Ferðafélag barnanna fór í fyrsta skiptið á Víknaslóðir í sumar.

Það voru 15 hörkudugleg börn á aldrinum 7-14 ára sem gengu ásamt foreldrum sínum um ægifagrar Víknaslóðir nú miðsumars í fyrstu ferð Ferðafélags barnanna á því svæði. Á Víknaslóðum er gengið um fagrar grónar víkur sem eru umkringdar einhverjum fegurstu fjöllum Íslands og hvarvetna má sjá mannvistarminjar, tóftir eða gömul eyðibýli.

Dalla Ólafsdóttir skrifar.

Margt fangaði athygli barnanna á göngunni.

Ganga Ferðafélags barnanna hófst við Hafnarhólma í Borgarfirði eystri þar sem spjátrungslegir lundar í þúsundatali glöddu börn og fullorðna og var gott veganesti inn í fyrsta göngudaginn. Þá var gengið í hina litfögru Brúnavík og þaðan yfir í Breiðuvíkina þar sem glæsilegir skálar Ferðafélags Fljótsdalshéraðs setja fallegan svip á umhverfið. Varðeldur með tilheyrandi sykurpúðagrilláti í fjöruborðinu setti punktinn yfir i-ið þennan fyrsta göngudag. Frá Breiðuvík var gengið yfir til Húsavíkur, framhjá hinu formfagra fjalli Hákarlshaus (og er raunar ekki eina fjallið á þeim slóðum sem ber þetta nafn) og hinum einstæða Hvítserk sem var þó skýjum hulinn að mestu leyti. Sannarlega ástæða til að koma aftur á þessar slóðir.

Dugmestu börn og fullorðnir gengu út Húsavíkina til að líta kirkjuna augum sem reist var 1937 en þó var aðalaðdráttaraflið að líta kirkjugarðinn augum. Sjávarbrimið brýtur á kirkjugarðinum og að sögn kunnugra má finna þar leifar af líkkistum og mannabein! Forvitnum börnum þótti ekki leiðinlegt að reyna að staðreyna þær sögur en fundu þó eingöngu lærlegg af lambi.

„Eins og kunnugt er má finna á Borgarfirði eystri höfuðból álfa hér á landi og voru ófáar huldufólkssögur sagðar í ferðinni“

Ganga yfir í gróskumikinn Loðmundarfjörð hófst á þriðja degi með snarbröttu klifi upp brattan Nesháls þar sem drungaleg þoka tók á móti göngumönnum með tilheyrandi möguleikum á að rekast á tröll og huldufólk. Eins og kunnugt er má finna á Borgarfirði eystri höfuðból álfa hér á landi og voru ófáar huldufólkssögur sagðar í ferðinni enda gengið um mörg sögusviðin. Því verður þó ekki ljóstrað hér upp hvort ferðalangar hafi rekist á huldufólk í ferðinni!

„Varðeldur með tilheyrandi sykurpúðagrilláti í fjöruborðinu setti punktinn yfir i-ið þennan fyrsta göngudag.“

Loðmundarfjörður er einstaklega fallegur fjörður, gróskumikill og iðandi af fuglalífi. Þar var búið á a.m.k. 10 jörðum og gaman að skoða eyðibýli og líta gömul bæjarstæði augum þar sem m.a. galdramenn bjuggu á fyrri tíð. Grillveisla var haldin að kveldi til í Lommanum og svo stýrðu krakkarnir kvöldvöku þar sem þau notuðu tækifærið til að hrella foreldra og aðra fullorðna með ýmsum uppátækjum.

Síðasta göngudag var gengið yfir Hjálmárdalsheiði yfir í fagran Seyðisfjörð með stórkostlega fjallasýn. Sólin skein enda gengið skýjum ofar í logni og sumarhita. Allir orðnir nokkuð lúnir en kátir og höfðu styrkt vinaböndin enda rúmlega 60 km ganga að baki þar sem heildarhækkun var um 2.700 metrar.  Syngjandi glöð allan tímann enda fátt betra en að vera með fólkinu sínu og huldufólki á göngu um ævintýraslóðir og vita af uppáhaldsnestinu í bakpoka sínum.