Freeride klifurleiðin sem Alex Honnold fer í myndinni.

Það er ljóst að Alex Honnold óttast ekki dauðann. Hann ræðir það lauslega við kærustuna sína í kvikmyndinni Free Solo þar sem Honnold klifrar án trygginga upp El Capitan í Yosemite þjóðgarðinum í Bandaríkjunum. Hann segir langlífi ekki valkost sem hann vilji stefna á. Allir sem horfa á hann klifra óttast hins vegar að hann muni hrapa til bana. Það er andlega og líkamlega erfitt að horfa á Free Solo. Mér hefur aldrei liðið jafn illa á nokkurri mynd. Samt vissi ég hvernig hún endaði. Ég held að ég viti líka hvernig muni á endanum fara fyrir aðalsöguhetjunni. 

Það varð mér nefnilega líka ljóst við að horfa á myndina sem sýnd hefur verið í örfá skipti í Bíó Paradís, á vegum Íslenska Alpaklúbbsins, að mjög líklega munum við heyra fréttir af dauða þessa glæsilega unga manns í klifurslysi. Hann er ekki að fara að hætta þessu og hann er ekki ofurmenni. Hann er örugglega besti klifrarinn í heiminum í dag en hann gerir mistök. Hann dettur án þess að vita hvers vegna. Að því leiti er hann eins og við hin. Munurinn er sá að hann dettur bara eiginlega aldrei en þegar klifrað er án trygginga er eitt fall nóg. 

Alex hefur verið spurður ótal sinnum hvort hann sé ekki hræddur við að deyja og hvort hann hugsi ekki um það að hrapa. Hann segist þreyttur á að svara þessum spurningum en segir að líklega yrðu það verstu fjórar sekúndur lífs síns og á þar við tímann sem það tæki hann að hrapa til jarðar. Á það hefur verið bent að þetta sé ekki alls kostar rétt. Miðað við hæðina sem hann er að klifra í á hæstu leiðunum sem hann hefur klifrað án trygginga yrðu þetta líklega 14 verstu sekúndur lífs hans.   

Alex Honnold er hrífandi miðpunktur myndarinnar. Allir óttast að hann deyji í klifurslysi – nema hann.

Ég hef eiginlega verið svolítið sorgmæddur eftir að hafa horft á Free Solo. Alex Honnold er svo ljúfur og viðkunnanlegur gaur. Hann er nægjusamur, gefandi og heillandi snillingur. Svo fullkomin fyrirmynd að mörgu leiti. Og hann hefur valið sér braut sem getur eiginlega bara endað á einn veg – nema hann fái skyndilegan áhuga á golfi. 

Free Solo er hrífandi mynd á margan hátt. Þau Jimmy Chin og kona hans Elizabeth Chai Vasarhelyi eru meistarar á þessu sviði. Mynd þeirra Meru er ein flottasta klifur- og fjallamynd allra tíma og Free Solo er meistarastykki. En sem kvikmyndagerðarmenn og sem vinir Alex þurftu þau að horfast í augu við það að myndatakan og heimildamyndagerðin gæti haft afdrifarík áhrif á ákvarðanatöku hans á meðan á klifrinu stæði. Þess vegna er gerð myndarinnar hluti af sögunni í Free Solo. Ákvörðunin um að vera ekki of sýnileg og að setja upp fjarstýrðar myndavélar á vissum stöðum byggir á þessu. Þarna eru vinir Alex að fylgjast með honum framkvæma hreyfingar í berginu í mörg hundruð metra hæð sem gætu endað með skyndilegu hrapi og dauða. Eitt athyglisverðasta sjónarhorn myndarinnar sýnir tökumanninn sem tekur víða skotið frá jörðu niðri þar sem hann getur ekki horft á Alex klifra erfiðustu hluta leiðarinnar og fylgist með skjánum á vél sinni með öðru auganu svona eins og þegar við hin horfum á hryllingsmynd. Þannig að ef Alex Honnold fellur þá verður til myndefni af því og ennfremur, það verður til myndefni af viðbrögðum tökumanna. Sem betur fer þurfti ekki að taka ákvörðun um hvað gera skyldi við slíkar myndir en það er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvað maður myndi sjálfur gera. Þetta er heimildamynd og það er í eðli þeirra að sýna framvindu mála hvernig sem fer og reyna ekki að hafa áhrif á hana.

Er siðlegt að sýna mann hrapa til bana? Er siðlegt að sýna mann stofna lífi sínu í hættu með þessum hætti? Bera Alex, Elizabeth, Jimmy og National Geographic ábyrgð á þeim sem vilja gera það sama? Það er auðvelt að segja nei – hver maður ber ábyrgð á sínu lífi, þannig hefur það alltaf verið á fjöllum. En það verður erfitt að hugsa það ekki – næst þegar koma fréttir af klifrara sem hrapar tryggingarlaus. 

Er siðlegt af okkur að fara og kaupa miða á þessa mynd? Af hverju er hún heillandi? Er það ekki vegna þess að maður stofnar lífi sínu í hættu? Hver er okkar ábyrgð?

Alex Honnold er klárlega á einhverju rófi, það er heilastarfsemi hans er á einhvern hátt öðruvísi en okkar hinna. Mamma hans segir í myndinni að það sé ekki hægt að banna honum að gera þetta. Þetta sé það sem hann lifi fyrir og elski. Ef ég væri mamma hans, myndi ég þó biðja hann um að hætta þessu strax. Ég myndi segja svona manni, ef hann væri í mínum vinahópi, þú heldur að þú getir ekki lifað án þess að gera þetta en það er rangt hjá þér. Þú getur ekki lifað ef þú gerir þetta! Hættu þessu. Klifraðu í tryggingu. Þú heldur að þú elskir að gera þetta en það er rugl. Sú tilfinning líður hjá. Lífið er dýrmætt. Ekki sóa því. Lifðu til að klifra alla ævi. Lifðu til að vera samferða vinum þínum og ástvinum eins lengi og þú getur og láttu áfram gott af þér leiða. 

Á fólk að sjá þessa mynd? Ég veit það ekki. Hún er vel gerð og hún er heillandi. Frábær en líka hræðileg … í orðsins fyllstu merkingu. Kannski er það versta við hana að maður vilji sjá hana. Hvað segir það um mig?