Sprækur 15 manna hópur íslenskra fjallahjólara ferðaðist síðastliðið haust til hins forboðna konungsríkis Mustang sem núna er partur af Nepal. Svæðið er í dag að hluta þjóðgarður og vel er fylgst með umferð inn og út af svæðinu. Það var lokað fyrir ferðamönnum til ársins 1992 og búa þar í sátt og samlyndi Hindúar og Búddistar. Kjartan Long var einn þeirra. Við fengum hann til að segja okkur ferðasöguna.

Texti og myndir: Kjartan Long

Við fórum þetta í þremur flugleggjum. Frá Keflavík til Köben, þaðan til Katar og áfram til Katmandú. Við innrituðum hjólin og annan farangur í Keflavík og hann skilaði sér allur heill og í fínu standi til Katmandú. Það var líka mögulegt að leigja hjól og nýtti einn í hópnum þann kost.

„Fyrsti hjóladagurinn var tekinn í úthverfi Katmandú þar sem hjólið, formið og hausinn fengu prufukeyrslu.“

Framundan voru 12 hjóladagar, allt upp í 55 kílómetrar á dag og upp í 4200 metra hæð með fjallgarða í kringum okkur sem náðu upp í 8000 metra. Þar stóð hið magnaða fjall Annapurna uppúr en það er 8091 metra hátt.

Fyrsti hjóladagurinn var tekinn í úthverfi Katmandú þar sem hjólið, formið og hausinn fengu prufukeyrslu.

Næst voru eknir 200 kílómetrar til Pokhara sem er næststærsta borgin í Nepal en á leiðinni var stoppað við einn hólinn og kláfur tekinn upp í Manakamana-musteri.
Ferðin þaðan niður var mjög krefjandi; nokkur hundruð steintröppur og rúllað eftir vegslóðum og einstigi.

Í Pokhara hjólaði hópurinn inní frumskóg rétt utan við bæinn í miklum hita og raka. Það var ekki þurr þráður á okkur þegar komið var niður í byggð aftur.

Frá Pokhara var flogið til þorpsins Jomsom í Mustang-héraði. Þaðan hjóluðum við milli fjallaskála og gistum í Kagbeni, Tinighaon og Kalopani.

„Við upplifðum okkur stundum alveg ein í heiminum þrátt fyrir að vera í nágrenni vinsællar gönguleiðar í kringum Annapurna.“

Við vorum tvær til þrjár nætur á hverjum stað og það var geggjað að upplifa hversu fámennt var á þessu svæði. Við upplifðum okkur stundum alveg ein í heiminum þrátt fyrir að vera í nágrenni vinsællar gönguleiðar í kringum Annapurna.

Lengsta daginn var klifrað upp í 4200 metra hæð og verðlaunin voru eitt glæsilegasta niðurbrun sem fyrirfinnst í heiminum.“

Hver dagleið var frá 5 tímum upp í 8 tíma. Lengsta daginn var klifrað upp í 4200 metra hæð og verðlaunin voru eitt glæsilegasta niðurbrun sem fyrirfinnst í heiminum.

Eftir hvern hjóladag voru hjólin yfirfarin, farið í sturtu og borðaður þjóðarréttur þeirra Nepala: „Dal bhat“ og spjallað um ævintýri dagsins yfir öl eða sherpa te. Farið var snemma í háttinn enda allir lúnir og hvíldin kærkomin.

Á vegi okkar urðu fjöldinn allur af geitahirðum sem voru á leið með gripi sína til slátrunar í neðri byggðum og fannst þeim alveg jafnmikið til okkur koma eins og okkur til þeirra og ósjaldan sem þeir tóku upp snjallsímanan sína og báðu um sjálfu með okkur. Einnig var svolítið sérstakt að hjóla í gegnum heilu breiðurnar af kannabisplöntunni sem vext villt þarna í fjöllunum.

Stígarnir sem við hjóluðum voru oftast mjög fínir og á köflum mjög krefjandi, bæði tæknilegt niðurbrun í grýttu landslagi, grófir stígar og mikil hækkun upp í þunnt loft sem fór ekki alltaf vel í alla en allir náðu þó að klára dagleiðirnar með kannski smá styttingu hér og þar ef heilsan var ekki upp á tíu.

„Allan tímann vorum við örugg bæði í borgunum og uppi í fjöllunum. Það er tilfinning sem er notalegt að finna á ferðalögum.“

Sólveig Pétursdóttir skipulagði ferðina okkar en leiðirnar og ferðalagið innan Nepal voru skipulögð af frönskum leiðsögumanni, Tangi, sem flutti til Nepal fyrir 15 árum. Hann starfar sem leiðsögumaður í nokkra mánuði á ári og nýtir svo frítímann í að leita að nýjum slóðum og hugmyndum fyrir næsta tímabil. Sjálfur fylgdi hann hópnum eftir alla daga en auk hans voru þrír nepalskir leiðsögumenn með í för auk bílstjóra.Við féllum öll fyrir þessu einstaka og samheldna liði sem brosti út í eitt allan tímann og stjanaði við okkur á ýmsan hátt. Þau yfirfóru alltaf hjólin og þrifu þau daglega. Þar af leiðandi voru bilanir hverfandi og hjólin alltaf glansandi og við skælbrosandi.

Ein af leiðsögumönnunum, Nishma Sheresta er 23 ára og er að keppa í fjallahjólreiðum. Hún hefur náð frábærum árangri og meðal annars sigrað nokkrar keppnir í Asíu. Það verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. Hún fer fyrir hópi ungra stelpna sem eru að byrja að klifra og fjallahjóla í Katmandú. Hún hefur sankað að sér notuðum búnaði, fatnaði og fleiru til að koma þessum stelpum af stað í sportinu.

„Það kemur enginn ósnortinn frá Nepal. Fjöllin, landið, fólkið, menningin og einstök gestrisni er eitthvað sem er ógleymanlegt og kallar á að maður komi aftur til þessa litla en gríðarlega magnaða lands.“

Það kemur enginn ósnortinn frá Nepal. Fjöllin, landið, fólkið, menningin og einstök gestrisni er eitthvað sem er ógleymanlegt og kallar á að maður komi aftur til þessa litla en gríðarlega magnaða lands sem Nepal er.  Allan tímann vorum við örugg bæði í borgunum og uppi í fjöllunum. Það er tilfinning sem er notalegt að finna á ferðalögum.