Urður Matthíasdóttir, þá þrettán ára gömul, fékk síðsumars 2018 símtal og var spurð hvort hún vildi ganga Houte Route í Ölpunum. Það er vægast sagt krefjandi ganga. Lagt verður af stað eftir 8 klukkutíma, sagði pabbi hennar. Urður sló til. Hún sér ekki eftir því.

Urður Matthíasdóttir skrifar.

„Ég hafði einu sinni farið í brodda og línu, hafði gengið einu sinni á jökli en t.d. aldrei sigið niður kletta. Ég gat ekki sofnað fyrir spenningi.“

Ég var stödd í afmælisveislu hjá vinkonu minni mánudagskvöld í ágúst þegar pabbi hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að fara í átta daga jöklagöngu í Ölpunum. Ég sagði auðvitað já. Þá sagði hann mér að ég yrði að koma beint heim og pakka því við myndum leggja af stað eftir bara 8 klukkutíma! Ég hafði einu sinni farið í brodda og línu, hafði gengið einu sinni á jökli en t.d. aldrei sigið niður kletta. Ég gat ekki sofnað fyrir spenningi.

Urður Matthíasdóttir

Við hittum allan hópinn á flugvellinum. Þá fyrst fattaði ég hvað ég var mikið yngri en allir hinir. Einhver sagði að það væri bara fínt að fá mig með því að þá færum við hægar yfir!  Þegar ég heyrði það ákvað ég að ég ætlaði alltaf að vera með þeim fyrstu. Ég ætlaði sko alls ekki að draga úr hópnum.

Daginn eftir var ég ekki ennþá búin að ná því að ég væri í Sviss og að ég væri að fara að ganga Haute Route í Ölpunum. Það var einhvern veginn ekki raunverulegt. Ég vaknaði í herbergi fullu af næstum ókunnugu fólki, þurfti að pakka öllu dótinu mínu í bakpoka, klæddi mig í mestu sumarföt sem ég hafði farið í í allt sumar, fékk einhvern rosalegan morgunmat og fór svo að ganga.

Þessi  fyrsti dagur var ekkert krefjandi en hann fór eiginlega bara í að læra á þetta allt saman: Hvernig bakpokinn virkaði, hvernig göngustafirnir virkuðu og að kynnast fólkinu í hópnum. 

Daginn eftir var ég komin með aðeins meiri tök á þessu, fannst auðveldara að vakna og var fljótari að pakka. Ég var ekkert stressuð fyrir göngunni annan daginn, hélt að þetta yrði bara ekkert mál eins og fyrri daginn, hopp á milli steina. Ég var því alveg sallaróleg.  En svo komu mun brattari og lengri brekkur en daginn áður og ég byrjaði aðeins að hægja á mér og hugsa með mér að þetta væri kannski ekki alveg eins auðvelt og ég hélt. 

Stund milli stríða

Við komum að mjög stórri skriðu sem við þurftum að fara niður og síðan upp brekku sem mér fannst vera alltof langt í burtu og alltof brött og alltof löng. Þá þurfti ég að anda djúpt og slaka á. Ég ákvað að byrja að semja einhverja sögu og einbeita mér að því alla leiðina. Ég komst svo að því að það var ekkert erfitt að fara niður skriðuna, það var bara mjög gaman að stikla á steinunum og passa sig á lausu steinunum, en að fara upp brekkuna var annað mál. Þetta var fyrsta bratta brekkan mín í ferðinni svo að mér fannst hún hræðileg. 
Þegar ég var loksins komin upp blasti við mér stór jökull. Við þurftum að vera með belti, hjálm og brodda. Ég mundi ekkert hvernig þetta virkaði. Ég datt um broddana um leið og ég var komin á jökulinn. Mér fannst það mjög vandræðalegt, en mjög spennandi að fara yfir sprungur og sjá grjóthrun í fjallshlíðinni. Þegar við vorum komin yfir jökulinn þurftum við að síga niður berg. Ég hafði aldrei sigið niður neitt áður og fannst það voða gaman.

„Frá Tête Blanche sáum við Matterhorn mjög vel. Ég varð samt fyrir svolitlum vonbrigðum því eg bjóst við að sjá það frá Toblerone sjónarhorninu en þarna leit það ekkert út fyrir að vera Matterhorn. Það var samt æðislega flott.“

Flestir göngudagar voru svona. Við gengum yfir jökla sem gat verið þreytandi, þurftum stundum að síga og svo gengum við á Tête Blanche sem er 3710 m. hátt fjall. Ég hélt að það yrði miklu erfiðara en það tók enga stund. Ég hafði aldrei farið á svona hátt fjall, hef ekki einu sinni farið á Hvannadalshnúk. Mér leið ekkert eins og ég væri á svona háu fjalli en fann kannski aðeins fyrir hæðinni. Frá Tête Blanche sáum við Matterhorn mjög vel. Ég varð samt fyrir svolitlum vonbrigðum því eg bjóst við að sjá það frá Toblerone sjónarhorninu en þarna leit það ekkert út fyrir að vera Matterhorn. Það var samt æðislega flott.

Við gistum í mjög glæsilegum og stórum skálum í göngunni. Einn hét Chanrion en þar var æðislegt útsýni. Við sáum bjöllukýr og böðuðum okkur í ísköldu vatni. Annar hét Vignette með geggjuðu útsýni, fallega byggður úr steini og svo var ekki slæmt að fá egg og beikon þar í morgunmat.

Urður ásamt föður sínum í yfir 3.000 metra hæð

Uppáhaldsskálinn minn í ferðinni var Bertol skálinn af því að hann var svo hátt uppi og erfitt var að komast að honum. Við komum að stórri skriðu og þá sáum við glitta í Bertol skálann efst uppi. Við fórum upp skriðuna sem var ekkert mál og komum að snjóbrekku. Við fórum hana upp en við vorum ekki í broddum sem mér fannst óþægilegt. Ég náði engu taki á brekkunni, fannst ég alltaf vera að fara að renna og rann alveg nokkrum sinnum áður en ég komst upp brekkuna. Þegar við vorum komin upp hana tóku við margra metra háir stigar, heilir 70 metrar. Við þurftum að fara í belti, vera með hjálm og svo kræktum við karabínum í annað hvert þrep. Þetta var tímafrekt en ótrúlega gaman. Alltaf þegar við héldum að við værum að koma upp bættust við fleiri stigar. Það snjóaði og stigarnir blotnuðu og ég var að frjósa á fingrunum en stigarnir voru samt eitt það skemmtilegasta í ferðinni. Þegar við vorum kominn upp í Bertol skálann vorum við stödd á mjög háum klettum með klikkuðu útsýni.  

Þessi ferð var ótrúleg lífsreynsla og ég lærði svo mikið. Hún var krefjandi og ég komst að því að ég get mun meira en ég hélt. Ég er mjög glöð að hafa ákveðið að fara, að ég hafi gripið tækifærið.