Kverkfjöll er óvenju tignarlegur fjallgarður í norðurhluta Vatnajökuls sem jafnframt skartar einu stærsta háhitasvæði landsins. Þarna mætast eldur og ís með áberandi hætti en þessir náttúrlegu kraftar móta síbreytilegt umhverfið og gera Kverkfjöll að einstakri náttúrperlu. Hér segir Tómas Guðbjartsson læknir frá þessu uppáhaldssvæði sínu og helstu gönguleiðum. 

„Uppáhalds gönguleið mín á hálendi Íslands liggur upp Vesturfjöll Kverkfjalla að Efri-Hveradal.“

Kverkfjöll er virk eldstöð og þriðja stærsta megineldstöðin á Íslandi á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Í fjöllunum leynast tvær jökulfylltar og samliggjandi öskjur, báðar um 10 x 7 km að stærð, en rimar nyrðri öskjunnar eru íslausir að mestu nema syðst, enda jarðhiti mestur þar. Kverkfjöll gnæfa hátt yfir umhverfi sitt og sjást víða að, m.a. af þjóðveginum við Möðrudal eða af Vatnajökli. Þau draga nafn sitt af hömrum girtri Kverkinni sem klýfur fjallabálkinn í Austurfjöll og Vesturfjöll. Hæsti tindurinn er í Austurfjöllum, 1920 m hár og heitir Skarphéðinstindur en Vesturfjöllin ná hæst í 1860 m hæð. Kverkfjöll eru umlukin jökulís á alla kanta. Stærstir eru skriðjöklarnir Brúarjökull í austri og Dyngjujökull í vestri en um Kverkina rennur krosssprunginn Kverkjökull. Smærri skriðjöklar prýða síðan norðurhlíðar Austurfjalla. 

Við Kverkina. Myndirnar með þessari grein tóku Hermann Þór Snorrason og Ólafur Már Björnsson.

Í vestanverðum Kverkfjöllum er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Sérstaða þess felst ekki aðeins í stærðinni heldur liggur svæðið í allt að 1700 m hæð. Mestur er jarðhitinn í Hveradal sem eru tæpir 3 km að lengd og 1 km á breidd. Efsti hluti hans kallast Efri Hveradalur en við gætt hans er einn stærsti gufuhver landsins, Gámur. Efri Hveradalur er með stórbrotnustu stöðum á Íslandi en gufusoðnar og litríkar hlíðar umlykja leir- og gufuhveri í botni dalsins. Í suðri gnæfir síðan sjálfur Vatnajökull og fyrir framan hann Galtárlón sem oft skartar ísjökum sem fljóta á blágrænu vatni. Galtárlón er annar af tveimur sigkötlum í Kverkfjöllum, en sá vestari kallast því frumlega nafni Gengissig og segja gárungarnir það tengjast óstöðugleika íslensku krónunnar. Nafngiftina má þó fremur rekja til sífelldra breytinga á vatnsyfirborði lónsins sem er næstum 600 m breitt og 100 m djúpt. Gengissig er talið hafa myndast við jarðhræringar árið 1959 en líkt og Galtárlón tæmist það reglulega með tilheyrandi vatnavöxtum í nálægum jökulám. 

Skíðað í Hveradal.

Auðvelt er að komast í Kverkfjöll á jeppa eða jepplingi enda fáar ár á leiðinni og engar vatnsmiklar. Þarna er ekið um einhver fallegustu víðerni landsins en leiðin er seinfarin því úfin hraun og foksandur geta tafið för. Oftast er ekin svokölluð Kverkfjallaleið (F902), sem liggur 90 km í suður frá Möðrudal að Sigurðarskála, einum besta hálendisskála landsins. Mest ber á svörtum eyðisöndum en smám saman birtast Herðubreið og Upptyppingar á hægri hönd. Þegar komið er yfir brúnna á Kreppu liggur leiðin áfram um Krepputungu, í gegnum Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð. Þarna er hvorki sauðfé né hreindýr enda svæðið einangrað af Kreppu í austri, Jökulsá á Fjöllum í vestri og Vatnajökli í suðri. Þótt umhverfið sé gróðurvana er einstök tilfinning að aka um þennan undraheim, ekki síst meðfram óteljandi móbergshnjúkum Kverkfjallarana og yfir úfin hraun sem sum eru frá nútíma. Víða sést ljósgrá skóf á á yfirborði hraunanna og kallast öræfaostur (Stereocaulon arcticum). Önnur leið (F910) í Kverkfjöll liggur úr Herðubreiðarlindum (eða frá Öskju) á brú yfir Jökulsá á Fjöllum sunnan Upptyppinga. Þaðan má komast inn á áðurnefndan veg í Hvannalindir eða aka vestari leið meðfram Lindafjöllum, svokallað Lindabak, inn að Kverkfjallaskarði. Þetta gerir kleift að aka í gegnum Hvannalindir aðra leiðina og Lindabakið hina, jafnvel með viðkomu í Herðubreiðarlindum og Öskju. 

