Hvað þarf maður að ganga langt til að finna sig og hvenær veit maður hvort það hafi tekist? Engin veit. Hitt er víst að þörfin fyrir sjálfsleitina er jafngömul mannskepnunni. Sumir kjósa að svala þessari þörf með því að ganga í burtu frá öllu. Og ganga lengi. 

Það eru nokkrir frægir göngustígar í veröldinni sem eru lengri en svo að góð helgi dugi til að ljúka þeim. Þetta eru gjarnan gönguleiðir sem teygja sig yfir fjallgarða, landamæri, milli fylkislína eða fylgja gömlum pílagrímaslóðum. Nöfn eins og Jakobsvegurinn, Kyrrahafshryggsgangan (PCT) og leiðir um Alpana og Pýrenafjöllin eru dæmi um slíkar gönguleiðir. Á öllum þessum leiðum er gangandi fólk en oft er það fólk sem upplifir sig á tímamótum í lífinu. Það kýs að ganga til að skoða lífshlaup sitt, fara yfir tilfinningar, sambönd, missi, gera reikningsskil, rannsaka óbyggðir eigin sálarlífs. Til þessa þarf frið og einfaldan veruleika. Langan veg. Verkefni dagsins er að koma sér frá a til ö. 

Sumir stíganna eru ógnarlangir. Kyrrahafshryggsgangan er rúmlega 4200 kílómetrar og flestir eru um það bil 5 mánuði að klára hana. Hörðustu íþróttamenn hafa náð að ljúka henni á tveimur mánuðum en eru þá að ganga hátt í 50 kílómetra á dag. Algengasta útgáfan af Jakobsveginum er 780 kílómetrar en hún er til í ótal útfærslum og lengdum. Lengri og skemmri. Svo ganga sumir þessar leiðir í áföngum á nokkrum árum. 

Hvað ef fólk vildi leggja fyrir sig slíkt ævintýri á Íslandi? Við fórum yfir þetta verkefni með göngufólkinu Brynhildi Ólafsdóttur, Páli Ásgeiri Ásgeirssyni, Rósu Sigrúnu Jónsdóttur og Einari Skúlasyni yfir funheitri kjötsúpu og Íslandskorti. Fyrsta spurningin sem blasir við er hvað á að ráða leiðarvali? Fegurð, áfangastaðir, áskorunin, sagan, kyrrðin, öryggi, einsemdin? 

Við vorum sammála um það að það yrði að vera áskorun fólgin í verkefninu. Þar þyrfti jafnframt að vera kyrrð og fegurð. Það væri ennfremur mikilvægt að hægt væri að koma viðbótarvistum til valinna áfangastaða á leiðinni. Þegar um er að ræða margra vikna göngu er nær útilokað að bera allan mat til fararinnar. Okkar umræða hverfðist að mestu um tilbúna hugmynd sem Páll Ásgeir mætti með til súpuspjallsins um 500 kílómetra göngu sem hefst í Húsafelli í Borgarfirði og lýkur á Lónsöræfum. 

Fyrst er gengið við jaðar Langjökuls frá Húsafelli, eða endað þar, eftir því hvoru meginn er byrjað.

Þetta er hálendisganga – Öræfaleið, sem þverar miðju Íslands frá vestri til austurs. Páll gerir ráð fyrir því að gengið sé suður fyrir Langjökul og raunar á milli Langjökuls og Þórisjökuls og þaðan að Hagavatni. Stefnt í átt að göngubrúnni við Einifell, neðan við Farið. Þaðan er gengið norðan við Jarlhetturnar í Skálpanes og þaðan inná Kjöl. Á Bláfellshálsi stendur valið á milli þess að fara yfir Hvítánna á brúnni og stefna í Hvítárnes eða að freista þess að fara norður fyrir Hvítárvatnið, þar sem talið er að finna megi gamla þjóðleið frá fyrri öldum. Jökullinn sem fellur ofan í vatnið er orðin mjög ræfilslegur og jöklavant fólk ætti auðvelt með að að krækja yfir hann, halda í Karlsdrátt og svo þaðan áfram fyrir Hrefnubúðir og í skála í Þverbrekknamúla.  

Við erum því annað hvort stödd í Þverbrekknamúla eða Hvítárnesi þegar hér er komið sögu. Nú er farið í Kerlingafjöll.

