Það var á fjallstoppi í Ítölsku Dólómítunum sem ég heyrði fyrst um Revelstoke. Ég var að tala við tvo Kanadamenn sem toppuðu á sama tíma og sagðist lengi hafa ætlað á skíði til Whistler. Þar er bara fólk og peningar sögðu þeir. Farðu til Revelstoke. Maður á að hlusta á svona ráð. Þannig hef ég lent í skemmtilegustu ævintýrunum. 

Hálfu ári síðar var ég mættur til Revy, eins og skíðarónar kalla þennan litla bæ í Bresku Kólumbíu með ástarglampa í augunum. Þetta er eitt stykki Akranes. 7000 manna bær sem varð til vegna þess að þarna komst járnbrautarlestin á milli fjallanna í átt að vesturströndinni og skíðasvæðið er splunkunýtt; opnaði 2007. 

Það er frábært að skíða þarna þegar vel hefur snjóað. Og á þessu svæði eru dæmi um allt að 25 metra snjókomu á einum vetri. Þurrt og fiðurkennt púður.  Stórar, langar, víðar og snjómiklar brekkur með endalausum möguleikum til að fara utanbrautar, á milli trjáa, niður gil og eftir hryggjum. Margir ganga ofar en efsta lyftan nær til að skíða ofan í norðurskálina svokölluðu. Þarna eru bara fjórar lyftur en þær eru ótrúlega hraðar og vegna þess að Mount Mackenzie er stórt fjall eru 69 ólíkar leiðir niður af því. Nokkrar leiðirnar eru tvöfaldur svartur demantur en svo nefnast erfiðustu skíðaleiðirnar og margir reyna sig við þær því þarna skíða gríðarlega færir skíðamenn. En svo er þarna eitthvað fyrir alla.  

Skíðasvæðið í Revelstoke er í Mackenzie fjalli rétt fyrir utan bæinn. Það eru rútur en mun þægilegra er að vera með bílaleigubíl. Veitingastaðirnir í bænum eru frábærir.

Veitingastaðirnir í Revelstoke eru frábærir og sérstök ástæða til að mæla með Taco Club sem er bæði ódýr og góður og Quartermaster Eatery sem er aðeins fínni en þar borgar sig að panta borð. Sundlaugin í bænum er með góðum heitum potti og fínu gufubaði. Íbúar í Kanada eru annálaðir fyrir kurteisi og alþýðuskap þannig að manni líður eins og heima hjá sér. Þetta er svolítið ferðalag: 7 tíma flug og 6 tíma akstur frá Vancouver til Revelstoke. Við vorum tvö í 6 nætur og greiddum fyrir flug, gistingu, bílaleigubíll og skíðapassa í 4 daga um það bil 250 þúsund.