til borgarinnar Piura í norður Perú. Við landamærin upp við hús lá fjöldi flóttamanna — fjölskyldur eins og við — á dýnum og svaf. Neyðarskýli hjálparsamtaka voru á svæðinu. Við komum til Piura í morgunsárið. Það var eins og að koma til annarrar veraldar. Þarna brunuðu tuctuc bílhjól flautandi um rykmettaðar götur. Við vorum allt í einu komin í sviðsmynd upphafsatriðis í Indiana Jones. Hann að fara að hitta karla út af fornu skríni. Endar í eltingarleik á húsþökum.

Í Lima

Við tókum innanlandsflug frá Piura til höfuðborgarinnar, Lima. Hún er ógnarstór eins og Bógóta. Milljónaborg. Opið Kyrrahafið blasir við. Borgin rís á sandbergi við hafið. Þarna hafa jarðskjálftar dunið. Í gamla daga var Lima höfuðvígi Spánverjanna. Á síðari árum er hún einkum þekkt fyrir mikla matarmenningu. Perúska eldhúsið hefur risið til metorða. Við fórum í matartúr hjónin og á mjög áhugavert matreiðslunámskeið. Þar lærðum við að búa til ceviche og fleira. Um alla Mið- og Suður-Ameríku fær fólk sér ceviche — ferskt sjávarfang í lime — til hressingar öllum stundum. Við fengum æði fyrir því.

Leiðin frá Lima lá til eyðimerkurborgarinnar Ica. Þar fórum við á skíði. Eyðimerkurvinin Huacachina liggur rétt við Ica. Lítið þorp og pálmatré við lítið vatn í eyðimörk. Talandi um mynd á póstkort. Sandöldurnar í nágrenninu eru óspart notaðar til sandskíða- og brettaiðkunar og glannalegra adrenalínhvetjandi smájeppaferða. Við kýldum á það. Að skíða í sandi er smá skrítið, en gaman. Bera þarf ótt og títt á skíðin því skíðin eru höst í sandi. Maður nær hraða um stundarsakir. Þá tístir í manni.

Sandskíðamennska er svolítið spes sport.

Önnur næturrúta bar okkur sofandi til hinnar fögru borgar Arequipa, sem er einmitt ein af þeim sem við höfðum aldrei heyrt um áður. Hún er kölluð hvíta borgin, því gamli bærinn er að mestu hlaðinn úr hvítum steini. Eldfjöllin umlykja borgina. Misti er þeirra tilkomumest, 5822 m. hátt. Við nutum páskanna, en í Arequipa eru þeir í hávegum hafðir, enda borgin mikil trúarmiðstöð með eldgömlu klaustri og urmul tilkomumikilla kirkna.

Arequipa er líka næsta borg við heilmikið náttúruundur, sem sífellt fleiri leggja leið sína til sérstaklega eftir að þangað var lagður góður vegur. Colca Canyon er næstdýpsta gljúfur veraldar. Aðeins gljúfrið við hliðina, minna aðgengilegt, er ögn dýpra. Þótt ekki sé mælt með því sérstaklega í Perú, þá leigðum við okkur bíl. Það reyndist sterkur leikur.

Gammarnir í gljúfrinu.

Vanalega er á gljúfurbarmi Colca — á besta útsýnisstaðnum — glás af ferðafólki. Á bílnum gátum við farið þangað um síðdegi eftir að allar rútur voru farnar. Við áttum gljúfrið ein, fjölskyldan, í sólarlaginu. Við horfðum saman ofan í gríðarlegt djúpið og nutum kyrrðarinnar. Lögðumst svo til hvílu á hóteli í litlu þorpi þar sem við kynntumst Perúskri fjölskyldu yfir veitingum við arineld.

Morguninn eftir rákum við okkur á lappir við sólarupprás. Í hönd fór einn af hápunktum ferðarinnar: Að verða vitni að flugi stærstu fugla veraldar — Andeskondórsins — upp úr dýpsta gljúfri veraldar. Það er lýsandi fyrir góða stemmingu í hópnum að allir voru til í að rífa sig á fætur eldsnemma til að skoða fugla. Við vorum ekki svikin. Flug kondóranna, að sjá þá koma upp úr gljúfrinu smám saman — þar til þeir svífa nánast fyrir framan mann — er eitthvað það magnaðasta sem náttúran setur á svið. Ég íhugaði lengi á eftir að fá mér kondór sem tattú. Helst fjóra.

