Í annríki dagsins getur reynst erfitt að finna tíma til þess að stunda líkamsrækt. Fyrir foreldra ungra barna getur það reynst enn erfiðara og eru margir þjakaðir samviskubiti yfir því hve litlum tíma þeir verja með börnunum sínum. Þá er gott að geta tekið þau með á æfingu.

Kerruhlaup er frábær alhliða hreyfing sem sameinar útivist og samveru barns og foreldris. Hægt er að stunda kerruhlaup nánast hvar og hvenær sem er – það eina sem þarf eru góðir skór og hlaupakerra.

Micralite hlaupakerra

Micralite FastFold

Hlaupakerrur eru þó ekki allar skapaðar jafnar og því mikilvægt að vanda valið vel. Nýja FastFold hlaupakerran frá Micralite hefur verið að fá frábæra dóma og fengum við að prófa eina slíka hjá barnavöruversluninni Dóttir og son. Svona er kerrunni lýst á vefsíðu þeirra:

„Þú getur farið með þessa hvert sem er, hvort sem þú ert að leita að góðri kerru í borginni eða ójafnara undirlagi á fjallastígum þá kemur þessi þér alla leið.“

Þetta er okkar álit:

Kostir
Einfalt er að setja kerruna saman og eins að leggja hana saman. Þegar kerran er samanlögð stendur hún upprétt, án stuðnings, svo það fer lítið fyrir henni þegar hún er ekki í notkun. Kerran er létt og lætur vel að stjórn. Á henni eru gróf dekk, sem hafa góða fjöðrun og rúllar hún því án erfiðis á malbiki, í möl, mold eða snjó. Hægt er að stilla handfangið á henni eftir hentugsemi. Ofan á kerrunni er lítill gluggi sem hægt er að renna frá og sjá barnið í gegnum. Með kerrunni fylgir regnslá sem er alger nauðsyn hér á Íslandi.

Gallar
Kerran er ekki hlýleg og því verður maður að eiga góðan kerrupoka til að hafa barnið í á köldustu dögunum. Hægt er að lækka sætið á kerrunni en þó ekki alveg niður í lárétta stöðu. Eins mætti sólskyggnið á henni ná lengra niður. Karfan undir kerrunni er lítil og þvert yfir hana gengur band sem ekki er hægt að losa. Það er því ekki margt sem kemst fyrir í körfunni. Á kerruna þykir okkur vanta stöng fyrir fætur barnsins til að hvíla á, lítið hólf sem rúmar síma eða Ipod, nær handfanginu og öryggisband til að hafa utan um úlnliðinn, svo maður missir kerruna ekki frá sér.

DSCF9608

Heilt á litið er Micralite FastFold flott hlaupakerra. Hún hefur vissulega marga góða kosti en er ekki gallalaus frekar en aðrar kerrur. Hún gerir það sem gera þarf og gerir það bara nokkuð vel. Micralite FastFold fæst í vefverslun Dóttir og Son á 59.000 kr. Fyrir þann pening teljum við kerruna fínustu fjárfestingu. Það er nefnilega ekki hægt að setja verðmiða á frelsið sem fylgir því að geta tekið æfingu án þess að þurfa hafa áhyggjur af barnapössun.

Myndir: Benedikt S. Gylfason