Útlit er fyrir ágætis veður um helgina og eflaust margir sem ætla sér eitthvað út. Ég veit ekki með ykkur en eftir langan dag úti þykir mér fátt betra en að koma heim, henda mér í sófann og horfa á góða bíómynd, með poppskál við höndina.

Hér er listi yfir nokkrar myndir sem ég get mælt með að horfa á um helgina…

Touching The Void

Image result for touching the void

Þessi er í persónulegu uppáhaldi. Touching The Void er heimildamynd sem segir frá afdrifum tveggja ungra fjallgöngumanna, Joe Simpson og Simon Yates, sem ákváðu um miðjan áratug síðustu aldar, að klífa Siula Grande í Perú. Það hafði áður verið reynt en engum hafði tekist að komast upp á topp. Joe og Simon ætluðu sér að klífa tindinn í einni atrennu en ferðin átti eftir að reynast þeim lífshættuleg.

Icarus

Image result for icarus movie

Með þessari mögnuðu heimildamynd ætlaði leikstjórinn og hjólreiðaáhugamaðurinn Bryan Fogel að sýna fram á hve auðvelt það væri að komast upp með lyfjamisnotkun í íþróttaheiminum. Í tilraunaskyni byrjar hann að taka inn ólögleg efni til að auka árangur sinn í hjólreiðum. Verkefnið leiðir hann á fund með Grigory Rodchenkov, formanni rússneska lyfjaeftirlitsins. Í kjölfarið koma upp á yfirborðið upplýsingar sem áttu eftir að svipta hulunni af útbreiddri og kerfisbundinni lyfjaprófun rússneska ríkisins og flækja Bryan inn í einn stærsta skandal í sögu íþrótta.

The Mountain Between Us

Image result for the mountain between us poster

Ef þig langar að hita upp fyrir valentínusardag eða vantar bara einhverja mynd til að horfa á með makanum þínum, þá er The Mountain Between Us alveg ágæt! Hún fjallar um ókunnugt fólk sem lendir í flugslysi, þar sem vélin hrapar lengst uppi í fjöllum. Þau ein lifa slysið af og neyðast til að skapa tengsl sín á milli til að halda sér á lífi í óbyggðum. Þegar öll von um hjálp er úti leggja þau saman af stað í hættulega ferð niður fjallið. Kate Winslet og Idris Elba fara með aðalhlutverk í myndinni.

The Art Of FLIGHT

Image result for the art of flight movie poster

Í þessari heimildamynd ögrar snjóbrettakappinn Travis Scott sjálfum sér og ystu mörkum þess sem hægt er að gera á bretti uppi í fjöllum. Myndin var tekin upp á tveimur árum, á nokkrum harðgerðustu, afskekktustu og fallegustu stöðum í heimi. Í myndinni má m.a. heyra tónlist eftir íslensku hljómsveitina Sigur Rós. The Art of FLIGHT er mynd sem enginn sannur snjóbrettaunandi ætti að láta framhjá sér fara.

Death Grip

Deathgrip (2017)

Með Death Grip höfðu ofurhugarnir Brendan Fairclough og Josh Bryceland aðeins eitt markmið – að veita heiminum nýja sýn á fjallahjólreiðar. Í tvö ár ferðuðust þeir um allan heiminn og gerðu ekki annað en að hjóla og taka upp. Útkoman er sjónræn upplifun eins og hún gerist best og fær hvaða fjallahjólreiðamann sem er til að vilja taka í stýrið.