Í Machu Picchu

Cusco er gamla höfuðborg inkanna. Þangað tókum við stutt flug frá Arequipa. Við vorum viku í Cusco enda ætlunarverkið mikilvægt: Að sjá hina mögnuðu Machu Picchu, fornu helgiborg Inkanna í fjöllunum, sem var heiminum gleymd og grafin fram á miðja síðustu öld. Ferð til Machu Picchu er ekki ókeypis. Um var að ræða langdýrustu upplifun ferðarinnar. Við vöknuðum eldsnemma og tókum rútu og lest upp að Aqua Caliente, sem er næsta þorp við Machu Picchu. Þaðan tókum við rútu um hlykkjótan veg upp snarbratta hlíð. Hin týnda borg rís í dalverpi inni á milli snarbrattra skógi vaxna tinda. Umhverfi borgarinnar — landslagið — er órjúfanlegur hluti af upplifuninni. Ég er viss um að það er ótrúlegt að koma gangandi — taka Inkastíginn — inn í þessa veröld, en það tekur nokkra daga. Við gerum það síðar.

Við fengum leiðsögn um rústirnar. Ég hef ekki um þær mörg orð. Þær eru ein af sjö undrum veraldar.

Hátíðarhöld í Inkalandi.

Dagarnir í Cusco voru markaðir skoðunarferðum um magnaðar Inkarústir og vafri um þröngar steinvölugötur gamla bæjarins. Kirkjur Spánverjanna eru líka merkilegar, en í Cusco mætir frumbyggjamenningin kaþólskunni á einstakan hátt. Þarna fór úrslitaorrustan fram milli Spánverja og Inkanna, með sigri Spánverja sem lögðu hofin í rúst og byggðu úr steinunum kirkjur. En það er þó eins og Inkamenningin hafi sigrað til langs tíma. Hún er allt um lykjandi. Svona mögnuð menning getur ekki tapað.

Frá Cusco tókum við rútu til Titicaca-vatnsins. Það er hæsta stöðuvatn veraldar, í 3800 metra hæð. Þarna fundum við óneitanlegaáhrifin frá háfjallaloftinu. Maður er andstyttri. Verður auðveldlega móður. Te úr coca-laufi reyndist mikilvægur orkugjafi við þessar aðstæður. Á Titicaca vatninu upplifðum við enn einn hápunktinn. Við gistum eina nótt meðal Urus-fólksins á fljótandi eyju úr stráum.

Slakað á á stráeyju.

Urus-fólkið flúði Inkana fyrir mörg hundruð árum og gerðu sér stráeyjur á vatninu. Það er þar enn. Um þrjúþúsund manna samfélag býr á um þrjátíu eyjum. Allt er gert úr stráum. Bátar. Hús. Jafnvel matur. Að liggja í hengirúmi undir stjörnubjörtum himni á stráeyju og leggjast svo til hvílu í stráhúsi undir þykku teppi. Þarna gerðist hamingja.

Bólivía — kaos og salthvítur draumur

Ég var smá á nálum fyrir ferðina yfir til Bólivíu. Ég hafði lesið hörmungarblogg um landamærin og að rúturnar væru afleitar. Okkar ferð gekk þó eins og í sögu. Í stuttu máli, svo það sé afgreitt, þá lentum við aldrei í vandræðum í allri ferð okkar um Mið- og Suður-Ameríku. Svo einfalt er það.

Til Copacabana, bæjar við Titicacavatnið — Bólivíumegin— komum við síðdegis. Að koma til Bólivíu er svolítið eins og að fara nokkra áratugi aftur í tímann. Í því liggur viss sjarmi. Litlar ofhlaðnar verslanir í litríkum húsum eru endalaust myndrænar og gömul Coca Cola skilti munu vafalítið prýða göturnar í minnst tvö hundruð ár í viðbót. Við gistum í húsi sem leit út eins og hattur í veröld Aladíns. Förinni var næst heitið til höfuðborgarinnar, La Paz.

Sjoppa í La Paz.

Hún liggur í dal á hásléttu inni á milli himinhárra fjalla. Í dalshlíðunum rísa húsaþyrpingar í fullkominni skipulagðri óreiðu og á botninum er miðborgin. Út frá henni liggja kaplar sem flytja  glansandi nýja kláfa upp í hlíðarnar, í einhverju súrrealísku samkrulli nútíðar og fortíðar. Kláfarnir eru frábær lausn á almenningssamgöngum þessarar margbrotnu byggðar. Einhver hlýtur að hafa fengið verðlaun.

