„Útsýnið var frábært til allra átta og er magnað að sjá eldgígaraðirnar teygja sig frá norðri til suðurs.“

Ferðahópurinn Ísbirnir, samanstendur af hressu fólki sem á það sameiginlegt að finnast gaman að leika sér úti. Hópurinn einbeitir sér ekki að einni íþrótt heldur stundar fjallaskíði, gönguskíði, fjallgöngur og fjallahjólreiðar og börn eru oft með í för. Um verslunarmannahelgi í fyrra tóku 25 Ísbirnir sig saman og hjóluðu hring um Síðumannaafrétt og Laka en nokkrir meðlimir hópsins höfðu farið svipaða ferð með Ferðafélagi Íslands árið áður.

Hringurinn byrjaði og endaði við Þverá í Síðu við Kirkjubæjarklaustur en einn bíll dró farangurskerru og skiptust fórnfúsir hjólarar á að keyra. Aðrir gátu því áhyggjulausir hjólað með einungis léttan bakpoka um náttúru sem ber merki þeirra miklu hamfara sem hafa átt sér stað á þessum slóðum. Vegurinn er víða grófur og því svo gott sem ómögulegt að hjóla hann öðruvísi en á fjallahjóli á dekkjum sem henta slíku undirlagi.

Dagur 1: Þverá – Miklafell (20 km)

Á laugardegi var hjólað af stað frá Þverá upp með Brunahrauni að skálanum við Miklafell á þægilegum vegslóða. Tekin var nestispása í dýrindis veðri, glampandi sólskini og logni, við Öðulbrú sem er hraunbrú yfir samnefnda á. Þar má sjá hvar áin hverfur skyndilega undir hraunið og sprettur svo aftur upp nokkru neðar. Leiðin upp að Miklafelli er um 20 km en þar kom hluti hópsins sér fyrir í skála við fellið meðan aðrir reistu tjaldbúðir í túnfætinum. Auk þess að hýsa náttúrutúrista gegnir skálinn hlutverki gangnamannaskála eins og glöggt má sjá af fjárhúsum úr hrauni, timbri og torfi í kring. Áhugafólk um vélar og sögu getur rannsakað mótor úr herflugvél, sem fórst í nágrenninu í seinni heimsstyrjöld, og hefur verið komið fyrir við skálann. Sögu flugmannsins og flugvélarinnar má finna í skálanum.

Eftir að hópurinn hafði komið sér fyrir var gengið á Miklafell og dáðst að hrauninu og litadýrðinni sem var ægifögur í kvöldsólinni. Við skálann er lítið símasamband og því mátti skemmta sér við að fylgjast með skrautlegu veðurathugunarfólki rápa um brekkurnar í leit að sambandi sem dygði til að sækja nýjustu veðurfréttir.

Dagur 2: Miklafell – Laki – Blágil (56 km)

Á sunnudagsmorgni var pakkað saman og haldið hjólandi af stað vestur með Miklafelli að Laufbalavatni. Á þessu svæði við Miklafell mynduðust tilkomumikil hellakerfi í hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Hraunhellarnir, sem uppgötvuðust fyrst árið 2000, eru stundum fullir af vatni en við vorum heppin og gátum farið langt inn með Iðrafossi. Hann er nærri 2.000 metra langur og lofthæð mest um 6 metrar. Þeir sem hugaðastir voru og fóru lengst inn í hellinn slökktu ljósin og sungu „Ég er kominn heim“ í skemmtilegri stemmingu. Svæðið í kringum hellana er mosalagt hraun og er afar viðkvæmt og því ráðlegt að fara gætilega. Engir stígar liggja um svæðið og því er nærri ómögulegt að rata að hellunum nema eftir hnitum í GPS tæki. Í nágrenni hellanna er lítill en fallegur foss sem er gaman að skoða.

