Um helgina var Sigló Freeride Weekend haldin hátíðlega á Siglufirði í fyrsta sinn. Þar kom saman fólk á öllum aldri og getustigum til að renna sér á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Bjart var yfir firðinum og létt yfir fólki, sem sumt mætti aðeins til að skemmta sér á meðan aðrir mættu til að sigra.

Að baki hátíðarinnar standa íslenska framleiðslufyrirtækið The Empire og Freeride World Tour. Freeride World Tour samtökin hafa staðið fyrir 130 viðburðum, með meira en 4.000 þátttakendum í utanbrautarkeppnum úti um allan heim.

Hápunktur Sigló Freeride Weekend var keppni í utanbrautarrennsli með frjálsri aðferð. Þátttakendur voru 63 talsins í flokki fullorðinna og ungmenna og kepptu þeir ýmist á skíðum eða snjóbretti. Undanúrslit fóru fram á föstudeginum þar sem keppendur renndu sér niður af Grashólabrún Illviðrishnjúk nyrðri. Á meðan horfði dómnefnd á og ýmist gaf eða dró frá keppendum stig fyrir tækni, stjórn og stökk. Dómnefndin í ár var skipuð þaulreyndum utanbrautarköppum, þeim Benjamin Calmel, Daníel Guðmundssyni og Guillaume Kollibay. Tuttugu og sex manns komust áfram í úrslitakeppnina sem fór fram á Illviðrishnjúk syðsta, strax daginn eftir.

Stressið leyndi sér ekki á laugardeginum enda virkar leiðin niður Illviðrishnjúk syðsta álíka óhugnaleg og nafnið gefur til kynna. Í það minnsta fyrir þeim sem ekki þekkja sig til á svæðinu. Keppendur sýndu hinsvegar af sér mikinn kjark og komust allir heilir niður á endanum. Hér eru þeir keppendur sem komust á pall í sínum flokki:

U-16 skíði

U-16 skíði

Frá vinstri: Hákon Sölvason, Gauti Guðmundsson og Máni Hafsteinsson

 

U-18 skíði

U-18 skíði

Frá vinstri: Sölvi Stefánsson, Jón Hákon Garðarsson og Daniel Rosazza

U-18 snjóbretti

U-18 snjóbretti

Frá vinstri: Lena Ásgeirsdóttir, Stefán Ólafsson og Viktor Viktorsson

Skíði karla

Skíði karla

Frá vinstri: Björn Ingason, Sigurgeir Halldórsson og Kristján Kristjánsson

Skíði kvenna

Skíði kvenna

Frá vinstri: Liz Stevenson, Erla Helgadóttir og Dagný Kristjánsdóttir

Snjóbretti karla

Snjóbretti karla

Frá vinstri: Beda Mörgeli, Allu Penttala og Rúnar Hjörleifsson

Snjóbretti kvenna

Snjóbretti kvenna

Frá vinstri: Sólveig Pétursdóttir, Lisa Bjurstrom og Anna Stefansdottir

Við hefðum aldrei geta gert þetta nema fyrir frábært fólk sem lagði svo mikla vinnu á sig til að allt gengi vel

maggi

Magnús Arturo Batista, einn skipuleggjenda Sigló Freeride Weekend er afar ánægður með það hvernig hátíðin heppnaðist og þakkar það góðri hjálp. Hann er strax farinn að hlakka til að halda hátíðina aftur að ári liðnu.

„Það virðist sem keppendur, áhorfendur og allir sem komu að hátíðinni hafi skemmt sér mjög vel. Við gætum því ekki verið ánægðari með útkomuna! Við bjuggumst alls ekki við að enda með sextíu og þrjá keppendur og hvað þá að flestir þeirra yrðu íslenskir. Það kom bæði okkur og Benjamin Calmel, dómara frá Freeride World Tour, á óvart hversu hátt getustig keppenda var heilt yfir. Hann sagði úrslitahlíðina jafnast á við þriggja stjörnu keppnishlíð en á Siglufirði fór fram tveggja stjörnu keppni. Það er því ljóst að við eigum gríðarlega hæfileikaríka keppendur sem geta gert allskonar flotta hluti í erfiðum hlíðum! Við stefnum á að halda viðburðinn árlega á Siglufirði. Það er ótrúlegt að hafa fengið allt þetta flotta fólk í lið með okkur, keppendur og þá sem hjálpuðu í kring um keppnishaldið. Sérstakar þakkir viljum við færa starfsfólki skíðasvæðisins í Skarðsdal. Við hefðum aldrei geta gert þetta nema fyrir frábært fólk sem lagði svo mikla vinnu á sig til að allt gengi vel. Ég held að þessa viðburðar verði alltaf minnst með mikilli gleði sem epíska upphafsárið!“

This slideshow requires JavaScript.

Við hjá Úti viljum óska aðstandendum Sigló Freeride Weekend til hamingju með virkilega vel lukkaða hátíð og eins keppendum fyrir frábæran árangur á mótinu.