Við skoðuðum ótrúlega magnaðan kirkjugarð, vöfruðum um nornamarkað sem selur dót til galdra, skoðuðum alla litina og hlustuðum á hljóðin. Við vorum nokkurn veginn sammála um að La Paz væri einhver sú Instagramvænasta borg sem við hefðum komið til. Allt er myndrænt. Við fórum líka í bíó. Sáum Endgame. Hún hefði getað gerst í La Paz.

Salar de Uyuni er gríðarlega víðfem saltauðn. Þar var áður haf.

Talandi um hápunkta. Næstur var enn einn slíkur. Suður af La Paz, að landamærum Chile, liggur Uyuni saltauðnin — Salar de Uyuni. Við vissum ekki alveg á hverju við áttum von. Við tókum nætturrútu og komum snemma að morgni til bæjarins Uyuni. Fyrri nóttina bókuðum við nótt á hóteli gerðu úr salti, á jaðri saltauðnarinnar. Það var magnað út af fyrir sig. Saltsléttan er ógnarstór. Þennan fyrri dag fengum við hjól á hótelinu. Við hjóluðum út á sléttuna. Það var ekki auðvelt því undirlagið á sléttunni er gróft, en tilfinningin var mögnuð. Það er eins og allt hafi verið fjarlægt úr veröldinni. Bara hvítt eftir.

Daginn eftir fórum við í almennilegan túr, með leiðsögumanni og bílstjóra. Við keyrðum um auðnina. Sáum undarlegan kaldan „hver”, skoðuðum eyju fulla af kaktusum og enduðum svo við lok dags í stígvélum á risastórum spegli. Þar sem enn er þunnt lag af vatni á saltinu eftir regntímann verður veröldin einn stór spegill. Og þögnin ríkti. Jörðin var himinn og himinn jörð. Þegar sólin settist varð sólarlagið tvöfalt. Á dúklögðu borði á speglinum miðjum þáðum við veitingar og hugsuðum: Ef himnaríki er til, þá er þetta leiðin þangað.

Á saltauðninni var lagt á borð fyrir ferðafólk við sólsetur. Sólin speglaðist á þunnri vatnshimnu ofan á saltinu.

Chile — stjörnur, vín og arineldur

Að koma til Chile frá Bólivíu er eins og að ferðast í tímavél frá 1960 til 2019. Allt í einu eru vegirnir malbikaðir. Allt í einu eru bílarnir nýir og húsin kláruð. Það var ekki laust við að okkur liði dálítið við komuna til Chile eins og að nú væri ferðin um ókunnu löndin búin og við tækju kunnuglegri slóðir.

Flotið á saltvatni.

Fyrsti áfangastastaðurinn, eftir rykuga rútuferð frá Uyuni yfir landamærin, afsannaði þó að mestu þessa tilfinningu okkar. San Pedro de Atacama er ævintýraþorp á stórbrotnu ævintýrasvæði. Atacama-eyðimörkin er þurrasti staður á jarðríki. Þar sums staðar hefur aldrei mælst rigning. Stórbrotin 6000 metra há fjöll rísa í austri, frábær til fjallgöngu. Í Tungldalnum er landslagið eins og samkrull af Tunglinu og Mars. Við flutum saman á saltvatni. Þarna eru kjörskilyrði til stjörnuskoðunar. Við fórum í túr sem hafði uppá að bjóða stærsta einkastjörnusjónauka Suður-Ameríku. Við sáum Júpiter og Satúrnus og fjarlægar stjörnuþokur og fræddumst um leyndardóma himingeymsins eina ótrúlega skemmtilega skýlausa kvöldstund í eyðimörkinni. Talandi um lærdóm og skóla.

Chile náði okkur á fyrstu kynnum. Líklega er hægt að ferðast svo mánuðum skiptir niður þetta land á gönguskónum og klífa bara stórbrotin fjöll, skoða náttúru og stjörnur. Við leigðum bíl og keyrðum norður yfir eyðimörkina til strandborgarinnar Iquique, með viðkomu í draugabæ. Í Atacama er allt fullt af gömlum yfirgefnum saltpétursnámum og draugaþorpum. Námuvinnslu var hætt uppúr miðri síðustu öld. Bærinn Humberstone er hafður til sýnis. Þar er magnað að ganga um. Allt er eins og það var, bara gamalt. Og tómt. Skólastofur, sundlaug, leikhús, spítali, kirkja, búðir, verkstæði og íbúðir standa til vitnis um mannlíf sem aldrei kemur aftur.

Í yfirgefinni skólastofu í yfirgefnu námuþorpi í eyðimörk. Svoldið magnað.

