Það er margt á Lofoten sem minnir á íslenska landsbyggð. Stundum er þetta eins og að vera á Vestfjörðum. Lofoten skaginn er einstakur sem göngu- og útivistarsvæði. Á flestum stöðum er landslagið engu líkt. Þverhnípt björgin rísa beint uppúr hafdjúpinu. Tindaraðirnar virðast óendanlegar. Náttúran óspillt og fögur.

Texti og myndir eftir Róbert Marshall og Brynhildi Ólafsdóttur

Tjaldað uppi á Reinebringen. Þarna er pláss fyrir eitt mjög lítið tjald og ekki sögunni meir. En útsýnið er ótrúlegt.

Ströndin í Bunesfirði er eins og maður sé kominn í miðjarðarhafið. Þangað til farið er ofan í sjóinn.

Göngustígar eru vel merktir og almenningssamgöngur vel skipulagðar. Auðvelt að ferðast með strætó á milli staða og ferjur ganga þangað sem ekki er hægt að fara akandi.  Þarna eru víða skálar norska Ferðafélagsins sem eru mjög vel búnir og snyrtilegir. Almannarétturinn er í fullu gildi og leyfilegt að tjalda í óbyggðum. Flóran er að mörgu leyti kunnugleg enda Lofoten skaginn á 68 gráðum norður. Bjartar snemmsumarnætur, svalur andvari af sjó og bestu sólardagarnir eru eins og góður sumardagur á Íslandi.

Tveir áfangastaðir sem við bendum sérstaklega á hér eru Hermannsdalstindurinn sem er hæsti toppur Vestur Lofoten. Hægt er að fara skemmtilega hringferð frá Sorvagen með viðkomu á fjallinu og enda í Forsfjord en þá þarf maður að hitta á ferjuna þar. Báðir þessir staðir geta verið upphafsstaðir göngu á þennan fallega tind sem er 1029 metra hár. Það er hægt að ljúka göngu á hann á einum degi en mun þægilegra að fara með tjald eða gista í skála norska Ferðafélagsins sem er á leiðinni frá Sorvagen. 

Þetta er fallegt landslag. Hermannsdalstindurinn er til vinstri.

„Það er stutt ganga í gegnum strjálbýla byggð sem minnir á Flatey á Breiðafirði en ströndin og hamrabjörgin í Bunesfirði gerir ferðalagið vel þess virði.“

Bunesfjord er síðan ákaflega skemmtilegur en þangað er hægt að fara með ferjunni í Forsfjord. Það er stutt ganga í gegnum strjálbýla byggð sem minnir á Flatey á Breiðafirði en ströndin og hamrabjörgin í Bunesfirði gerir ferðalagið vel þess virði. Þarna er hvít strönd og mögnuð náttúrufegurð. Þarna er skylda að fara í sjóbað þó ekki fari á milli mála að hér er maður að baða sig í nyrstu höfum heimsins.

Leiðin í Bunesfjörð liggur eftir Forsfjord en gengið er í gegnum strjálbýlt sveitahérað til að komast á ströndina.

Flóran í Lofoten er mjög svipuð því sem maður á að venjast á Ísland en leyfilegt er að tjalda á óræktuðu landi. Norski almannarétturinn er mjög svipaður hinum Íslenska.

Það er auðvitað mjög íslenskulegt verðlag á veitingastöðum í Lofoten en þarna má, með lagni, ferðast með þokkalega hagkvæmum hætti. Tjaldstæðin eru mjög vel búin og matvöruverslanir ekki dýrari en það sem við eigum að venjast. Úrval afþreyingar eru mikið. Þarna eru kajakleigur, hjólaleiðir, frábær klifursvæði, stórbrotnar fjallahlaupaaðstæður og mikil fjallaskíðamenning að vetri til.  Allt sem útifólk þarfnast.

Gott er að taka stefnuna á Bodö. Þaðan er hægt að taka Hurtigruten (ferjuna) yfir Ísafjörð (talandi um líkindi við Vestfirði!) til Lofoten. Þaðan er líka hægt að fljúga og lenda á flugvellinum í Svolvaer en það borgar sig að tékka vel á almenningssamgöngum frá flugvellinum því hann er töluvert utan við bæinn. Pakkið öllu sem þið mynduð taka með í íslenskt útivistarævintýri.

Kofar norska Ferðafélagsins eru mjög huggulegir. Þar er allt til alls og oft hægt að kaupa mat úr búrskápum.