Svínafell í Öræfum verður basecamp Öræfajökull um helgar á vorin. Síðustu helgi var svæðið eins og „fjallamennsku – hverjir voru hvar“. Spáin lofaði góðu og stórir leiðangrar voru í kortunum á Hrútsfjallstinda, Hvannadalshnúk, Sveinstind og Þverártindsegg. 

Stór hópur frá Ferðafélagi Íslands var á leið á Hrútsa ásamt sameinuðum hópi frá Veseni og Vergangi og Wild boys að austan, leiddir af Skúla Júll og Einari Skúla.  Þetta voru samtals rúmlega 50 manns og hóparnir voru því sem næst samferða á topp norðurtinds Hrútfellstindanna. Hjalti Björns leiddi hóp Ferðafélagsins og við Brynhildur vorum meðal 5 línustjóra í ferðinni en við skutum eitt innslag í Úti-þættina í leiðangrinum.  Ef einhver finnur leifar af dróna í austurskriðum Hafrafells þá er hann frá okkur og við viljum gjarnan fá þær!

Annar Ferðafélagshópur lagði í hann á skíðum á laugardagsmorgun á Hnúk. Í hópnum voru ferðafélagsstjörnur á borð við Pál Guðmunds, framkvæmdastjóra FÍ, Auði Elvu Kjartans, Helga Jóhannesson, Hilmar Már Aðalsteins, Ólaf Má Björnsson og Auði Ebenezar. 

Inga Dagmar fór með hóp fyrir Fjallskíðun frá Kvískerjum upp að Sveinsgnípu og skíðaði niður aftur sömu leið. Með henni voru meðal annarra Þorvaldur Þórsson (Olli) og Hrafnkell Sigtryggs.

Haraldur Örn frá Fjallafélaginu fór fyrir risahópi gangandi á Þverártindsegg og hafði algeran veðurfarslegan sigur yfir öllum hinum hópunum. Það er að segja Eggin var gjöful á útsýni og blíðviðri allan tímann en allir hinir hóparnir lentu í blindu, roki, snjókomu og erfiðu færi á toppum þó fínasta skíðafæri hafi verið og flott útsýni og veður á leiðinni upp. 

Það voru fagnaðarfundir og góðar fjallasögur sagðar í salnum við tjaldstæðið að Svínafelli á laugardagskvöld. Endorfín og adrenalínrússið lá í loftinu og blandaðist saman við grillreyk og gleðihlátur þreyttra fjallamanna. Á vorin er þessi salur mekka fjallamennskunnar að mínu mati. Auðvitað eru alltaf einhverjar blúndur sem kjósa að gista á hóteli, nefnum engin nöfn, en allt alvöru fjalla- og útivistarfólk sefur þarna sælt í tjaldi sínu við lambajarm og lóusöng. Þá fyrst finnst manni sumarið vera komið. Þó snjóað hafi á tjöldin.