Líklegt er að þú hafir heyrt Wim Hof nefndan á nafn í tengslum við námskeiðið “Hættu að væla og komdu að kæla”. En hver er maðurinn?

Wim Hof, stundum kallaður ísmaðurinn, er hollenskur jaðaríþróttakappi sem þekktastur er fyrir ótrúlegt þol sitt fyrir kulda. Hann hefur komist í heimsmetabók Guinness oftar en einu sinni og segir það eigin aðferðafræði að þakka – aðferðafræði sem blandar saman kulda, öndunartækni og hugleiðslu.

Árið 2000 setti Hof sitt fyrsta heimsmet í lengsta sundi undir ís. Hann gerði sér lítið fyrir og synti heila 57,5 metra. Sundið, sem fór fram í Finlandi, var tekið upp fyrir hollenska sjónvarpsþáttaröð. Daginn áður en Hof setti heimsmetið, hafði hann synt prufuferð sem endaði nærri með ósköpum. Hornhimnurnar í augunum hans byrjuðu að frjósa og synti hann því blindur í einhvern tíma. Endaði sundferð sú með því að Hof missti meðvitund og var bjargað af kafara.

Sjö árum síðar setur hann annað heimsmet. Að þessu sinni er það besti tími sem náðst hefur verið í hálfmaraþoni – hlaupið á berum fótum, í snjó og á ís.

Nýjasta heimsmetið setti Hof svo árið 2013 þegar hann sat í ísbaði í 1 klukkutíma, 53 mínútur og 10 sekúndur samfleytt. Það heimsmet hefur hann sett alls 16 sinnum.

Fyrir utan öll heimsmetin hefur Hof reynt að klífa Everest á stuttbuxum og skóm einum fata, komist á topp Kilamanjaro, á minna en tveim dögum, klæddur aðeins stuttbuxum og klárað heilt maraþon í Namib eyðimörkinni, án þess að drekka svo lítið sem dropa af vatni.

Rannsóknir hafa sýnt að aðferðir Hof geta bælt niður meðfædda ónæmissvörun í tengslum við aukna hjartsláttatíðni og hátt magn adrenalíns.

Maður ætti kannski að prófa þetta…

Wim-Hof-4-GQ-1Mar16-pr_b
Mynd:24 Life