Það verður að segjast eins og er þeir félagarnir í fjallateyminu sem halda úti vefnum climbing.is gera svifflugið mjög aðlaðandi. Við höfðum ákveðið að þetta væri sport sem þyrfti að bíða með þar til maður væri í hárri elli og saddur lífdaga. Hér eru þeir að svífa niður af Eyjafjallajökli í þvílíku blíðuveðri. Þetta hlýtur að vera gaman. Þetta eru þeir Armas og Bjartmar í febrúar. Þeir lýsa þessu svona:

„Þegar nálgast var toppinn var kominn léttur andvari frá vestri sem var gott til að taka á loft í. 4 tímum eftir að lagt var að stað frá bílnum var toppi Eyjafjallajökuls náð. Þar tók við flott útsýni í allar áttir og vindur frá vestri. Ákveðið var að finna góðan aftökustað í mýkri snjó en að taka af stað í frostnu harðfenni á toppnum.

Þegar réttur staður var fundinn var allt gert klárt fyrir flug niður. Léttur vindur af suðvestri gerði aftökuna auðvelda og við tók svif niður í bíl, úr ca. 1600 m hæð næstum niður á sjávarmál. Flugið niður var ógleymanlegt. Svifið var yfir sprungusvæði, meðfram hryggjum og niður með gljúfri. Flugið niður tók um 15 mínútur og lentum við hjá bílnum. Pakkað saman og keyrt til baka í bæinn með stórt bros eftir frábæran dag.“