Frá Kerlingarfjöllum er gengið norður fyrir Vatnajökul, að Öskju.

Þar stendur valið á milli þess að ganga yfir fjöllin og inní Setur eða fara norður fyrir þau, í Þjórársver og svo áfram í Nýjadal á Sprengisandi. Þá er farið um Vonarskarð og frá Gæsavötnum haldið í átt að Öskju og svo yfir Jökulsá við Upptyppinga í átt að Snæfelli og þaðan eru Lónsöræfin þrædd niður að Lóni. Lýkur þar göngunni.

Göngunni lýkur að Lóni.

Á þessari leið mætti senda vistir í skála við Hagavatn, Hvítárnes, Kerlingafjöll, Nýjadal, Öskju og Snæfell svo nokkur dæmi séu tekin. En þetta eru auðvitað bara 500 kílómetrar og mætti ljúka á tæpum mánuði. Hvað ef við viljum fara lengra? 

„Vilji menn ganga enn lengra má bæta við gömlum leiðum með menningarsögulegt gildi.“

Rósa Sigrún bætti við að ef menn vildu þá væri hægt að ganga í vesturátt aftur en að þessu sinni suður undir Vatnajökli. Þvera Skeiðárárjökul yfir í Núpsvötn og halda þaðan í Laka. Þaðan getur leiðin legið norður fyrir Skaftá og ýmist í átt til Veiðivatna eða suðvestur inná Fjallabak um Strútsstíg. Þaðan væri hægt að smokra sér inná Laugaveginn í Landmannalaugar. Stefna í Landmannahelli og Hólaskóg. Halda svo í norðvestur að Kili á ný og svo norður fyrir Langjökul og enda gönguna löngu í Húsafelli.  Þannig mætti sjá fyrir sér áttulaga hringferð um öll helstu öræfi landsins og rúmlega 1000 kílómetra göngu sem tæki allt sumarið að klára. Vilji menn ganga enn lengra má bæta við gömlum leiðum með menningarsögulegt gildi en Einar Skúlason hefur einmitt gengið mikið af þeim á síðustu árum. Hér má nefna póstleiðir, biskupaleið á Mývatnsöræfum, Víknaslóðir fyrir austan og Hornstrandir svo einhver dæmi séu nefnd. Sumar þessara leiða eru þannig að auðvelt er að nálgast vistir enda nærri mannabústöðum og á láglendi. 

Þessari löngu göngu með fegurð og áskorunum, vöðum, sandbleytu, jöklum og giljum var kastað fram í alheiminn í 3.tbl Úti. Ekki leið á löngu þar til sprækir göngugarpar, þeir Kristján Helgi Carrasco og Kristján Birkisson tóku áskoruninni um að ganga leiðina fyrstir. Tíðindi af göngunni má lesa hér.

——

Aðrar langar gönguleiðir í heiminum: 

Appalachian gatan á austurströnd Bandaríkjanna, frá Georgíu til Maine er 3510 kílómetrar.

Suðvesturstrandar leiðin í Bretlandi er 1016 kílómetrar. Hún liggur á milli Minehead í Somerset og fer til Poole Harbour í Dorset.

Te Araroa á Nýja Sjálandi er 3000 kílómetrar teygir sig frá Cape Regina í norðri til Bluff í suðri eða frá Skírinu til Mordor en Nýja Sjáland lék einmitt Miðjörð í Hringadróttinssögu.

Sagnaslóð Herra Samuels og lafði Florence Baker í Súdan og Úganda er ekki nema 805 kílómetrar.

Sentiero á Ítalíu er 6166 kílómetrar. Dólómítarnir, Toscana og Amalfí ströndin á örstuttum 8 mánuðum.

Stóri Himalayastígurinn er 1700 kílómetrar en verður 4500 kílómetrar þegar hann er búinn að stækka. Hann er í vinnslu en er kominn lengst á veg í Nepal þar sem hann skiptist í hærri og lægri leiðir.

Hokkaido náttúrustígurinn í Japan er 4585 kílómetrar og best að skipta göngunni í tvennt, sitthvorum megin við langan veturinn á þessari nyrstu eyju Japans.

Stígurinn í gegnum Panama er 800 kílómetrar. Sviti, kæfandi hiti, moskítóflugnager og aðrar blóðsugur. Allt þetta er í boði áður en gangan hefst.