Hópur á vegum Ferðafélags Íslands, FÍ Landkönnuðir, fór á gönguskíðum til Djúpavíkur* á Ströndum um helgina. Hér er ferðasaga Karenar Kjartansdóttur:

Þetta var einn af þessum föstudögum, úti var hríðarbylur og vinnuvikan var búin að vera strembin – föstudagur þar sem sófi, hvíld, snakk og breskir glæpaþættir virka sérlega aðlaðandi.

Mér þótti hrollvekjandi til þess að hugsa að hafa skráð mig í skíðaferð á Ströndum daginn eftir, skíðaferð sem myndi útheimta það að vakna klukkan fimm á laugardagsmorgni svo ég gæti nú gengið úr Sunndal yfir Trékyllisheiði og yfir í Djúpavík í snjó og kulda. Hvað hafði ég verið að hugsa? Hvað gat ég gert? Hafði ég ekki skyldum að gegna?

Ég var búin að ræða við ferðavinkonur mínar, þær Þóreyju og Birnu um að vera samferða úr bænum. Þær virtust reyndar jafn lítið spenntar og ég en engin okkar virtist finna nægilega góða afsökun til að bakka út úr ferðinni. Ég skoðaði ferðaþráð tilvonandi ferðafélaga í skíðaferðinni sem ræddu um veðurglugga og færð. Í hálfgerðri kaldhæðni skrifaði ég á þráðinn: „Dí! Hvað ég hlakka til.“ Það skrítna gerðist þó að við það helltist smá eftirvænting yfir mig.

Ég ákvað að forgangsraða og fór strax eftir vinnu og valdi lit á herbergi dótturinnar. Kom heim, límdi málingarteip skipulega um glugga og lista og málaði fyrstu umferðina á tvo veggi. Pantaði svo pizzu, borðaði sæl með fjölskyldunni, gekk frá og málaði umferð númer tvö, reif málingarteipið af og upplifði mig sem fullkomna móður. Pakkaði svo skipulega niður í tösku með lista frá Brynhildi Ólafsdóttur að leiðarljósi. Ég svaf samt illa og hluti heilans gerði lokatilraun til að sannfæra mig um að ég væri ekki í nokkru standi til að leggja í skíðaferð yfir eyðiheiði inn í Djúpavík: „Vertu skynsöm!“ sagði hugur minn veinandi af gremju. Sem betur fer hef ég nær aldrei látið undan tilraunum huga míns um að fara varlega.

Karen og Brynhildur, fararstjóri, við eina af stæðilegum vörðunum á leiðinni.

Klukkan sex á laugardagsmorgni vorum við á leið úr Reykjavík og á Strandir í þæfingsfærð. Um tíu leytið lögðum við af stað úr Sunndal í blíðskaparveðri. Þetta var alveg ánægjulegt svo sem og hópurinn vonaðist til þess að þetta veður héldist. Við ystu sjónarrönd sáum við samt hríðarbyl. Skyndilega stoppaði brautryðjandinn Brynhildur og bað okkur sporgöngumenn sína að bæta á okkur hlífðarklæðnaði. Ég setti á mig skíðagleraugu og bætti við buffi.

Veðrið skall á og áfram héldum við á eftir Brynhildi í blindu trausti. Og einmitt þá byrjaði ævintýrið, stæðilegar vörðurnar á heiðinni fengu á sig huldukenndan ævintýrablæ. Fortíðin virtist þyrlast upp með snjónum og einhver barnsleg gleði altók mig. Í góðum hlífðarfatnaði og í traustum félagsskap er ferð á skíðum eftir fornri þjóðleið ferð um töfraheim. Á slíkum stað skellir fullorðið fólk upp úr þegar það dettur ítrekað enda nær ómögulegt að greina á milli harðfennis og mjúkra snjóskafla. Á slíkum stað fyllist maður lotningu yfir dugnaði forfeðrana fyrir að reisa vörður af jafn miklum myndugleik og á slíkum stað hellist kátínan yfir því að fá að vera til og taka þátt í ævintýrum yfir mann af svo miklum krafti að maður veit ekki hvernig maður á að láta.

Veðrið skall á og áfram héldum við á eftir Brynhildi í blindu trausti. Vörðurnar á heiðinni fengu á sig huldukenndan ævintýrablæ.

Vissulega tók ferðin samt á og því fylgdi einnig fögnuður að komast loks í Djúpavík og á þetta líka undurfallega hótel sem þar hefur verið byggt upp í gömlu húsi. Hversu dásamleg forréttindi eru það fá að upplifa þvílíkt og annað eins og með jafn stórkostlegum hópi af fólki? Í þessu samhengi má taka fram að ég held að fólk sé aldrei jafn skemmtilegt og á fjöllum. Þar sem dægurþrasið er ekki til, þar sem markmiðið er eitt og sameiginlegt.

Heiti potturinn í Djúpuvík. Sjaldan er heitt bað jafn verðskuldað eins og eftir strembinn dag á fjöllum.

Á sunnudeginum litum við í gömlu síldarverksmiðjunni og fengum innlit í fortíð staðarins. Við festum svo skinninn undir skíðin og héldum af stað til baka. Það var bjart framundan í bókstaflegri og ljóðrænni merkingu. Ég áttaði mig á því að ég hafði engan svikið með því að laumast úr hversdagsleikanum í nokkrar klukkustundir en kom til baka með fangið fullt af gleði. Já, og kannski með smá strengi í öxlum og svona. Og af þessu hefði ég getað misst af ef sá hluti heilans sem sífellt boðar leti í nafni skynsemi hefði haft yfirhöndina.

*Þú ert eflaust að velta þessu fyrir þér en Djúpavík er fleirtöluorð (vík djúpanna) og beygist því Djúpavík, Djúpavík, Djúpavík, Djúpavíkur.