Félagarnir Aron Andrew Rúnarsson, Pétur Stefánsson og Sigurgeir Halldórsson (Sippi) æfðu allir skíði þegar þeir voru yngri. Þeir hafa vakið stigvaxandi athygli undanfarin ár fyrir ástríðu sína sem snýst um að skíða á Íslandi minnst einu sinni á mánuði, allan ársins hring. Þegar Úti tímarit ræddi við þá höfðu þeir skíðað allt árið í fimm ár.

Texti: Róbert Marshall. Myndir: fjallageitur.com

Veturinn 2013 til 2014 byrjaði skíðatímabilið snemma. Æfingar hófust í Bláfjöllum í nóvember og þeir Aron, Pétur og Sippi voru í fjallinu alla daga þegar opið var. 

„Við vorum allir nýbyrjaðir að stunda fjallaskíði og þennan veturinn fórum við nokkrar styttri ferðir. Um páskana þetta ár tókum við heila viku af brölti hér og þar á Tröllaskaganum og þá vorum við endanlega komnir með fjallaskíðabakteríuna. Í júní þetta ár fórum við ásamt nokkrum vinum í útilegu í Jökulfirðina fyrir vestan og höfðum skíðin með. Þar kom upp sú hugmynd að fyrst að við vorum búnir að vera á skíðum þá þegar í 8 mánuði í röð að við ættum nú að halda áfram og klára árið. Fyrsta sumarið skíðuðum við mikið í sköflum sem eftir voru hér og þar um landið. Skaflarnir voru þó alltaf það stórir að hægt var að taka nokkrar beygjur í þeim. Það sumarið skíðuðum við meðal annars á Tröllaskaga, á Snæfellsjökli en þó líka í seinustu sköflunum í Bláfjöllum. Um haustið komumst við strax að því hvað átti eftir að vera erfiðast, en seinustu auðfundnu skaflarnir hverfa í október og nóvember svo að þá mánuði þarf oft að fara í lengri ferðir til að finna snjó.  Leið okkar hefur þá oftar en ekki legið upp á hálendið til að finna okkur brekkur til að skíða í.“ segir Aron Andrew. 

Gengið upp Mæni. Í október 2018 höfðu félagarnir náð að fara á skíði í 60 mánuði í röð, eða í heil fimm ár.

Hann segir að þeir hafi verið búnir að skíða í 14 mánuði í röð í lok árs 2014 og þá leikur einn að halda áfram því allur veturinn var framundan. „Með þessu vorum við búnir að koma okkur í ákveðin vandræði. Við tímdum ekki að hætta að safna mánuðum. Í október 2018 vorum við búnir að fara á skíði í 60 mánuði í röð, eða 5 heil ár.“

Á þessum fimm árum þróuðust ferðirnar ansi mikið. Í upphafi voru þetta oftast dagsferðir. „Það var í flestum tilvikum ákveðið kvöldið áður að skella sér á skíði og staðan tekin yfir kaffibolla í bakaríinu um morguninn, veðurspáin skoðuð og ákveðið í hvaða átt skyldi keyra úr bænum. Þessi aðferðafræði gerði ferðirnar oftar en ekki lengri en til stóð og sjaldnast náðum við í heitapottinn sem átti að enda daginn á, en engu að síður urðu ferðirnar þeim mun eftirminnilegri fyrir vikið.“ 

Það kom þó aldrei fyrir að gripið var í tómt, en ef Veðurstofan héldi úti skaflaspá yfir sumartímann hefði það gert líf þeirra félaga mun auðveldara. „Nú uppá síðkastið höfum við þó girt okkur í brók, skipulagt okkur betur, oftast ferðast lengra en þá skíðað mun betri brekkur fyrir vikið.“

Félagarnir. Sjá má fleiri myndir á fjallageitur.com og á Instagram undir #skíðaallamánuðiársins

Oft hafa fleiri vinir og kunningjar fengið að fljóta með og úr orðið fjölmennar og skemmtilegar ferðir.  „Það kemur þó alveg fyrir að við hálfpartinn gleymum okkur og sjáum fram á örfáa lausa daga eftir í mánuðinum og veðurspáin slæm. Útfrá því hafa til dæmis orðið til uppfinningar eins og hversu mikil snilld það er að hirða einnnota sturtuhettur af hótelherbergjum til að nota sem regnhlífar á skíðaskó þegar búnaðurinn er borinn á bakinu upp fjöll í slagveðri.“

Þeir hafa komið víða við á þessum 60 mánuðum og sumar brekkurnar eru minnisstæðari en aðrar.  Sem dæmi má nefna fyrrnefnda Jökulfjarðaferð í júní 2014, Hlöðufell í nýsnævi í október 2015, Mænir í Kerlingarfjöllum í úrhelli 2015, Snæfellsjökull í blíðskaparveðri í ágúst 2018, Bláhnúkur í Landmannalaugum í júlí 2018 og snilldar vorferð austur á firði í maí 2018 sem verður klárlega endurtekin enda stórkostlegar brekkur að finna fyrir austan.

Gengið upp Snækoll í Kerlingarfjöllum.

Í svona ævintýrum reynir vel á búnaðinn. Botnar á skíðum fá að finna fyrir því annað slagið. Skíðaskór slitna hraðar á göngu í grjóti og skinn virðast endast illa í rigningu og lyngi. Með árunum hefur búnaðurinn einnig breyst, en eftir að hafa burðast mikið með hann á bakinu upp snjólaus fjöll og skíða í íslensku hjarni og þröngum snjóléttum giljum hafa þeir skipt yfir í léttari og meðfærilegri búnað.

„Það er fólk úti í heimi að gera svipaða hluti. Við höfum rekist á greinar um fólk sem er komið yfir 10 ár samfleytt. Við erum þó allir rétt um þrítugt og því rétt að byrja, en þetta hlýtur að vera Íslandsmet.“ segir Aron Andrew. Þeir félagar hafa haldið utanum allar ferðir frá upphafi í excel skjali en eftir að fólk fór að sýna verkefninu aukinn áhuga ákváðu þeir félagar að poppa þetta upp með ferðasögum og myndum á fjallageitur.is svo áhugasamir geti fylgst með.