„Brennisteinsfnykurinn var greinilegur og tilkomumikið að hjóla meðfram Skaftánni og sjá hversu gríðarlega hún hafði breitt úr sér. “

Áfram var haldið hjólandi framhjá Blæng og upp að Laka. Útsýnið var frábært til allra átta og er magnað að sjá eldgígaraðirnar teygja sig frá norðri til suðurs. Áður en við lögðum af stað í ferðina hófst Skaftárhlaup en það var ekki fyrr en í Laka, eftir að hafa verið síma- og netsambandslaus í rúman sólarhring, að við fréttum hjá landverði að hlaupið væri orðið mun stærra en gert var ráð fyrir í fyrstu. Við vorum heppin að fá austanátt og gátum því haldið ferðinni áfram en vorum hvött til að dvelja ekki nálægt ánni þar sem gas getur safnast fyrir í dældum og lægðum. Brennisteinsfnykurinn var greinilegur og tilkomumikið að hjóla meðfram Skaftánni og sjá hversu gríðarlega hún hafði breitt úr sér. Landslagið á þessum slóðum er ansi magnað, svartur sandur og miklar mosabreiður. Næsti viðkomustaður var Tjarnargígur og þar er búið að koma fyrir flottum útsýnispalli og gera gott aðgengi. Áfram var haldið að skálanum í Blágili en þangað komum við rétt fyrir kvöldmat. Slegið var upp grillveislu og skálað fyrir trússara dagsins! Voru hjólarar glaðir að komast í skjól og hlýju þar sem kaldara hafði verið í veðri og sólin eitthvað gleymt sér annars staðar. Einnig hafði þurft að fara yfir ár þar sem flestir báru hjólin á bakinu og nokkrar blautar tær farnar að kjökra.

Dagur 3: Blágil – Kirkjubæjarklaustur (45 km)

Á mánudagsmorgni vöknuðum við í frábæru veðri. Þeir sem gistu í tjöldum fengu reyndar að vakna tvisvar því myndarlegur fjárhópur gerði hlé á ferð sinni um landið og hélt söngskemmtun á tjaldsvæðinu í nætursólinni. Þeim sem bröltu úr tjaldi til að stugga fénu af sviðinu var launað með stórfenglegu sjónarspili sólar og hrauns og skjátunum því fyrirgefið ónæðið.

Eftir morgunmat héldum við áfram hjólandi yfir ár, sanda og mela eftir Lakavegi með viðkomu á Fagrafossi sem er mjög tilkomumikill og væri eflaust álíka vinsæll viðkomustaður ferðamanna og Gullfoss væri hann aðgengilegri. Það er hreint ekki slæmt að virða Fagrafoss fyrir sér og maula nestisbita á meðan. Það var gaman að sjá landslagið breytast og grösugri sléttur taka við af hrjóstrugu landslaginu. Eftir að hafa puðað aðeins upp í móti fyrstu tvo dagana var gaman að fá að bruna niður á við og nýttu sumir óspart tækifærið.

Hjólað var meðfram Fjaðrárgljúfri og auðvitað ekki annað hægt að stoppa og skoða þetta margbrotna náttúruundur þótt sumir séu spenntastir fyrir „Justin Bieber klettinum“. Eftir kaffipásu var haldið áfram niður að Hunkubökkum. Þaðan liggur hestaslóði meðfram þjóðveginum að Klaustri, sem við fylgdum til að byrja með, en á meðan við puðuðum á slóðanum undruðumst við að sjá ekki einn einasta bíl á þjóðveginum sjálfum! Var þá búið að loka veginum frá Klaustri og vestur fyrir Skaftá þar sem áin flæddi yfir veginn og því var hægt að bruna eftir malbikinu án þess að hafa áhyggjur af bílaumferð.

Ísbirnir hvíla lúin bein við Fagrafoss

Á Klaustri var að sjálfsögðu ekki annað í stöðunni en að skella sér í heitan pott í sundlauginni enda sturtan vel þegin eftir átökin undanfarna daga. Eftir sundferðina hafði sjatnað aðeins í ánni og vel útbúnum bílum hleypt á þjóðveginn. Þrátt fyrir að hafa vaðið ansi margar ár á leiðinni var engu líkt að keyra þjóðveginn sem var á kafi í jökulbrúnu vatni Skaftárinnar þannig að rétt sást í stikurnar.

Samtals voru hjólaðir rúmlega 120 kílómetrar og gekk ferðin áfallalaust fyrir sig. Allir komu heilir á leiðarenda, bæði hjólarar og hjól, og því ánægður hópur sem kvaddist yfir kvöldmat á veitingastaðnum Gamla fjósinu áður en haldið var heim á leið.