Frá Iquique flugum við til höfuðborgarinnar, Santiago. Það er borg sem maður gæti vel búið í. Við fórum í rússíbanagarð, á vínkynningu (við hjónin), borðuðum fyrirtaksmat og horfðum á Júróvisjón. Þá söknuðum við dálítið snakks og Vogaídífunnar. Annars góð.

„Nú haustaði þar niður frá.“

Patagónía hefur lengi í mínum huga verið sveipuð dýrðarljóma. Til þessa magnaða heimshluta sem þekur syðstu svæði Chile og Argentínu var förinni næst heitið. Nú haustaði þar niður frá. Okkur var tjáð að ekki væri viturlegt að fara mjög langt suður. Þar væri komið skítaveður. Á einhvern hátt fannst okkur þó smá freistandi að kanna hvort skítaveðrið svona langt suður frá væri svipað og skítaveðrið heima á sambærilegum árstíma. Það hefði vissulega getað orðið fróðlegt.

Á götum Pucón. Villarrica eldfjallið í bakgrunni, nýhætt að gjósa.

Við ákváðum að láta nyrstu hluta Patagóníu nægja. Það ferðalag varð í raun einhvers konar tíu daga stórbrotin haustlitaferð. Við byrjuðum í útivistarparadísinni Pucón í Chile. Tókum þangað næturrútu. Villarrica eldfjallið, nýhætt að gjósa, gnæfir þar yfir. Við leigðum íbúð við vatnið. Við kvöddum Chile í dúnmjúkri hauststemmingu, í ullarsokkum við arineld. Chile kvaddi okkur með léttum jarðskjálfta.

Argentína — haustlitir, tangó og tattú

Í Argentínu hélt för okkar niður Patagóníu áfram. Við fórum yfir landamærin í rútu, milli bæjanna Pucón og San Martín de los Andes. Þarna eru skíðalendur, en skíðatímabilið ekki hafið. Við fengum því fjallaskíðaskála á toppprís. Leigðum bíl og keyrðum upp í fjöllin. Nutum þar stórbrotins útsýnis yfir fjallgarðana og fengum spa-ið alveg út af fyrir okkur.

Við eitt vatnanna í hinni fögru Sjö vatna leið.

Það er smá Alpafílingur í þorpunum. Útivist er málið. Einhvern tímann munum við örugglega koma aftur til Patagóníu, fara lengra suður, skoða þjóðgarðana og hafa með okkur almennilegan göngubúnað. Að þessu sinni varð það hápunktur dvalarinnar að keyra hina svokölluðu Sjö vatna leið. Hún liggur milli þorpanna San Martín og Villa la Angostura. Það tekur daginn að keyra hana. Um ellefu spegilslétt vötn innan um æpandi haustliti skapa óneitanlega viss magnáhrif yfirgengilegar fegurðar. Mikilvægt er að stoppa sem oftast, lesa fróðleiksskiltin og njóta.

Þorpin Villa la Angostura, El Bolsón og smáborgin Bariloche urðu okkur íverustaðir botnlausra kósíheita það sem eftir lifði Patagóníudvalar. Það er eitthvað fallegt við það að enda langt ferðalag með hausti. Svolítið eins og lífið.

Úrúgvæ — Strendur, hippakofar og hús úr flöskum

Við vorum þó ekki alveg á leiðinni heim. Áður en við slúttuðum ferðinni með tveggja vikna dvöl í Buenos Aires gerðum við Úrúgvæ skil með viku bílferð meðfram strandlengjunni. Úrúgvæ er merkilegt land. Stjórnarfarið er ákaflega frjálslynt og frekar mikil velmegun ríkir, réttlæti og stöðugleiki. Sem ferðamannaland laðar Úrúgvæ aðallega að sér fólk frá Argentínu og Brasilíu sem kemur til að njóta strandanna, sem eru glæsilegar. Á þessum tíma áttum við Úrúgvæ eiginlega út af fyrir okkur. Á helstu ferðamannastöðum var bókstaflega enginn. Það var skemmtilegt, en líka skrítið.

Ferðamannastaði í Úrúgvæ, eins og þennan strandskúlptúr í Punta del Esta, höfðum við út af fyrir okkur.

Eftir flug frá Bariloche til Buenos Aires tókum við ferju yfir til hinnar gömlu borgar Colonia de Sacramento. Hún er ákaflega fögur og stemmningin skemmtileg. Við keyrðum svo meðfram Atlantshafinu til höfuðborgarinnar, Montevideo. Tómar götur tóku á móti okkur. Hvar var allt fólkið? Leigubílstjóri keyrði okkur að opnu veitingahúsi um kvöldið. Þetta fannst okkur svolítið fyndið. 

