Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor og fjallamaður, fór á vordögum í glæsilegan skíðaleiðangur í Denali þjóðgarðinum í Alaska þar sem sofið var í tjöldum á jökli í 5 nætur og skíðað alla daga. Við vildum auðvitað vita hvernig þetta kom til.

„Við vorum með stórt svefntjald og eldhústjald og tvö minni tjöld að auki en sváfum samt eins og síldir í tunnu.“ Mynd: Joe Stock.

„Ég hef verið töluvert á fjöllum – á fjallaskíðum, í alpaklifri og klettaklifri – með bandarískum fjallaleiðsögumanni sem heitir Armin Fisher en það var hann sem hafði samband við mig og nokkra aðra af sínum viðskiptavinum og bauð upp á þessa ferð. Við vorum samtals 10 í ferðinni, 8 kúnnar og tveir leiðsögumenn, en auk Armins var það Joe nokkur Stock sem skipulagði ferðina. Hann hefur um árabil farið með skíðamenn í svona grunnbúðir í þjóðgarðinum. Það er flogið á svæðið frá bænum Talkeetna á kraftmiklum Otter vélum sem eru á skíðum, lent á jöklinum og þar eru settar upp búðir.“

Friðrik Már segir að grunnbúðirnar í þetta skiptið hafi verið á stalli í um 1500 metra hæð sem er umkringdur fjallatindum sem flestir eru um 6 til 700 metrum hærra en tjaldbúðirnar.

„Ég kaus að fara ekki undir þessa hengju. Ég hugsaði: það er nánast engar líkur á að hún fari en ef hún gerir það, þá vil ég ekki verða fyrir henni.“ Mynd: Brian Holtan.

„Við vorum með stórt svefntjald og eldhústjald og tvö minni tjöld að auki en sváfum samt eins og síldir í tunnu. Kosturinn við að koma inná svæðið í flugvél var sá að það var hægt að taka nægan búnað með og ekkert skorti í mat og drykk – við gátum til dæmis fengið glas af köldum bjór eftir hvern sólríkan daginn á fjöllum. Joe sagði að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem bjórinn fraus ekki í kútunum en þeir voru grafnir í snjó á nóttunni þegar mesta frostið var.“

Friðrik var eini íslendingurinn í hópnum en með í för voru að auki skíðamenn frá bandaríkunum, Kanada, Bretlandi og Finlandi.

„Þetta eru gríðarlega miklir fjallgarðar þarna. Denali þjóðgarðurinn er að stærð eins og fjórðungur Íslands þannig að þarna er úr miklu að velja“

„Við skíðuðum í lykkjum út frá búðunum alla dagana fyrir utan einn en þá var æfð sprungubjörgun. Samanlögð hækkun í dagsferðunum var að jafnaði 1500 metrar og Denali blasti við allan tímann enda var sól og bjart alla daga nema einn. Þetta eru gríðarlega miklir fjallgarðar þarna. Denali þjóðgarðurinn er að stærð eins og fjórðungur Íslands þannig að þarna er úr miklu að velja. Joe Stock, sem hefur stundað þjóðgarðinn í áraraðir, hafði til dæmis aldrei verið á þessu svæði sem vorum á í þetta skiptið. Og við vorum algerlega einir á svæðinu. Maður hefur séð mikið af skíðamyndböndum frá fjöllunum þarna og maður skilur þau betur þegar maður hefur komið þarna. Það er eitthvað við snjóinn og loftslagið þarna sem gerir það að verkum að snjórinn límist einhvernveginn við fjöllin og úr verða brekkur sem eru mun brattarin en við eigum að venjast frá Íslandi eða úr ölpunum. Sumir í hópnum höfðu gríðarmikla ánægju af því að skíða mjög brattar brekkur.”

„Það er flogið á svæðið frá bænum Talkeetna á kraftmiklum Otter vélum sem eru á skíðum, lent á jöklinum og þar eru settar upp búðir.“ Mynd: Joe Stock.

Hann segir snjóflóðahættu hafa verið á eftirmiðdögum. „Þá var blautflóðahætta úr suðurhlíðum en mest af skíðuninni var í norðurhlíðunum; þar var besti snjórinn og skemmtilegasta færið. Ég get ekki endurtekið það nógu oft að það að vera með leiðsögumenn sem þekkja sitt fag er ódýrasta líftrygging sem hægt er að kaupa. Það er tómt rugl að fara illa undirbúinn inn á svona svæði“.

Friðrik segist helst hafa viljað æfa það fyrir ferðina að skíða í svona miklum bratta, en vel gekk að finna leiðir við allra hæfi. Hann segir nýsnævi hafa verið yfir öllu og engar opnar sprungur þar sem þeir voru en krosssprungnir skriðjöklar sjáanlegir í nágrenninu. Hann flaug til Anchorage og tók nokkra daga í upphitun í fjöllunum þar í kring áður en haldið var til Denali.

Hann segist hafa byrjað á sínu fjallabrölti með Brattgengi Íslenskra fjallaleiðsögumanna: „Þar kynntist ég ýmsu, t.d. klettaklifri, sem hefur verið eitt af mínum aðaláhugamálum í nokkur ár, og var líka nokkrum sinnum í Skíðagenginu þeirra. Ég lærði mikið af frábærum leiðsögumönnum sem voru með þessa hópa.“

Hægt er að finna upplýsingar um svona ferðir í Denali þjóðgarðinn á stockalpine.com