„Fyrir þá sem eiga fjallaskíði er Langafönn með skemmtilegri skíðabrekkum á Íslandi.“

Uppáhalds gönguleið mín á hálendi Íslands liggur upp Vesturfjöll Kverkfjalla að Efri-Hveradal. Þetta er krefjandi ganga sem tekur 10-12 klst. og er aðeins á færi vans göngufólks. Frá Sigurðarskála er 20 mínútna akstur að jökulrönd Kverkjökuls þar sem hægt er að virða fyrir sér íshella sem mega þó muna sinn fífil fegurri. Inn að rótum Vesturfjalla bjóðast tvær gönguleiðir. Áður var oftast farin svokölluð Sandhólaleið sem liggur meðfram sporði Kverkjökuls að syðri hluta Löngfannar. Farið er yfir Volgu á göngubrú og gengið upp vestan megin í Löngufönn meðfram austurbrún Hveradals. Hin síðari ár hefur Langafönn hopað og sprungur orðið meira áberandi, ekki síst nálægt hverasvæðunum. Gönguleið yfir Kverkjökul verður því oft fyrir valinu, enda er hún enn tilkomumeiri en Sandhólaleið. Er þá gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul sem yfirleitt er auðveldur yfirferðar.  Stefnt er á vestari hluta Kverkinnar en þar er varsamasti hluti leiðarinnar því krækja verður fyrir sprungur áður en komist er yfir á Löngufönn. Þar er gengið á snjó en eins og nafnið gefur til kynna er Fönnin löng og reynist því mörgum erfið. Eftir nokkurra klukkustunda göngu er komið að litlum skála Jöklarannsóknarfélagsins sem staðsettur er á svokölluðu Tunnuskeri milli sigkatlanna tveggja. Þar er tilvalið að kasta mæðinni, borða nesti og skrifa í gestabók. Þaðan er haldið í vestur upp á nálægan hrygg þar sem sést ofan í Efri-Hveradal. Útsýnið er engu líkt en auk Galtárlóns má í fjarska sjá Bárðarbungu, Dyngjujökul, Kistufell, Trölladyngju, Dyngjufjöll og sjálfa Herðubreið. Þeir sem ekki eru lofthræddir og eiga orku aflögu geta skellt sér ofan í Efri Hveradal og njóta dýrðarinnar í návígi. Fyrri hluta sumars er hægt að komast brattasta hlutann á snjó en ómerkt leiðin er leirborin og sleip og því ágætt að taka með sér göngustafi og jafnvel ísöxi. Ekki er ráðlegt að heimsækja Efri Hveradal nema í góðu veðri og með staðkunnugum. Ef aðstæður á jöklinum leyfa má halda eystri leið heim yfir Löngufönn og komast þannig að sjálfri Kverkinni. Af brúninni býðst stórbrotið útsýni yfir Austurjöllin og Skarphéðinstind en einnig Snæfell, Kverkfjallarana og Kverkjökul. Fyrir þá sem eiga fjallaskíði er Langafönn með skemmtilegri skíðabrekkum á Íslandi.

Lindabak.

Fyrir þá sem ekki treysta sér í göngu upp Löngufönn eru ýmsir valkostir í boði. Ganga á Virkisfell í nágrenni Sigurðarskála er einstök upplifun, ekki síst í miðnætursól og sjá Herðubreið og Dyngjufjöll bera við rauðleitan himinn. Á Biskupafell er hálfs dags ganga en þaðan býðst frábært útsýni yfir Kverkfjallarana og hægt að virða fyrir sér biskupinn í návígi. Léttari ganga er að íshellunum í Kverkjökli frá Sigurðarskála. Þeir hafa myndast vegna jarðhita og undan þeim rennur jökuláin Volga. Frá íshellunum er hægt að ganga í vestur að upptökum Jökulsár á Fjöllum eða halda í suður og skoða sprunginn sporð Kverkjökuls. Austar er Kverkjökull minna sprunginn og auðveldur uppgöngu. Hann er því kjörinn fyrir nokkurra tíma jöklagöngu. Í Sigurðarskála má skrá sig í slíkar jöklaferðir með leiðsögn og jafnframt leigja jöklabúnað. Loks má nefna heilsdagsgöngu í Hveragil fyrir sprækt göngufólk (32 km báðar leiðir) en þar eru heitar uppsprettur í jökulá sem hægt er að baða sig í.

Það er sérstök tilfinning að koma í Kverkfjöll og flestir sem koma þangað gleyma því aldrei, enda ósnortin víðerni eins og þau gerast best. Svæðið er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs sem tryggir að komandi kynslóðir geti heimsótt þetta stórkostlega og síbreytilega svæði – eins og við getum gert.