Í mínum huga er hálendi Íslands aðallega Fjallabak. Ég ber auðvitað taugar til Kjalar og Sprengisands og þykir óendanlega vænt um Veiðivatnasvæðið. En þegar ég hugsa um hálendi, öræfi, víðerni þá er ég ósjálfrátt að hugsa um Friðlandið að Fjallabaki. Innganginn að Bjallarvaði. Opnunina inní Laugar, dularfullt marglitað Jökulgilið, skálann við Hrafntinnusker, að standa ofan við Jökultungurnar og horfa niður til Álftavatns með Eyjafjallajökul í bakgrunni. Finnast maður eiga heiminn. Dalakofinn og Laufafellið. Hvanngil, Strútur og Strútslaug. Álftavatnakrókur. Mælifell. Töfrastaðir allir saman.  

Allan þennan samanþjappaða fjölbreytileika í vötnum, kvíslum, grænmosuðum tindum og svörtum söndum. Þetta umfaðmandi einskismannsland sem leyfir manni að þvælast um sig ár eftir ár og sýnir manni alltaf eitthvað nýtt og spennandi í hverri ferð. Lætur manni líða eins og landkönnuði. Gerir mann frjálsan. 

Síðustu ár hef ég farið oftar og oftar að vetri. Þegar allt er hvítt og hreint. Þegar Friðlandið verður í orðsins merkingu friðland. Ferðafélagið biður mig stundum um að taka skálavarðavaktir í Landmannalaugum og ég reyni alltaf að verða við því. Elska kyrrðina. Nýt einverunnar. Hugleiði. Geng. Þríf og hreinsa. Sé um staðinn.  

Núna um helgina voru tvö ævintýri. Á föstudegi fórum við á sleðum inní Laugar með fjallaskíði. Prófuðum gil við Norðurnámur, rótuðum upp í grófan prófíl og þurftum ekki að moka mikið til að sjá hversu lagskipt og laus snjólögin voru. Snjóflóðahætta. Inni í Jökulgili í minni bratta og þéttari snjó keyrðum við upp hálfa Kjaftölduna, skinnuðum restina, skíðuðum niður í gilið og skinnuðum upp Reykjakollinn. Ekki mikil vinna fyrir frábært rennsli til baka og fjölbreytt. Eitthvað fyrir alla. Dásemdardagur. Ævintýradagur. Ekki ský á himni. 

Mjög líklega stærsti hópur skíðamanna sem komið hefur í Landmannalaugar í einni ferð.

Á laugardag fórum við 89 talsins. Þar af 84 FÍ Landvættir á gönguskíðum frá Sigöldu og inní Landmannalaugar. Gengið var til baka sömu leið daginn eftir. Samtals 50 kílómetrar. Þetta er í fjórða skiptið sem við framkvæmum þessa ferð með hópi fólks og komin góð reynsla. Vélsleðar sem fylgja til öryggis, spor lagt svo hægt sé að fara á léttum brautarskíðum, trússbílar með allra nauðsynlegasta farangur hvers og eins. Bað, sameiginlegur matur og kvöldvaka. Beisik, eins og sagt er. 

Spor af einföldustu gerð. Ekki fullkomið en dugar svo hægt sé að fara létt yfir á brautarskíðum.

Hversu nærandi svona dagar eru. Svo þegar allt er búið: Næstum hundrað manns í sameiginlegu adrenalín og endorfín-hamingjurússi. Það er ekkert sem toppar slíkt. Fólk með hreyfiofsa normalíserast með hvort öðru í konungsríki heimskautanáttúrunnar. Þvílíkur fjársjóður. Þriggja tíma keyrsla frá Reykjavík og þarna bíða á hvítum og bláum vordögum; fjallasalir, skjannhvítar sléttur, hrikalegir tindar. Himnaríki. Sem segir: velkomin, verið frjáls.