Þegar ferðast er um óbyggðir skal ávallt gæta fyllsta öryggis. Hér á landi minna náttúruöflin oft hressilega á sig og hversu vanmáttugir við mennirnir getum verið gagnvart þeim. Með góðum undirbúningi er þó hægt að gera baráttuna við þau mun bærilegri.

Við fengum Leif Örn Svavarsson hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum til að deila með okkur nokkrum atriðum, sem mikilvægt er að hafa á hreinu þegar halda skal út í óbyggðir. Leifur er jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, með framhaldsmenntun í snjóflóðum. Hann hefur stýrt fjallgöngu- og jöklaleiðsagnarhluta Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og séð um þjálfun jöklaleiðsögumanna sem yfirleiðsögumaður til margra ára. Hann hefur farssællega stýrt leiðöngrum á nokkur hæstu fjöll heims og var fyrstur Íslendinga til að komast upp á topp Everest, með því að fara upp norðanmegin. Það er því óhætt að treysta orðum Leifs í þessum málum.

„Sem betur fer er það lang oftast sem útivist gengur vel og ekkert kemur fyrir. Einstaka sinnum þá fer eitthvað úrskeiðis. Eitthvað alvarlegt gerist eða röð smárra atvika geta haft alvarlegar afleiðingar. Þá eru það nokkur atriði sem geta skilið á milli feigs og ófeigs…“

Ull og aukafatnaður
Veður og aðstæður geta komið okkur á óvart. Hættara er við því á vorin og haustin að vetraraðstæður í fjalllendi komi okkur í opna skjöldu og eins hversu hraðar veðurbreytingar geta verið. Jafnvel um hásumar geta aðstæður verið lífshættulegar ef vindur er samfara úrkomu. Ullin hefur þá frábæru eiginleika að geta haldið á okkur hita þrátt fyrir að hún blotni og með því úrvali af þægilegum ullarnærfatnaði sem til í er útivistarverslunum þá er hægt að klæðast ull næst líkamanum hvort sem að það er gengið, hjólað eða hlaupið. Vatns og vindheldur fatnaður á alltaf heima í bakpokanum.  Það er gott að eiga léttan og hentugan fatnað sem við tökum alltaf með hvort sem það stendur til að nota hann eða ekki. Þegar við erum klædd fyrir hreyfngu og sveitt eftir erfiði þá getur skipt sköpum að hafa með dún- eða primaloft úlpu sem við getum farið í ef við þurfum að stoppa, bíða eða halda kyrru fyrir.

Næring til að geta hugsað og haldið á sér hita
Við ættum alltaf að gæta þess að hafa aukabirgðir af vökva og næringu til að geta gripið til ef á þarf að halda. Það er ekki bara nauðsynlegt til þess að geta haldið á sér hita ef eitthvað kemur fyrir heldur einnig til þess að minnka líkurnar á mistökum sem hætta er á að við gerum ef við verðum of þreytt. Þegar á hólminn er komið þá er alltaf gott að hafa með sér hitabrúsa í göngu og orkustykki eða orkugel í hlaupa- og hjólaferðum. Auka orkustykki eða gel sem geymast vel mega gjarnan vera geymd í bakpokanum á milli ferða þannig að síður sé hætta á að við gleymum að taka þau með.

Aukahleðsla fyrir farsímann
Við treystum orðið sífellt meira á farsímana okkar. Í gamla daga gættu menn þess að láta einhvern vita að því hvert þeir væru að fara og hvenær þeir ætluðu að koma til baka en í dag treystum á farsímasamband til að láta vita af okkur ef eithvað kemur fyrir. Við notum farsímann til þess að rata, nákvæmustu landakortin eru í farsímanum og við fylgjum hjólaleiðunum eftir farsímaforritum. Við notum jafnvel farsímann sem vasaljós ef við lendum óvænt í myrkri í stað þess að hafa ennisljós til taks í bakpokanum allan veturinn eins og þótti góður siður. „Hleðslukubbur“ til þess að geta hlaðið farsíma eru orðin öryggistæki til þess að hafa með sér í alla útivist.

Við þökkum Leif fyrir orðið og minnum um leið á að þekking er vald.

Fyrir þá sem vilja bæta á þekkingu sína og vera þannig við öllu búnir bjóða Íslenskir Fjallaleiðsögumenn upp á 10 daga námskeið í skyndihjálp í óbyggðum. Uppselt er á námskeiðið í janúar en opið er fyrir skráningar í það næsta sem hefst 6. maí.

Mynd: Björgvin Hilmarsson – Íslenskir Fjallaleiðsögumenn