Eins og við höfum áður greint frá þá er það markmið Johns Snorra Sigurjónssonar að hans hópur verði fyrsti leiðangurinn á tind K2 að vetri til og er stefnt að því að leggja af stað um áramótin til Pakistan. Vetrartímabilið á fjallinu er skilgreint frá 1. janúar til 22. mars og á því tímabili þarf John Snorri að ná toppi K2 til að teljast hafa náð að klífa það um vetur. John er nýkominn af Manaslu en það er 8. hæsta fjall heims. Það eru aðeins 14 tindar í heiminum sem fara yfir 8000 metra og af þeim hefur John Snorri komist á fjóra því árið 2017 fór hann á Lhotse, K2 og Broad Peak. Lhotse er fjórða hæsta fjall heims og Broad Peak er númer 12 á listanum.

Stökk yfir jökulsprungu. Snorri á leið niður af Manaslu.

Við heyrðum í John Snorra eftir Manaslu: „Þetta gekk vel. Ég tók hæðaraðlögun þannig að ég svaf í búðum eitt, tvö og þrjú, fór svo aftur niður og gerði síðan lokaatlöguna þannig að ég fór úr grunnbúðum í fyrstu búðir, þaðan í þriðju og svo loks í fjórðu, síðustu búðirnar. Þar hvíldi ég mig í 4 tíma áður en ég fór á toppinn. Ég var um sjö tíma að ná aðaltindinum sem var frábært því yfirleitt er ekki farið á hæsta tindinn en þeir liggja tveir saman og það þarf að fara yfir einn til að ná þeim hæsta. Niðurleiðin gekk vel og ég ákvað ég ganga alla leið niður í grunnbúðir af toppnum. Eg var kominn niður um miðjan dag. Það var svolítil örtroð a leiðinni niður og tveir staðir þar sem var algjört stopp vegna smá veggja sem þurfti að klifra.“ Með honum var félagi hans Dean Carriere frá Kanada en þeir voru samferða á toppinn á Manaslu.

John segir að sennilega hafi verið metfjöldi á fjallinu en um 237 leyfi voru veitt af stjórnvöldum auk þess að þarna var fjöldi Sherpa og fararstjóra. Hann segist hafa notað þessa ferð sem æfingu fyrir næsta verkefni sem er að reyna að verða fyrstur til að klífa K2 að vetri til. „Þetta er stórt og dýrt verkefni. K2 er eina fjallið af átta þúsund metra tindunum sem enginn hefur náð að klífa að vetri. Þetta er gríðarleg áskorun en ég er með ákveðna aðferðafræði sem ég tel geta gengið upp. Ég hef fengið tvo liðsfélaga sem báðir eru mjög sterkir og miklir reynsluboltar.“ Hann segir nauðsynlegt að í liðsheildinni sé enga veikleika að finna og segir hann liðið vera reiðubúið til að klára þetta verkefni en miklir kuldar og vindar séu ástæða þess að enginn hafi náð að toppa fjallið að vetri til. Félagar hans eru frá Nepal og Kína; þeir Mingma G. og Gao Li.  „Við erum búnir að setja upp aðstoðarteymi sem allir eru vanir vetraraðstæðum. Ég mun svo leggja af stað á milli jóla og nýárs til Pakistan þar sem eg mun hitta félaga mína aftur og aðstoðarteymi okkar.“