„Sá sem heggur svona tré getur verið dæmdur í allt að sex ára fangelsi,“ sagði þrekinn kólumbískur kaffibóndi okkur og benti á hátt og mjótt vaxpálmatré á landareign sinni. „Þetta er þjóðartré Kólumbíu.“ 

Margur glæpakóngurinn hefur því miður í gegnum tíðina fært þessu ægifagra landi, Kólumbíu, nokkuð blettótt orðspor, svo illt á köflum að margir tengja landið við miklar ógnir og hættur. En það má efast um að nokkur glæpamaðurinn, jafnvel ekki hinir forhertustu, hafi vogað sér að höggva vaxpálmatré. Kaffibóndinn færði okkur þennan lagalega fróðleiksmola með svoleiðis áherslu, og þannig svip, að mjög auðvelt var að draga þá ályktun að þetta myndi aldrei nokkurn tímann nokkur Kólumbíubúi getað hugsað sér að gera. Að höggva vaxpálma? Aldrei. 

Ef svona pálmatré yrði sett í plasthólk í Vogunum myndi listaverkið slaga vel upp í Hallgrímskirkju.

Þetta eru ótrúleg tré. Vaxpálmar (ceroxylon quindiuense) eru eins og sendir til þessa heims úr einhverri allt annarri veröld. Þeir eru eins og teikningar eftir Dr. Seuss. Þeir geta orðið allt að 60 metra háir. Þeir eru örmjóir og með nokkur pálmalauf á toppnum. Þannig stingast þeir í jörðina og svigna í allar áttir. Aldrei á ævinni höfðum við fjölskyldan séð nokkuð þessu líkt, plöntulega séð. 

Það er best að sjá vaxpálmana í Cocoradalnum í kaffihéruðum Kólumbíu. Valle de Cocora er rétt hjá smábænum Salento, í um 1800 metra hæð í fjöllunum milli Bogotá og Kyrrahafsstrandarinnar. Þetta er verulega fallegt landsvæði. Grónar brattar hlíðar, tilkomumiklir tindar og djúpir dalir einkenna sjóndeidarhringinn. Þarna er einstök gróðursæld. Jarðvegurinn er frábær fyrir kaffibaunarækt. Ef maður fer á þetta svæði verður maður að heimsækja kaffirækt og fræðast um hvernig hágæðakaffi verður til, frá byrjun. Og smakka brakandi ferskt kaffi beint frá bónda. 

Engin viðurlög eru við því ef maður gerir þetta ekki, nema auðvitað sex ára nag í handabökin af eftirsjá. Þetta tvennt er einfaldlega eitthvað sem maður gerir í Salento, og nágrannabyggðum: Að fræðast um kaffi og skoða vaxpálmana í Cocora. 

Fleiri gönguleiðir eru um Cocoradalinn, en hin algengasta liggur í hring og byrjar, eða endar, við vaxpálmana.

Maður getur skoðað vaxpálmana með því einfaldlega að taka leigara (jeppa) frá Salento og ganga síðan smá, og aftur til baka í leigara. En auðvitað er það ekkert fútt. Það sem er best að gera — til þess að upplifa almennilega þessa stórbrotnu náttúru sem þarna er — er að fara í fimm tíma göngu (13km) á stíg upp í fjallshlíðarnar í dalnum, og aftur niður. Við gengum af stað um hádegisbil, fjölskyldan. Líklega fórum við öfugan hring. Flestir enda á vaxpálmunum, en við byrjuðum á þeim. Okkur fannst það ekkert verra. 

Stellingin sem þurfti að fara í til að taka þessa mynd vakti kátínu.

Maður tekur myndir eiginlega í hverju skrefi. Manni finnst alls staðar vera eitthvað myndrænt í þessu landslagi. Í um klukkutíma, einn og hálfan, gengum við á milli þessara furðulegu trjáa. Svo lá leiðin upp í skóglendi, svokallaðan þokuskóg eða cloudforest, sem er ekki beint regnskógur heldur rakur skógur, út af því að hann vex á svæði þar sem heitt mætir köldu og þoka myndast með tilheyrandi raka. Gróðurinn verður því svolítið sérstakur. Það vex gróður á gróðrinum, í allar áttir. Þarna er gróður á gróður ofan. 

Það er gaman sem fjölskylda að ganga í gegnum svona skóg, sérstaklega eftir að hafa gengið í gegnum vaxpálmaundrið. Hvarvetna er eitthvað að sjá. Gangan var hálfnuð á hæsti punkti. Þar er lítill sveitabær í um 2800 metra hæð. Krökkunum (og okkur hjónum líka) fannst það alveg smá gaman að vera komin upp á fjall, rétt sísvona, sem er um 700 metrum hærra en hæsti tindur Íslands. Slíkt getur hent í þessu fjalllendi. Alveg óvart. 

Þetta er ágætt landslag.

Við nutum útsýnisins og héldum svo niður á við, á bröttum stíg hlíðarinnar. Kólibrífuglar fljúga þarna um, í alls kyns litum. Þeir eru eins og vaxpálmarnir. Stórmerkilegir. Eftir tæplega fimm tíma göngu, með kakó-stoppi á öðrum litlum bæ (Kólumbíubúar drekka súkkulaði með osti ofan í. Svolítið spes), komum við loksins að graslendi. Við hugsuðum landslagið dálítið í bíómyndum: Við gengum út úr Jurassic Park og inn í Narníu. 

Þar gerði þrumuveður, undir lokin, með tilheyrandi hellidembu. Thor var mættur. Það var hressandi. Við komum alsæl á leiðarenda, en vot. Svo kom regnbogi. 

Kólumbía er ekki lengur hættuleg, nema mögulega einstaka afskekt héröð. Friður komst á með samningum milli skæruliða og stjórnvalda fyrir nokkrum árum. Hann hefur haldist. Og mikið rosalega eru það góð tíðindi, ekki bara fyrir íbúa þessa stórmerkilega lands, heldur heiminn allan. Kólumbía, þetta tæplega fimmtíu milljón manna land með ótrúlegu fjölbreyttu dýralífi, menningu, sögu og náttúru, hefur opnast og undur þess þar með líka, fyrir mannkyn allt að upplifa. Eins og einn leigubílstjórinn orðaði það við okkur í höfuðborginni: „Nú get ég loksins ferðast um landið mitt.“ 

Og við um hans.

———

Langar þig til Kólumbíu? Hægt er að finna góð fargjöld til Cartagena, á Kyrrahafsströndinni, frá Bandaríkjunum, ekki síst Flórída. Þaðan er síðan hægt að ferðast með ódýru innanlandsflugi, eða rútum, hvert á land sem er innan Kólumbíu. (Tja, kannski ekki alveg hvert sem er. Enn eru til landssvæði í Kólumbíu sem eru nánast alveg ókönnuð, sem er svoldið magnað. Inn í þá svörtustu frumskóga liggja hvorki vegir né stígar.)

——— 

Viltu fylgjast með okkur?

Við hjónin, Gummi, Alexía og börnin Jói og Edda, erum á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku þessa mánuðina. Þú getur fylgst með okkur á Instagram: @guslextravel.

Svo koma auðvitað fleiri greinar hér 🙂