Guðni Páll setti brautarmet um helgina.

Brautarmet voru slegin í bæði karla og kvennaflokki í Þórsmerkurhlaupinu Volcano Trail Run um helgina þrátt fyrir að aðstæður hefðu verið krefjandi á köflum. Guðni Páll Pálsson kom í mark á tímanum 01:05:01 og Astrid Olafsdottir á 01:26:58. En hlaupið var haldið í sjötta sinn um helgina og yfir 100 keppendur voru skráðir til leiks.

Þórsmerkurhlaupið, sem hefur verið valið eitt af bestu utanvegahlaupum landsins og telur 12 kílómetra, hefst við skála Volcano Huts í Húsadal og er hlaupið inn Húsadalinn áleiðis upp Laugaveginn. Beygt er af leið til hægri í áttina að Langadal þegar komið er upp úr Húsadal og farið af stígnum upp á Slyppugilshrygg og þaðan niður í Slyppugilið. Þaðan er beygt í átt að Tindfjallasléttu og niður Stangarháls að Stóraenda. Síðan er hlaupið eftir Krossáraurum að Langadal og stefnan er tekin upp Valahnúk. Þar tekur við 275 metra hækkun, en síðan liggur leiðin niður að vestanverðu að endamarkinu í Húsadal.

Hlaupaleiðin um helgina. Tekin af heimasíðu Volcano Huts.

Saga Þórsmerkurhlaupsins telur 6 ár, en hlaupið er haldið af Volcano Huts sem reka gisti- og veitingaþjónustu í Húsadal. Fyrsta árið tóku um 20 manns þátt en í fyrra voru um 170 manns skráðir. Í samtali við Bjarna Frey, framkvæmdastjóra kom fram að hugmyndin hafi kviknaði þegar gestir frá Bandaríkjunum hlupu um Þórsmörk þvera og endilanga. Þá áttuðu mótshaldarar sig á því að stór hópur fólks ferðast í þeim tilgangi að hlaupa leiðir og stíga í fallegu umhverfi. Þá langaði því að bjóða fólki upp á skemmtilega upplifun í kringum þessa útivist.

Nokkur fjöldi erlendra hlaupara hafa tekið þátt undanfarin ár og fer þeim fjölgandi á hverju ári. Að sögn Bjarna hafa þeim borist nokkrar fyrirspurnir frá erlendum hlaupamiðlum og frægum hlaupurum og segir hann að það verði spennandi að fylgjast með þróun þessa viðburðar. Næsta sumar er á dagskrá að bjóða upp á æfingarferðir fyrir hlaupahópa ásamt undirbúningsferð fyrir þá sem vilja koma og undirbúa sig fyrir keppnina.

Bjarni Freyr segir veðurspána hafa fælt ansi marga frá hlaupinu í ár. En eins og fyrr hefur komið fram voru yfir 100 keppendur skráðir, en 82 hófu keppni.

Fyrstu tvö Þórsmerkurhlaupin voru haldin í maí, en mikill snjór var á leiðinni annað árið og var því ákveðið að fær viðburðinn yfir á haustið. Sú ákvörðun hefur hentað einstaklega vel, því hitastigið er oft mjög gott og hefur yfirleitt verið mjög fallegt haustveður á meðan hlaupi stendur. Bjarni Freyr segir veðurspána hafa fælt ansi marga frá hlaupinu í ár, en eins og fyrr hefur komið fram voru yfir 100 keppendur skráðir, en 82 hófu keppni. Það var hins vegar blíðskaparveður þegar hlauparar voru ræstir út en tók svo að hvessa og rigna þegar leið á hlaupið. Allir keppendur luku þó keppni nema einn.

Efstu þrjú sætin í kvenna og karlaflokki voru eftirfarandi:

Astrid Olafsdottir setti einnig brautarmet í hlaupinu.

Konur:

  • Astrid Olafsdottir 01:26:58 – brautarmet
  • Harpa Dröfn Georgsdóttir 01:32:26
  • Kathryn Neubauer 01:38.35

Karlar:

  • Guðni Páll Pálsson 01:05:01 – brautarmet
  • Hlynur Guðmundsson 01:10:46
  • Pascal den Hartog 01:15:10

Nánari upplýsingar um úrslit allra keppenda sem luku keppni má finna hér.