Í gær skein sól í heiði og sindrandi snjórinn svoleiðis grátbað mann að koma út að leika. Við stóðumst ekki mátið og skelltum okkur í hressandi feithjólatúr um Sporið.

Fyrir þá sem ekki vita er Sporið tilraunaverkefni Icebike Adventures. Þegar snjór og veður leyfir er troðið svokallað spor á vetrarstíg inni í Heiðmörk, fyrir alla þá sem þar vilja hjóla, skíða eða ganga. Verkefnið er unnið í sjálfboðavinnu og með fullu leyfi staðarhaldara, í þeim tilgangi að þróa fleiri leiðir til að njóta útiveru á veturna. 

Á Facebooksíðu verkefnisins er hægt að sjá upplýsingar um ástand Sporsins þegar við á. Öllum er velkomið að nýta sér sporið en best er að hlífa sporinu ef snjórinn er of mjúkur.

Við getum svo sannarlega mælt með Sporinu á góðum degi og lofsyngjum öðlingana hjá Icebike Adventures fyrir að leggja vinnuna á sig svo við hin getum notið.

DSCF9139

DSCF9179

DSCF9149

DSCF9172