Úrúgvæ einkennist ekki af jafn stórbrotinni náttúru og andstæðum eins og hin löndin. Að koma til Úrúgvæ er svoldið eins og að koma niður í Skíri í Hringadróttinsögu. Aflíðandi grænar hæðir og gróin héruð einkenna sjóndeildarhringinn. Norður af Montevideo eru mörg skemmtileg lítil þorp við sjóinn, sem eru iðandi ferðamannastaðir á sumrin. Við leigðum okkur hús við sjóinn á Airbnb og vörðum þar einni nótt. Það var gert úr flöskum og dekkjum og drifið sólarorku. Við grilluðum undir stjörnunum, spiluðum spil við arineld og sofnuðum við hljóðið í briminu. Allt eins og það á að vera.

Við leigðum okkur hús við sjóinn á Airbnb og vörðum þar einni nótt. Það var gert úr flöskum og dekkjum og drifið sólarorku.

 

Þorpið Punto Diablo, upp við landamærin að Brasilíu, höfðum við að mestu algerlega ein. Hundur varð vinur okkar. Við kölluðum hann Skugga. Eftir eina nótt í þeim fallega strandbæ vöknuðum við snemma og drifum okkur að hinu afskekkta smáþorpi Cabo de Polonia. Þangað er maður ferjaður á stórum jeppum í gegnum skóglendi við hafið. Þorpið minnir á Flatey, bara stærra. Litrík, gömul, lítil hús standa á strjáli við sjóinn. Viti ljær umhverfinu ljóðrænan blæ. Undir honum liggur urmull sæljóna og sela í sjávarmálinu. Við ströndina sáum við háhyrninga. Úrúgvæ er kjörstaður til hvalaskoðunar. Og þarna var líka svolítið af fólki. Þetta er svona staður sem Pólverji í kvartbuxum og Hawaii-skyrtu ákvað að kíkja á fyrir átta árum, og er þar óvart enn. Tíminn stoppar. Við keyptum af honum kaffi.

Í Cabo de Polonia

Þaðan keyrðum við til Punta del Este. Það er túristastaður, en að þessu sinni voru auðvitað engir túristar nema við. Okkur hafði verið sagt að við frægan skúlptúr á ströndinni — stórir fingur upp úr sandinum — væri ómögulegt að ná myndum af sér og sínu fólki einu. Alltaf væri mergð af öðrum þar. Þegar við komum þangað var enginn. Listaverkið var okkar. Úrúgvæ var okkar. Við þáðum það með þökkum.

******

Þá var komið að því að slá botninn í ferðina. Dvöl okkar í Buenos Aires í lokin einkenndist af blendnum tilfinningum. Borgin er æðisleg. Hún er iðandi menningarborg, full af sögu og listum. Við fórum á tangónámskeið, hjónin, og fræddumst ekki síður um eðli þjóðarinnar. Þarna er dansað til að gleyma. Nostalgísk, þokkafull tragetía einkennir þjóðarsálina. Argentínumenn halda ekki karnival. Það er engin tilviljun að hin þjóðin sem dansar tangó eru Finnar. Í tangó er bannað að tala.

Á Plaza Dorrego í Buenos Aires er dansaður tangó á sunnudögum. Alltaf.

Í svona andrúmslofti urðu hugsanirnar stórar og tilfinningarnar djúpar. Í æðislegri gamalli íbúð með fimm metra lofhæð í gömlu hverfi gerðum við upp ferðina, kláruðum dagbækur og gerðum saman kort sem sýndi alla 55 áfangastaðina og leiðina sem við fórum. Það var skemmtilegt verkefni.

Undir lokin, þegar að heimferðinni var komið, varð tilfinningin ekki stöðvuð. Ég varð að fá mér tattú. Alexía gaf mér hugmynd og Edda hannaði. Jói lýsti uppbyggilegum efasemdum, með fullnaðarblessun í lokin. Lítill hringur með fjórum punktum í suðvestri prýðir núna vinstri úlnliðinn, flúruð af Venesúelamanni í lítilli blokkaríbúð í San Telmo hverfinu. Hringurinn táknar heiminn og punktarnir okkur.  Við erum í Suður-Ameríku frá mér séð. Í hvert einasta skipti sem ég horfi á það fyllist ég hlýrri gleði.

Þetta var ferð lífsins.

Í lok ferðar gerði fjölskyldan saman kort af leiðinni með misgáfulegum athugasemdum. Næturstaðir urðu 55 talsins.